09.03.1927
Efri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (3174)

70. mál, rannsókn á akvegarstæði

Jónas Jónsson:

Út af ræðu hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) vil jeg segja það, að mótbáran um möguleikana á því að rannsaka vegarstæði á Vestdalsheiði hefir ekki við mikil rök að styðjast. Ef rannsókn leiddi í ljós, að betra væri að leggja veginn yfir Vestdalsheiði, myndi vegalögunum áreiðanlega verða breytt í það horf að gera þann veg að þjóðvegi, svo að vegarlagningin yrði ekki á ábyrgð hjeraðanna. Það liggur nú fyrir þinginu breyting á vegalögunum, að vegurinn frá Eiðum verði tekinn í þjóðvegatölu.

Enn liggur ein ástæða til þess, að jeg áleit rjett að athuga Vestdalsheiðarveginn, sú, að eins og hv. þm. (JóhJóh) veit, þá hafa kunnugir menn á Seyðisfirði talað um það, að leggja mætti veginn upp svokallaða Stafi, en kæmi niður norðar en Fjarðarheiði, hjá Eiðum. En okkur er það ekkert kappsmál, heldur hitt, að ýta málinu áfram, og get jeg vel sætt mig við, hvora leiðina samþykt verði að rannsaka. Og þótt syðri leiðin yrði valin, hefði það

samt fræðilega þýðingu að hafa rannsakað norðurleiðina.

Eins og hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) veit, hefir verið talað um norðurleiðina. Ef ekki væri rannsökuð nema önnur leiðin, gæti það orsakað hreppapólitík, það gætu myndast straumar á móti henni, bæði á Seyðisfirði og á Hjeraði. Gæti þá rannsókn, sem sýndi kostnaðarmismun, kveðið þá mótstöðu niður og skorið úr ágreiningi.

Það væri gott, ef hæstv. atvrh. (MG) gæti látið rannsaka, þó ekki væri nema aðra leiðina í sumar. Það er því meiri ástæða til þess, sem eins og sjá má af blöðum eystra, seyðfirskir borgarar leggja mikla áherslu á þetta mál og tala um að leggja fram mikinn hluta kostnaðarins sjálfir. Og þótt þess sje ekki þörf, eins og aðalflm. tók fram, þá er þetta þó vottur þess, að Seyðfirðingum er hjer full alvara. Jeg tek þetta fram til að sýna áhuga þeirra.