23.02.1927
Efri deild: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í C-deild Alþingistíðinda. (3116)

35. mál, einkasala á saltfisk

Jónas Jónsson:

Jeg hefi ekki þá ánægju, að geta fylgst með hv. seinasta ræðumanni nje heldur hv. flm. Jeg álít, að báðir fari villir vegar.

Hv. þm. Vestm. viðurkendi, að fyrirkomulag það, sem verið hefir á fisksölunni, sje ekki heppilegt. Jeg held, að allir sjeu sammála um, að eitt af því athugaverðasta við sölufyrirkomulagið hafi verið, að stórsalan hefir verið í höndum útlendinga, og að ástandið hefir farið versnandi. Einn maður hjer, sem oft hefir orðið gjaldþrota, mun enn vera stærsti fiskkaupmaðurinn. Hann var mikið riðinn við stofnun fiskhrings hjer á árunum, en það fyrirtæki fór á höfuðið. En næst, þegar samtök eru reynd í sömu átt meðal útgerðarmanna, þá rís þessi maður upp, og gefur þá hvor þá lýsingu á hinum, er ekki voru til þess fallnar, að gefa öðrum út í frá háar hugmyndir um þá.

Ísland stendur nú mjög illa að vígi um fisksöluna. Það er ekki kunnugt, að þau firmu, er hafa mikla fiskframleiðslu undir höndum, eins og firma það, er hv. þm. Vestm. stendur að, hafi fastar söluskrifstofur í markaðslöndunum, nje hafi gert neinar gagnlegar tilraunir um það, að ná í nýja markaði, svo sem t. d. í Suður-Ameríku.

Það er varla hægt að hugsa sjer meira ómyndar ástand en hjer að þessu leyti. Það má svo segja, að Íslendingar sjeu leiddir til höggs, líkt og Hólmverjar forðum.

Þótt jeg búist ekki við því, að frv. þetta nái fram að ganga, get jeg ekki látið vera að benda útgerðarmönnum á, að hjer er ekki alt eins og það á að vera. Þetta fundu þeir að vísu í haust og gerðu þá með sjer samtök. En jeg heyri sagt, að enn hafi enginn grætt á þeim samtökum, nema þeir, sem voru utan við þau. Þeir hafi selt sinn fisk strax, hinir ekki. En þessi samtök sanna, að útgerðarmenn sjá nú, að undangengið ástand var óþolandi. Þó mega þeir vita, að það verður varla vinsælt til frambúðar, að hjer komi hlutafjelag fárra innlendra manna, er ætlar sjer að skamta öðrum útgerðarmönnum verð fyrir fiskinn. Þessi úrlausn málsins er ekki annað en leið að sama marki og frv. fer fram á að farin sje. Báðir álíta ástandið vont, og báðir eru í samræmi við straum þann, er liggur inn í framtíðina, báðir álíta, að stofna þurfi sterkan hring til að sjá um söluna. Þetta er sú stefna, er nú færist í aukana erlendis, og kemur síðast fram í nýjustu frjettum um stáliðnaðarsamsteypuna í Frakklandi, Þýskalandi og Belgíu, sem gerð er til þess að halda uppi verði á vörunum. Svo mikils virði þykir nútímamönnum þetta, að mestu hatursþjóðirnar í ófriðnum láta fornan fjandskap niður falla, vegna sameiginlegra hagsmuna allra aðila, um betri sölu á afurðum sínum.

