24.03.1927
Sameinað þing: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (3187)

41. mál, síldarverksmiðja á Norðurlandi

Flm. (Magnús Kristjánsson):

Eins og kunnugt er, hafa þinginu borist áskoranir um að reyna að finna einhver ráð til viðreisnar atvinnuvegum landsins, einkum sjávarútveginum. Þessi tillaga á að vera frá minni hálfu einskonar tilraun til þess að svara þessari spurningu að einhverju leyti, að því er snertir síldarútveginn. Tillagan stendur í nánu sambandi við samþyktir, sem gerðar voru á síðasta þingi. Á jeg þar við lög um sölu á síld o. fl., sem samþykt voru á síðasta þingi. Jeg álít, að þau lög hafi að vissu leyti stefnt í rjetta átt, en hinsvegar voru þau ekki nægileg til þess að ráða bót á hinum miklu vandkvæðum, sem verið hafa undanfarin ár á þessum atvinnurekstri. Þessi lög hafa ekki komist til framkvæmda, og verð jeg að telja það illa farið. Þess ætti þó að mega vænta, að stjórnarvöld og aðrir hlutaðeigendur muni hjer eftir taka á sig meiri rögg en áður, til þess að þessi lög, sem að miklu gagni gætu orðið, væru ekki látin liggja ónotuð. Það kann að vera, að jeg víki lítillega að því síðar, hversu mikið tjón gæti af því hlotist, ef nokkur verulegur dráttur yrði á framkvæmdum í þessu efni.

Það er þegar fengin áþreifanleg reynsla um það, að síldarútvegur verður ekki að jafnaði rekinn með hagnaði hjer við land, nema samvinna eigi sjer stað meðal atvinnurekenda og hún hafi að baki sjer stuðning löggjafarvaldsins. Þetta hafa vitrir menn fyrir löngu sjeð. Vil jeg í því sambandi nefna þá Böðvar Bjarkan lögfræðing og Óskar Halldórsson útgerðarmann, sem báðir hafa ritað talsvert um þessi mál. Jeg álít, að þeir eigi heiður og þakkir skilið fyrir þá framsýni og þann áhuga, sem þeir hjer hafa sýnt.

Eins og kunnugt er, varð mikið tjón á þessum atvinnuvegi árið 1919. Jeg hygg, að ekki sje ofmælt, að þá hafi margar miljónir tapast. Jeg skal ekki staðhæfa, hvað mikið tapið hefir verið, en jeg hugsa, að óhætt sje að segja, að það hafi ekki verið minna en 10 miljónir. Jeg verð að leyfa mjer að geta þess, hvort sem það þykir viðeigandi eða ekki, að þetta ólán hafi stafað af því, að mönnum hafi ekki verið ljós nauðsynin á skipulagsbundinni samvinnu meðal atvinnurekenda. Einmitt það, að hvarflað var frá fyrirkomulaginu, sem tekið var upp 1918, um sölu síldar á einni hendi, hefir valdið miklu tjóni. Þá tókst fyrir harðfylgi ýmissa manna að koma því í kring, að stjórnin annaðist sölu á síld, og þetta gafst ágætlega. En svo tókst svo illa til, að strax var hvarflað frá þessu, enda var þess þá ekki langt að bíða, að ólánið steðjaði að.

Það má að vísu segja, að þetta standi ekki í beinu sambandi við tillöguna sjálfa, sem hjer liggur fyrir. Þó finst mjer það ekki vera úr vegi að minnast á það, sem á undan er gengið.

