01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (3158)

47. mál, lögheimili og byggðarleyfi

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg gæti fyrir mitt leyti greitt atkv. með tveim fyrri liðum þessarar till., en þriðja liðnum er jeg algerlega andvígur. — Að vísu er varla hægt að búast við miklum umbótatillögum, þó að hæstv. stjórn fari að athuga þau mál, sem upp eru talin í fyrri liðum till., en þó er ekki alveg óhugsandi, að eitthvað gott kynni að slæðast með. En verði farið að samþykkja eitthvað í þá átt, sem þriðji liðurinn fer fram á, væri það beint til hins verra.

Það má kallast gleðiefni, að hv. flm. (BSt) hefir nokkuð hopað á hæl í þessu máli, frá því sem verið hefir á fyrri þingum. Nú á aðeins að skora á stjórnina að athuga málið, í stað þess að undanfarið hefir hv. þm. (BSt) viljað setja um það bein lagafyrirmæli. Þó var það auðheyrt, að hann bjóst við, að farin yrði sú leið í málinu, sem hann áður hefir haldið fram. En frv. hans á undanförnum þingum hafa ekki mætt neinum óskapafögnuði. Hjer á þinginu hafa þau sofnað sætt, og enginn efi er á því, að þau hafa mætt meiri mótstöðu en fylgi úti um land. Er þetta engin furða, því að eftir till. hv. þm. (BSt) eiga sveitar- og bæjarstjórnir að ráða því, hvort menn megi setjast að í umdæmi þeirra. Gætu þær þá farið eftir pólitík eða eftir efnahag um það, hvort þær hleyptu mönnum inn í sveitina eða bæinn. Fátækum mönnum yrði alstaðar varnað inngöngu, og yrði þannig tvennskonar „rjettur“ í landinu, eftir efnahag manna. Jeg er líka í vafa um, hvert gagn gæti orðið að slíkum lögum. Varla yrðu þau aðallega sett vegna sveitanna, því að ekki heyrist manni vera svo ógurlegt aðstreymi af fólki þangað, að stemma þurfi stigu fyrir það með lagasetningu. Mun því mega gera ráð fyrir, að þeim sje aðallega ætlað að hefta innflutning manna í bæina. Jeg veit nú ekki til, að nokkur bæjarstjórn hafi farið fram á að fá slíka heimild. Og þó að bæjarstjórnir hefðu beðið um slíka heimild, hvað ætti þá að verða um fólkið? Þá fengi fátækur maður aldrei að flytjast þar inn, sem bjargvænlegast er, heldur yrði hann rekinn aftur með lögregluvaldi. Yrði þá ekki um annað að gera fyrir menn heldur en að flýja land eða sitja kyrrir við hin aumustu kjör og afarkosti.

Engin hætta er á því, sem hampað hefir verið, að menn mundu þyrpast þangað, sem atvinnuleysið er mest. Það er almenn regla, að sje atvinnuleysi á einhverjum stað, leita menn þaðan til þess staðar, sem meiri atvinna er.

Þessi þáltill. og þessi vandræðafrv. um bygðarleyfi, sem hjer hafa verið á ferð að undanförnu, stafa af því, að fátækralögin eru á eftir tímanum. Eina lausnin á þessum málum er að gera alt landið að einu framfærslufjelagi. Þó að e. t. v. sje eðlilegt að hafa einhver rjettindi bundin við búsetu í bæ eða sveit, má það ekki ganga svo langt að gera sveitirnar að ríki í ríkinu. A. m. k. eru fáir sammála bóndanum hjer á Suðurlandi, sem var óánægður við landsstjórnina og vildi, að sinn hreppur sliti öllu sambandi við Ísland.

Eftir því sem samgöngur hafa batnað, hefir orðið tíðara, að fólkið flyttist fram og aftur um landið eftir atvinnunni. Jeg held, að því verði best hjálpað í þeim efnum með því að láta það óáreitt. Skorður eins og þær, sem talað er um í 3. lið tillögu þessarar, verða altaf til hins verra.

Jeg vil því leyfa mjer að biðja hæstv. forseta (BSv) að bera 3. lið till. upp sjer í lagi.