Þegar jeg lít á frv. það, er hjer liggur fyrir, þá finst mjer það annmörkum bundið, að fyrirmæli þessi komi til framkvæmda, enda þótt hugmyndin sje rjettmæt að vissu leyti. Setjum svo, að frv. verði samþykt, eins og nú er ástatt hjer á landi. Mjer skilst þá, að það fyrsta, sem gert yrði, væri, að ríkisstjórnin — sem hefir sýnt mikla andúð gegn því, sem frv. fer fram á — færi að framkvæma lögin og velja forstjóra, einn eða fleiri, til þess að standa fyrir málinu. Þetta álít jeg óheppilegt fyrir framgang þessa máls. Jeg held því fram, að ein af ástæðunum fyrir því, að svo vel tókst með landsverslunina á stríðsárunum, og steinolíu- og tóbaksverslunina, meðan landið rak þá einkasölu, hafi verið það, að mennirnir, sem voru valdir til þess að standa fyrir þessari íslensku landsverslun, höfðu trú á málinu og vildu leggja sitt besta fram. Aftur á móti gæti jeg hugsað mjer — án þess beinlínis að segja það til núverandi stjórnar — að ef einhver stjórn, sem tryði aðallega á „spekulation“ eða fjárhættuspil í sambandi við atvinnureksturinn, ætti að fara að útnefna forstjóra til þess að selja allan íslenskan fisk, þá hygg jeg það mundi verða harla lítil gleði fyrir hv. 5. landsk., þegar hann sæi framkvæmdirnar á þessu máli unnar af engum áhuga, og jafnvel af þeim mönnum, sem vildu láta þetta fyrirkomulag verða til skammar. Jeg tek dýpra í árinni: þótt stjórnin væri þessu ekki andvíg, væri hlutlaus, óskaði ekki að fyrirtækið færi á höfuðið, þá er samt sem áður mjög mikil hætta á, að það yrði að minsta kosti vakin tortrygni að ástæðulausu af ýmsum, sem að þessu standa, um það, að því væri illa stjórnað. Það eru til dæmi úr íslenskri verslunarsögu um það, að ástæðulaus tortrygni hefir verið vakin gegn opinberum framkvæmdum, af þessu tæi, af mönnum, sem hafa aðeins borið kala til ríkisstarfsemi. Ennfremur álít jeg, að meðan samkomulag er jafnilt og enn er milli þeirra tveggja aðila, sem standa að fiskframleiðslunni, þá sjeu litlar líkur til, að nokkur pólitísk stjórn mundi hitta á leið, sem yrði til lengdar farin, svipaða og í frv. er stungið upþ á. En jeg held hinsvegar, að ef tekið væri nokkuð frá báðum, sem hafa lagt til þessara mála, þá verði komist nær hinni rjettu leið. Útgerðarmenn hafa leitað til löggjafarvaldsins viðvíkjandi síldarverslun og beðið um lögvernd á einskonar fjelagsskap, sem þeir vildu stofna, til þess að koma henni í horf í sumar sem leið notaðist ekki sú heimild, sem þingið gaf í fyrra, af því að Íslendingar, sem háðir voru útlendum hagsmunum, beittu sjer mikið á móti þessu. Mjer er sagt, að nú líti þó fremur út fyrir, að íslenskir hagsmunir verði yfirsterkari, og standi nú til að freista að reyna þetta innlenda síldarfjelag. En fjelag þetta hefir einn galla. Það verður aðeins hringur stórra síldarkaupmanna og síldarframleiðenda. Það átti ekki að vera bygt á því, að allir síldarframleiðendur gætu fengið sannvirði fyrir sína vöru, eða hefðu ráð yfir fyrirtækinu. Það, sem hjálpað hefir bændum til þess að koma lagi á sína verslun, er að hafa með samvinnufjelögum myndað verslunarform, sem er eins sterkt út á við og nokkur hringur getur verið, en lætur þó alla njóta jafnrjettis inn á við, stóra og smáa.

Jeg held í raun og veru, að ef það form, sem aðstandendur síldarfjelagsins í fyrra lögðu til grundvallar, er dálítið endurbætt, þannig, að allir, sem vinna að framleiðslunni, t. d. síldar- og fiskframleiðendur, hefðu atkvæðisrjett um, hvernig fjelagið starfaði og slíku samlagi væri gefin lögvernd til þess að fara með sölu á afurðum, þá mundi vera fundin sú leið, að bæði útgerðarmenn og verkamenn gætu verið ánægðir með sinn hlut, og að þá liði þjóðarbúskapurinn minna en nú, af þeirri gegndarlausu „spekulation“ og jafnvel fjárglæfrum, sem hafa komið fram í sölu þessara afurða okkar.

Jeg geri þó alls ekki ráð fyrir, að nein slík brú verði bygð fyrst um sinn. Til þess er djúpið of mikið milli þeirra stjetta, sem vinna að fiskframleiðslunni. Jeg geri ráð fyrir því — því miður — að þau vandræði, sem nú eru og hafa verið, muni vara enn um allmörg ár. Þó er það ekki ósennilegt, að þessir tveir aðilar mætist á miðri leið, þannig, að þeir efni til fjelags um sölu á fiski og síld, sem sje háð þeim reglum — eins og venja er í lýðfrjálsu landi — sem það fólk setur, er vinnur að framleiðslunni, og fái svo þetta fjelag samskonar lögvernd og síldarsamlagið hefir fengið. Jeg býst við, að mönnum sje ljóst, að það þurfi nokkurn tíma til þess, að reynslan ali upp þá aðila, sem að þessu standa, þangað til þeir sjá, að eins og þeir vinna að framleiðslunni í fjelagi, eins eiga þeir að vinna að sölunni í fjelagi, og bera hver úr býtum eftir því, sem hann hefir til lagt.

Jeg er ekki eins mikið gefinn fyrir það eins og sumir aðrir, að fella frv. frá umræðu, og þá ekki þetta frv., þar sem það er vitanlega alvarleg leit eftir umbótum. En jeg geri þó ekki ráð fyrir að geta fylgt þessu frv., eða þeim grundvelli, sem hjer er lagður, nema til 2. umr.