23.02.1927
Efri deild: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í C-deild Alþingistíðinda. (3119)

35. mál, einkasala á saltfisk

Ingvar Pálmason:

Jeg skal ekki tefja umræðurnar lengi. Hvað sem þessu frv. líður, væri þó full ástæða til að ræða fisksölumálið ítarlega. Það er eitt af okkar mestu vandamálum, og allir játa, að það sje í ólagi. Það hryggir mig því, hve hjer er sýnt mikið áhugaleysi fyrir þessu máli, þar sem stundum er ekki nema helmingur deildarmanna á fundi. Mjer þykir líka leitt, að hæstv. atvrh. skuli ekki vera viðstaddur, ef heilsa hans leyfir.

Jeg skal ekki blanda mjer inn í deilur þeirra hv. 5. landsk. og hv. þm. Vestm. Það var samt eitt atriði í fyrri ræðu hv. þm. Vestm., sem mjer finst deildinni ekki samboðið að fylgja. Hann sagðist ekki sjá ástæðu til að eyða miklum tíma til að ræða þetta mál. Það hryggir mig, að maður úr flokki sjávarútvegsmanna skuli tala svo. Þetta frv. er þó einasta bjargráðið, sem borið er fram í þessu máli. Hv. 5. landsk. ber það fram sem bjargráð, þótt það ef til vill yrði það ekki í reyndinni. Mjer finst skylda okkar, ef við getum ekki fallist á þetta frv., að reyna að koma með annað betra. Hvort sem frv. fær fylgi í þessum búningi eða ekki, finst mjer líklegt, að eitthvað gott geti sprottið af umræðum um málið. Jeg treysti mjer ekki að koma með neinar sannanir fyrir því, að þetta frv. reynist vel í framtíðinni. En þetta er þó leið, sem sjálfsagt er að athuga. Svipuð leið virðist raunar vaka fyrir hv. þm. Vestm., þó í öðru formi sje. Aðalatriðið í mínum augum er það, að reynt sje að afla rýmri markaðs fyrir saltfisk en nú er. Jeg hefi aldrei haft eins bjargfasta trú á Spánarmarkaðinum og hv. þm. Vestm. Jeg lít svo á, að það hafi orðið landinu til stórtjóns, hve fast við höfum bundið okkur við Spánarmarkaðinn. — En í sambandi við þetta mál hefði mjer þótt æskilegt, að fá skýrslu frá hæstv. atvrh. um árangur af starfsemi erindrekans á Spáni. Hv. deild er kunnugt, að jeg var mótfallinn þeirri embættisstofnun, af því jeg áleit, að þar væri ekki bygt á rjettum grundvelli. Jeg áleit, að ekki væri mest þörf erindreka á Spáni, heldur þar, sem þarf að brjóta markaðinum nýjar leiðir. Jeg álít nú tíma til þess kominn, að þing og þjóð fái að heyra skýrslu um árangur þessa erindrekastarfs. Jeg skal ekki fara lengra út í þetta að sinni. En fáist ekki svar við þetta tækifæri, geri jeg ráð fyrir að bera fram fyrirspurn síðar.

En um frv. er það að segja, að mjer finst deildin ekki, sóma síns vegna, geta felt það frá 2. umr., nema kjarni þess sje þá tekinn upp í annari mynd.