19.02.1927
Efri deild: 9. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (3150)

33. mál, veðurfregnir frá Grænlandi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Út af þessari till., sem hjer liggur fyrir, skal jeg taka það fram, að stjórnin er fús á það að reyna að fá því framgengt, sem í tillögunni felst. En jeg vil um leið upplýsa það, að það er langt frá því, að ekkert hafi verið gert í þessu máli. Veðurathugunarstofan hefir gert sjer mikið far um að fá skeytin frá Julianehaab kl. 5 á kvöldin.

Um jólin í vetur var svo komið, að formaður veðurathugunarstofunnar dönsku símaði til formanns veðurathugunarstofunnar hjer, að ekkert væri í veginum frá þeirra hálfu með að fá skeytin, ef samkomulag næðist við loftskeytastöðina hjer. Það var auðsótt mál við loftskeytastöðina, og var það símað út, en þá hefir eitthvað orðið til fyrirstöðu þar, sem maður veit ekki um nú, en fær væntanlega bráðum að vita. Jeg tek þetta fram til þess að sýna, að veðurathugunarstofan hefir verið að vinna að því marki, sem sett er í till. Jeg býst við, að ekki líði á löngu áður en þetta kemst í lag. Þó þori jeg ekki að fullyrða, að það komi að notum á þessari vertíð, því að það er erfitt að fá fljóta afgreiðslu, þar sem hjer eru svo margir milliliðir. Við verðum að snúa okkur til dönsku innanríkisstjórnarinnar, en hún leitar aftur til stjórnar Grænlandsmálanna.

Á alþjóðafundi veðurfræðinga í Zürich í sumar færði forstöðumaður veðurathugunarstofunnar hjer þetta mál í tal við formann veðurfræðisstofunnar dönsku, og lofaði hann þá að vera málinu hlyntur. Jeg get bætt því við, að ein af ástæðunum til þess að forstöðumaðurinn var sendur á þennan fund voru einmitt þessi Grænlandsskeyti, af því að það var vitað, að þau hafa mikla þýðingu fyrir veðurspár hjer á landi.

Út af fyrirspurn hv. 1. landsk. (JJ) um það, hvort ekki væri hægt að halda stöðvunum lengur opnum um vertíðina en annars er tilskilið, þá býst jeg ekki við, að neitt sje því til fyrirstöðu.

Vænti jeg svo, að hv. flm. finni ekki ástæðu til þess að kvarta undan undirtektum stjórnarinnar í þessu máli.