Út af þessu óstandi vaknaði hjer talsverður áhugi meðal útvegsmanna til þess að gera einhverjar ráðstafanir til umbóta. 1921 var svo gerð tilraun til þess að stofna skipulagsbundinn fjelagsskap meðal útgerðarmanna. Að því kom, að margir hinna stærri útgerðarmanna mynduðu með sjer fjelag. Fyrir þinginu 1921 lá frv. um útflutning og sölu síldar. Jeg var flm. að þessu frv. Svo virtist sem þingmenn væru yfirleitt málinu fylgjandi og sæju nauðsyn þess, en samt fór svo, að við meðferð málsins komu fram brtt., er drógu úr aðalhugsun frv., og að síðustu var alveg kipt undan því grundvellinum, þannig að þegar málið fór út úr þinginu, var ekki annað eftir af því en heimildarlög handa ríkisstj. til þess að taka að sjer sölu á síld. Framkvæmdir urðu engar, eins og við var að búast. Að þessu hefir útvegurinn búið hingað til, og árlega hefir tapast stórfje, á móts við það, sem hefði þurft að vera, ef vel hefði verið á haldið.

Till. á þskj. 49 er í raun og veru ekki svo margbrotin, að miklar málalengingar þurfi til þess að skýra hana. Hún er fram komin til þess að reyna að tryggja það, að þegar farið er að takmarka sölu á síld, þá verði líka sjeð fyrir því, að fyrir hinn hlutann, sem ekki er saltaður og fluttur út, fáist sannvirði. Eins og kunnugt er, eru bræðslustöðvar norðanlands allar í höndum útlendinga. Afleiðingin er sú, að þessar verksmiðjur hafa, eins og ekki er óeðlilegt, notað aðstöðu sína til þess að fá hrávöruna með sem lægstu verði. Þetta er venjuleg og eðlileg verslunaraðferð. En þó að það sje mjög æskilegt fyrir þá atvinnurekendur, sem að verksmiðjunum standa, liggur það í hlutarins eðli, að hið gagnstæða á sjer stað um þá, sem með ærnum kostnaði fást við síldarframleiðsluna. Það er ekki ofmælt, þó að sagt sje, að verðlagið hafi ekki staðið í neinu skynsamlegu hlutfalli við framleiðslukostnaðinn. Þegar boðnar eru 8–9 krónur fyrir hverja máltunnu, er það þriðjungi of lágt. Mjer er óhætt að fullyrða, að hið sanna verðgildi vörunnar er þriðjungi til helmingi hærra en framleiðendurnir eiga kost á að fá fyrir hana. Jeg álít því, að eina ráðið til þess að halda vörunni í sannvirði sje stofnun fjelags, sem sjái um, að framleiðendur geti notað sjer alla framleiðsluna sjálfir, með því að eignast þau tæki, sem þeir þurfa til þess að geta hagnýtt sjer hana.

Úr því að málið er ekki lengra á veg komið en þetta, er auðsjeð, að því verður ekki nægilega fljótt hrundið í framkvæmd, nema löggjafarvaldið komi til. Tillaga mín fer nú fram á, að þingið hlutist til um, að hæstv. stjórn hafi forgöngu í að láta rannsaka, hvað slíkt fyrirtæki mundi kosta. Jeg vona, að sá kostnaður verði ekki tilfinnanlegur, þar sem í þjónustu landsins eru ýmsir verkfræðingar, sem væru færir um að inna þetta af hendi án þess að vanrækja önnur störf sín.

Menn kunna nú að óttast, að á bak við þessa hugsun mína liggi einhver hætta. Þar sem jeg hefi verið kallaður „einokunarpostuli“, kynnu menn að halda, að jeg mundi hjer sem annarsstaðar beita mjer fyrir ríkisrekstri. Jeg mundi að vísu ekki vera á móti honum, en jeg býst við, að sá væntanlegi fjelagsskapur sjái sjer hag í að taka fyrirtækið í sínar hendur og láta ríkið fá kostnaðinn fullkomlega endurgoldinn, bæði undirbúningskostnað þann, sem af rannsókninni leiddi, og auk þess stofnkostnaðinn með fullum vöxtum. Jeg er í engum vafa um, að fyrirtækið væri fært um það.

