01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (3162)

47. mál, lögheimili og byggðarleyfi

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Jeg get fyrir mitt leyti verið ánægður með svar hæstv. atvrh. (MG); hann virtist till. velviljaður í því formi, sem hún er fram borin. Vil jeg þakka honum undirtektirnar, en hefi svo ekki ástæðu til að segja neitt frekar út af orðum hans.

Ætla jeg þá að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Hann hóf mál sitt með því að segja um mig, að jeg hefði hopað á hæli frá því, er jeg í fyrstu hefði borið fram frv. um bygðarleyfi. En það er nú svo, að þegar maður kemst ekki þá leiðina, sem maður hafði kosið sjer, þá er að reyna aðra og nýja leið. Jeg hefi nú í þessu máli reynt frumvarpsleiðina tvisvar, en það ekki dugað. Því er það, að þetta mál er nú fram borið í þál.-formi, og það af þeirri einföldu ástæðu, að jeg tel þá leið líklegri til framgangs. Þess vegna get jeg ekki fallist á, að hjá mjer sje um undanhald að ræða í þessu máli. Það er nú líka svo, að oft er heppilegra, að mál komi frá stjórn og að hún undirbúi þau. Því er ekki nema eðlilegt, þó að við flm. reynum þál.-leiðina í þessu máli.

Þá sagði hv. sami þm. (HjV), að frv. mitt hefði átt litlum fögnuði að mæta hjer á Alþingi, og er það rjett. En um hitt efast jeg, að hann fari með rjett mál, er hann segir, að það hafi mætt sömu andúðinni úti um land. Að minsta kosti get jeg frætt hann um það, að margir flokksbræður hans á Akureyri hafa hallast að þeirri hugsun, sem fólst í frv. mínu.

Þá mintist hann á aðstöðu til stjórnmála í þessu sambandi og taldi, að hún mundi verða þess ráðandi, hvort maður fengi bygðarleyfi eða ekki. Úr þessari fjarstæðu hans geri jeg ekki neitt og tel óþarft að eyða frekari orðum að henni.

Hann spurði líka, hvað um fólkið ætti að verða, ef það mætti ekki flytja sig neitt, og vildi halda því fram, að það yrði þá að flýja úr landi. En þetta eru öfgar hjá honum eins og ýmislegt fleira, er hann segir um þetta mál. Jeg er þess fullviss, að um bygðarleyfi yrði ekki neitað nema í ítrustu nauðsyn. En af því að slík nauðsyn getur samt verið fyrir hendi, þá þarf þessi heimild að vera til í lögum.

Þá mintist sami hv. þm. (HjV) á atvinnuleysið og sagði, að fólkið mundi ekki sækja þangað, sem atvinnuleysi væri fyrir. Því er til að svara, að reynslan hefir sýnt og sannað, að fólkið fer meira eftir ástandinu eins og það var undanfarið, en athugar minna, hvernig það er á þessum eða hinum staðnum, sem það sækir til. Mjer detta í hug Vestmannaeyjar í þessu sambandi. Þar hefir verið góð atvinna undanfarin ár og fólk streymt þangað í stórum hópum, margir aðeins um stundarsakir, en þó hafa eflaust margir tekið sjer þar bólfestu, því íbúatalan hefir vaxið hröðum skrefum. Í vetur auglýsa svo verkamenn í Vestmannaeyjum, að þar sje um litla vinnu að ræða, og vara fólk við að sækja þangað í atvinnuleit. Þetta sýnir, að fljótt getur skift um og að góð atvinna undanfarið á staðnum dregur menn þrátt fyrir yfirstandandi atvinnuleysi. Það er í slíkum tilfellum sem þessum, að jeg tel bygðarleyfi heppilegt, svo hægt sje að reisa skorður við því, að fólkið flykkist saman, áður en til vandræða kemur, og steypi með því sjálfu sjer í glötun.

Þá fanst honum fjarskylt að nefna ríkisborgararjett í sambandi við framfærslurjett í einstakri sveit. En jeg verð nú að telja þetta töluvert skylt, enda má segja, að sveitarfjelögin sjeu einskonar ríki í ríkinu, sem hafa sín sjermál og sína hagsmuni að verja, eins og ríkið.

Það sem hv. 4. þm. Reykv. (HjV) taldi lausn á þessu máli, að ríkið taki að sjer fátækraframfærsluna, þá má vel vera, að það verði framtíðarskipulagið. Og yrði horfið að því ráði, þá hverfur þörfin til bygðarleyfislaga. Hinsvegar sje jeg ekki, að slík breyting muni komast á í náinni framtíð, og er því þörf á þessu lagaákvæði, á meðan ástandið er hið sama og nú.

Út af ræðu hv. 1. þm. Rang. (KlJ) þarf jeg ekki margt að segja. Hann mælti heldur með till., en ljet þess þó hinsvegar getið, að þar sem kosningar stæðu fyrir dyrum, þá mundi ekki heppilegur tími nú til þess að samþ. slíka till. Þótt hæstv. stjórn legði fram frv. um þetta efni, gæti svo farið, að næsta þing yrði á móti því. Þetta má vel vera, enda mun hann hafa haft í huga þál. um undirbúning vinnuhjúalaga, er samþ. var á þingi 1923, en lítinn árangur hefir borið, þar sem frv. stjórnarinnar um þetta efni náði ekki samþykki 1924.

En svona fer það ekki æfinlega, og mætti í því sambandi benda á, að á þinginu 1925 var stjórninni falið að endurskoða sveitarstjórnar- og fátækralöggjöfina. Sú till. hefir þó borið þann árangur, að 2 lagafrv. um þetta efni komu frá hæstv. stjórn í fyrra og náðu bæði samþ., og nú liggja önnur tvö fyrir Alþingi, sem búast má við að nái fram að ganga.

En úr hinu geri jeg ekki mikið, að óheppilegra sje að samþ. till. nú, þó að nýjar kosningar sjeu fyrir dyrum og nýtt þing að meira eða minna leyti setjist hjer næst á rökstóla. Jeg hefi þá trú á mínum málstað, að jeg hefi alveg eins mikla von um, að nýkosið þing taki slíku frv. vel, og það alveg að þessu þingi ólöstuðu.

Hv. þm. Ak. (BL) kallaði þessa stefnu um bygðarleyfi öfgastefnu, er gengi í ófrelsis- og íhaldsátt. En um það ætla jeg ekki að deila. Það getur vel verið, að hjer mæti öfgar öfgum. Að minsta kosti má segja með fullum rökum, að komið sje út í öfgar, hvað ríkið leyfir sjer að leggja sveitarfjelögunum þungar byrðar á herðar. Það hefir verið stefna síðari ára, að þegar þingið hefir ekki sjeð sjer fært að leggja meira á ríkið eða ríkissjóð, þá er ýmsum gjöldum slengt á bæjar- og sveitarfjelögin og það án tillits til þess, hvort þau eru fær um að bera það. Og á meðan slíku heldur áfram, er síst að furða, þó einhver verði til að fara fram á, að sveitarfjelögunum sje veittur einhver rjettur til að verja sig.