01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (3161)

47. mál, lögheimili og byggðarleyfi

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal ekki tala langt mál um þessa till. En út af orðum hv. flm. (BSt) vil jeg taka fram, að jeg álít, að stjórninni sje skylt að undirbúa hvert það lagafrv., sem Alþingi óskar. Því mundi hún sjálfsagt telja sjer skylt að koma með frv. um þetta efni fyrir næsta þing, ef till. verður samþykt. Þar fyrir getur það oft verið erfitt fyrir stjórnirnar að semja slík lagafrv., og er engan veginn víst, að þau verði eins og þingið vill. — Verð jeg því að segja, að stjórnin hefir ekkert á móti því að taka við þessari þáltill. og það því síður, sem hún er svo kurteislega orðuð, að hún fer aðeins fram á, að málið sje athugað, en heimtar ekki, að nein sjerstök ákvæði verði tekin upp í væntanlegt lagafrv.

Um 3. liðinn, bygðarleyfistillögurnar, vil jeg segja það, að mjer finst mjög eðlilegt, að lög um það efni sjeu sett í sambandi við lög um heimilisfesti, eins og hjer er farið fram á. Hitt er alveg rjett, sem hv. 1. þm. Rang. (KlJ) sagði, að þau afdrif, sem vinnuhjúafrv. fekk á þingi 1923, eru ekki sjerlega hvetjandi fyrir stjórnina til að undirbúa frv. um þetta efni. En um slíkt tjáir vitanlega ekki að fást.

Svar mitt er þá í stuttu máli það, að stjórnin er fús að takast á hendur það verk, sem till. leggur henni á herðar, en getur að sjálfsögðu ekki lofað, að það verði þannig af hendi leyst, að meiri hluti hv. deildar geti fallist á till. stjórnarinnar.

Það kemur ekki beinlínis þessu máli við, sem hv. 4. þm. Reykv. (HjV) mintist á fátækralögin. Það mál kemur sennilega bráðum á dagskrá hjer í hv. deild, og gefst þá tækifæri að deila um það. En hitt kann jeg ekki við, að hann sje að hælast um illan undirbúning þess máls, á meðan ekki er sjeð, hvernig hv. deild tekur í það. En sæti það miklum aðfinslum hjer, þá gæti fyrst verið um að ræða, að jeg taki ákúrum frá hans hendi.

Sami hv. þm. (HjV) var eitthvað að tala um það, að ekki væri rjett að hindra með lögum atvinnuleit manna til kaupstaðanna. Þetta finst mjer því undarlegra, sem jeg man ekki betur en gefin væri út nú í vetur auglýsing um að vara fólk við að sækja hingað í atvinnuleit, og mun þetta, eftir því sem jeg best veit, hafa verið gert eftir fyrirlagi þess flokks, er hann telur sig til. Virðist mjer því, að þm. sje hjer í ósamræmi við flokkinn.