Jeg ætla, áður en jeg skilst við þetta mál, að reyna í fám orðum að sýna fram á þann ávinning fyrir afkomu útvegsins í framtíðinni, ef þetta fyrirkomulag kæmist á. Mjer er óhætt að fullyrða, að á síðari árum hefir reynslan verið sú, að á hverjum 100 þúsund tunnum af síld hefir orðið einnar milj. kr. tap. Mjer þykir ljósast að taka dæmi þannig, er hjer er ofurlítill mismunur á eftir verðlaginu. Hinsvegar álít jeg, að væri þetta fyrirkomulag tekið upp, eins og lög frá síðasta þingi ætlast til, og þessi tillaga verði samþykt og komist til framkvæmda, mundi þetta snúast við, þannig að hagnaður á hverjum 100 þúsund tunnum yrði álíka mikill og tapið hefir verið undanfarin ár.

Jeg skal aðeins geta þess, að þegar síldarframleiðslan er meiri en markaðurinn tekur við, þá er það nokkurn veginn föst regla, að verðið sje svo lágt, að láta mun nærri, að tap á hverri tunnu sje um 10 kr. Hinsvegar má gera ráð fyrir, ef framleiðslan er hæfileg og í samræmi við eftirspurnina, þá verði um 10 kr. hagnaður af hverri tunnu.

Um verð þeirrar síldar, sem ekki kemur til söltunar, er það að segja, að sem stendur er það svo lágt, að það mun nokkurn veginn rjett ályktað, að það sje 5 kr. lægra á hvert mál en framleiðslukostnaðurinn nemur. Þegar okkur býðst 9 kr. fyrir hvert mál síldar, þurfum við að rjettu lagi að fá 14 kr. til þess að útvegur þessi beri sig.

Niðurstaðan af þessum athugunum mínum verður því sú, að á þjóðarbúskapnum muni það um 3 milj. kr. árlega, verði horfið að því ráði, sem jeg ætlaðist til með till. minni.

Í venjulegum árum geri jeg ráð fyrir, að með því fyrirkomulagi, sem nú er á rekstri þessa atvinnuvegar, muni tapið nema á honum um 3 milj. kr.. en með þeirri breytingu, sem jeg ætlast til að verði, ætti að græðast á honum um 3 milj. kr.

Um brtt. þá, sem fram er komin á þskj. 179, hefi jeg ekki mikið að segja, enda finn jeg ekki ástæðu til að berjast á móti henni, þótt jeg hins vegar telji heppilegasta staðinn á Siglufirði. Þó býst jeg ekki við, að það þurfi neinum vandkvæðum að valda, þó að brtt. verði samþ.

Að vísu þykist jeg sjá, að með brtt. verði rannsókn þessa máls dálítið tvískift og flóknari, því að þegar um þá staði er að ræða, sem ekki eru ríkiseign, kemur margt til athugunar, svo sem gjald fyrir lóðarrjettindi og margt fleira. Afleiðingin af brtt. mundi því verða sú, að undirbúningur og rannsókn þessa máls mundi hafa meiri kostnað í för með sjer heldur en að miða rannsóknina við Siglufjörð einan.

Annars hygg jeg, að ekki sje nema um þrjá staði að ræða við Eyjafjörð, sem til mála gæti komið að reisa síldarbræðslustöð á, sem sje í Hrísey, á Hjalteyri og Svalbarðseyri, en þó held jeg, að Siglufjörður sje heppilegasti staðurinn.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um till. að svo stöddu. En það vil jeg undirstrika að lokum, og biðja þingheim að athuga vel, að hjer er ekki um neitt hjegómamál að ræða, heldur er þetta metnaðarmál og um leið sjálfstæðismál, því að það ætti öllum að vera ljóst, að með því að taka þennan rekstur í okkar hendur erum við ekki lengur upp á þá útlendinga komnir, sem hingað til hafa skamtað okkur verðið fyrir þessa framleiðsluvöru okkar. Þess vegna ætti maður að geta vænst þess, að öllum Íslendingum ætti bæði að vera það ljúft og skylt að veita stuðning slíku velferðarmáli, sem hjer er um að ræða.