09.03.1927
Efri deild: 23. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (3176)

70. mál, rannsókn á akvegarstæði

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það er ekki ástæðulaust, að þessi tillaga er fram komin. Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) hefir gert tilraun til þess að koma þessu máli á leið við stjórnina. Jeg vona nú, að í hvaða formi sem till. verður samþ., þá verði það tillit tekið til þessarar hv. deildar, að stjórnin láti á næsta sumri þá rannsókn fram fara, er í till. felst. Seyðfirðingar eru orðnir langeygðir eftir þessari rannsókn og vildu fá fjárveitingu í fjárlögum 1928. En til þess var málið ekki nægilega undirbúið, að hægt væri að veita fjeð. Hefði rannsókn verið gerð sumarið 1925, þá hefði nú verið hægt að veita hið umbeðna fje. Vona jeg því, að rannsóknin dragist ekki lengur. Mjer fanst hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) gera of mikið úr því, að vegur yfir Vestdalsheiði gæti ekki komið til mála. Það þarf að fara fram ný rannsókn á báðum heiðunum, en hægt er að styðjast við eldri athuganir. Og þegar fyrir liggja eldri skýrslur um báða vegina, þá ætti kostnaðurinn við nýja rannsókn að verða minni.

Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) sagði, að Vestdalsheiðarvegurinn þyrfti meira viðhald. Þetta myndi koma í ljós við rannsókn. En jeg bið hv. þm. að athuga það, að verði sá vegur ekki rannsakaður, getur það verið notað sem ástæða á móti fjárveitingu til vegarins. T. d. gætu menn úr öðrum hjeruðum, sem vildu fá vegi hjá sjer, sagt, að þetta mál væri lítt undirbúið, Vestdalsheiðin væri hentugri. Væru báðar leiðir athugaðar, væri ekki hægt að segja það. Niðurstöður rannsóknanna sýndu, hvar best væri að leggja veginn, og slægju þannig vopnin úr höndum þeirra, er standa kynnu á móti fjárveitingu. Samt er mjer ekkert kappsmál um, að tillagan verði samþykt óbreytt. En þetta síðastnefnda var ástæðan til þess, að við flm. tókum báðar leiðirnar upp í till. Viðvíkjandi því, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði, þá getur maður nú vænst þess, að rannsókn fari fram í sumar, og því fremur, sem till. verður samþ. Er þess og að vænta, að hann láti ekki vegamálastjóra haldast uppi að ganga fram hjá vilja þingsins, heldur gangi ríkt eftir því, að rannsókn fari fram. Hæstv. atvrh. (MG) mæltist til þess, að ekki yrði samþykt mikið af till. Það er nú ekki gott að hindra þm. í því að koma fram með áhugamál sín í tillöguformi, þau er þeir álíta að nauðsynlegt sje að rannsaka. En jeg vænti þess, að hæstv. ráðh. (MG) sjái um, að ef vegamálastjóri og starfsmenn hans komast ekki yfir að rannsaka þetta, þá verði þeim fengin nægileg aðstoð til þess að rannsaka það, sem tillagan fer fram á.