28.02.1927
Neðri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

48. mál, notkun bifreiða

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg vil þakka hæstv. atvrh. (MG) undirtektir hans undir þetta mál, og hefi jeg litlar athugasemdir við ræðu hans að gera.

Jeg get ekki sagt, hvernig heppilegast væri að skifta verkum með skoðunarmönnunum, en mjer virðist eðlilegt, að þeir væru allir búsettir hjer í bænum, því að hjeðan eru ferðir í allar áttir. Ættu ekki að vera miklir örðugleikar á að finna menn, sem færu þessar leiðir, bæði suður með sjó og austur yfir fjall. Þeir ættu svo að taka bifreiðarnar, hvar sem tóm væri til að skoða þær.

Jeg skal ekki segja, hve oft bifreiðar eru bilaðar, en jeg veit, að mikil brögð eru að því. Jeg hefi oft farið með bifreiðum, þar sem hraðamælir, hemill og jafnvel stýri hefir verið í ólagi.

Vel má vera, að það sje rjett hjá hæstv. ráðh. (MG), að rjett væri að fella niður 2. málsgr. 4. gr. bifreiðalaganna.