01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (3164)

47. mál, lögheimili og byggðarleyfi

Jón Guðnason:

Þó að jeg kveðji mjer hljóðs, þá er það ekki vegna þess, að jeg þurfi miklu við að bæta það, sem hv. meðflm. minn (BSt) hefir sagt um þessa till. okkar. Hann hefir reifað málið vel og rækilega, og það, sem mjer þykir mest um vert, hæstv. atvrh. hefir tekið till. vel, svo að vænta má, að hæstv. stjórn verði við þeim tilmælum, sem í till. felast.

En áður en þessari umr. er lokið vildi jeg nota tækifærið til þess að minnast örlítið á það atriðið, sem fyrir mjer er aðalatriðið, en það er skylda sú, sem ætlast er til, að lögð verði á menn um að eiga lögheimili.

Nú er það að vísu svo, að til eru lög, sem mæla svo fyrir, að menn skuli eiga lögheimili. En þau lög eru svo ófullkomin og gölluð, að oft reynist lítt mögulegt að útvega nokkra vissu um lögheimili manna, enda er svo komið, að margir svíkjast undan þessu ákvæði laganna. Það er því mesta nauðsyn að geta búið svo um hnútana, að fyrirbyggja megi það los, sem á er orðið í þessu efni.

Þegar fjöldi manna á ekkert heimili, reynist oft erfitt og stundum jafnvel ómögulegt að eltast við menn til þess að ná hjá þeim lögboðnum skyldum og sköttum, enda er mjer ekki grunlaust um, að mörgum sje ljóst, hve lögunum er ábótavant, og skjóti sjer því viljandi undan þeirri skyldu, að eiga lögheimili. Þetta hefir best komið í ljós, þegar menn hafa leitað sveitarstyrks; þá er tíðum erfitt að grafa upp, hvað lengi þeir voru á hverjum stað og hvar þeir þá eru sveitlægir, vegna þessarar óreglu, sem er á um heimilisfangið.

Jeg álít því, að hjer sje um svo stórt mál að ræða, að alls ekki megi dragast lengur en orðið er að setja rækileg ákvæði um þetta efni. Og mjer hefir komið í hug, að naumast væri hægt að fyrirbyggja það los, sem á sjer stað í þessu efni, með öðru móti en því — hvað snertir sveitir að minsta kosti — að öllum væri gert að skyldu að tilkynna hreppstjórum breytingar á heimilisfangi sínu, áður en manntalsþing eru haldin að vorinu, og hreppstjórar leggi síðan fyrir sýslumenn á þingum skrá yfir allar breytingar á heimilisfangi, sem hafa orðið innan hreppsins, ásamt skrá yfir fólk, sem flytti inn í hreppinn og út úr honum. Með þessu móti yrði hægt að leita uppi heimilisfang þeirra, sem ekki eru búnir að útvega sjer það í tæka tíð og tilkynna það.

Svo er eitt atriði í sambandi við þetta mál, sem einnig þyrfti að taka til athugunar. Það hefir komið fyrir — að minsta kosti í þeim sveitum, þar sem jeg þekki til — á seinni árum, að menn, sem hafa dvalið og haft alla atvinnu sína í sveit, þar sem töluverð sveitarþyngsli eru, hafa, til þess að losna við skatta og skyldur, sem á þeim hvíldu, útvegað sjer heimilisfang í annari sveit, þar sem ljettari voru byrðar á hreppsbúum, þótt þeir hafi aldrei í þá sveit komið og hafi ekkert annað saman við hana að sælda. Þetta atriði vildi jeg óska að hæstv. stjórn tæki til athugunar og setti reglur í væntanlegt lagafrv. um þetta efni, svo að mönnum yrði ekki eins auðvelt fyrir og nú að skjóta sjer undan þeim skyldum, sem á þeim hvíla þar, sem þeir hafa alla atvinnu sína og njóta lífsframfæris síns og þeirrar aðstöðu, sem dvöl þeirra í sveitinni að öðru leyti veitir þeim.