24.03.1927
Sameinað þing: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3188)

41. mál, síldarverksmiðja á Norðurlandi

Björn Líndal:

Það er fjarri mjer að vera á móti þessari till. í því formi, sem hún er fram borin, og þá enn síður, ef brtt. mín verður samþ. En jeg tel ekki jafnbrýna nauðsyn á að taka upp þetta mál eins og hv. flm. (MK) vill vera láta. Og það byggi jeg á því, að sem stendur eru það margar síldarverksmiðjur í landinu, að þær geta tekið á móti allri þeirri síld, sem ekki verður söltuð. Eftir því, sem jeg kemst næst, geta þær verksmiðjur, sem nú eru til í landinu, brætt nálægt 5600 málum á dag. Veiðitíminn er venjulegast nálægt 50 dögum, og geta þá allar verksmiðjurnar unnið úr 280 þús. málum á þeim tíma. Auk þessa geta þær tekið á móti miklu meiri síld, sem geymd er í stórum þróm, þangað til tími vinst til þess að vinna úr henni.

Það má því gera ráð fyrir, að þessar verksmiðjur komist yfir að bræða um ½ miljón mála, því að oft starfa þær fram í októbermánuð sum árin. Þess vegna sje jeg ekki nauðsyn á, að verksmiðju þessari verði komið á fót, nema ef vera skyldi til þess, eins og hv. flm. (MK) vildi halda fram, að reyna að koma í veg fyrir, að verksmiðjumar geti þrýst niður verði á síldinni úr öllu hófi. En jeg á erfitt með að hugsa mjer það, að verksmiðjunum takist þetta eða þær geti komið sjer saman um það, því að samkepni er vitanlega milli þeirra um síldina. Jeg lít því ekki eins svart á þetta eins og hv. flm. (MK). Það má að vísu segja, að verðið sje lágt, eða hafi verið það undanfarin ár, saman borið við það, sem útgerðarmenn og sjómenn þurfa að fá til þess að síldarveiðin geti svarað kostnaði. En þá er spurningin: Borgar það sig fyrir síldarbræðslustöðvarnar að borga hærra verð? Jeg er að vísu enginn fagmaður á þessu sviði, en jeg hefi reynt að útvega mjer upplýsingar um þennan atvinnurekstur. Og öllum ber saman um það, að hann sje engin örugg og ábyggileg gróðalind, frekar en annar atvinnurekstur, sem bygður er á veiði. Sum árin hefir hann gefið góðan arð, en stundum hefir tapið verið alltilfinnanlegt. Stundum stafar tapið af því, að verksmiðjurnar hafa búið sig undir það að taka á móti mikilli síld, sem svo fæst ekki. Verða þær þá að standa tímunum saman aðgerðalausar, og fjöldi af dýru fólki gengur þá jafnlengi iðjulaus.

Það var ekki alveg rjett hjá hv. flm. (MK), að verksmiðjur þær, sem brætt hafa síld undanfarið, væru allar eign útlendinga. Síldarverksmiðjan á Hesteyri er t. d. ekki lengur eign útlendinga, og svo mun vera um aðra stöð, sem starfað hefir fram að þessu á Vesturlandi. (MK: Jeg sagði á Norðurlandi). Nú jæja, enda mun það rjett, að flestar síldarverksmiðjur á Norðurlandi eru eign útlendinga.

Enn er þess að gæta, að ef við byrjum á þessum atvinnurekstri, þá verðum við að keppa við duglega og margreynda útlendinga á þessu sviði. Jeg held, að Krossanesverksmiðjan sje að allra dómi rekin með hagsýni og miklum dugnaði. Hún hefir samband við stóra verksmiðju í Osló, sem á í henni hlutafje og gagnkvæmt, að því er jeg frekast veit. Og fyrir þetta samband fær Krossanesstöðin hærra verð fyrir vöru sína í Osló, af því að þessi verksmiðja þar tekur að nokkru leyti við af Krossanesverksmiðjunni og vinnur einkum úr síldarolíunni ýmsar dýrar og útgengilegar olíur. Jeg efast alls ekki um, að útgerðarmenn þurfi að fá meira verð fyrir síld sína en nú stendur til boða, en jeg efast um það, að það spor, sem hjer á að stíga, verði til þess að bæta úr því á nokkum hátt. Hann vildi halda því fram, hv. flm. (MK), að með því að ríkið tæki upp þennan atvinnurekstur mundi verð á hverju síldarmáli verða um 14–15 kr. Þetta verð jeg að telja hreinustu fjarstæðu, sem við engin rjett rök hefir að styðjast. En ef þetta væri rjett, þá leiðir af sjálfu sjer, að verð á saltsíld verður líka að hækka. En þá ber þess að gæta, að sem stendur er það vitanlegt, að okkur veitir mjög örðugt að keppa við Norðmenn á útlendum síldarmarkaði. Þeir standa betur að vígi að ýmsu leyti, því að bæði verður aflinn frá þeim ódýrari og tunnurnar þeim mun ódýrari, sem flutningsgjald þeirra nemur frá Noregi og hingað. Auk þess er þeim hægara og ódýrara að koma síldinni á markað. Að standast þá samkepni er erfitt fyrir okkur, þar sem við verðum aðallega að byggja á því, að Svíar kaupi af okkur og stundum fyrir þrefalt hærra verð en norsk síld er boðin fyrir, sem að vísu er talsvert lakari tegund, en þykir þó sæmileg vara. En við því er ekki að búast á þeim krepputímum, sem nú eru, að almenningur kaupi til daglegrar neyslu dýrari matartegundir en þörf er á. Jeg vildi að sjálfsögðu óska eftir sem hæstu verði fyrir þessa framleiðslu landsmanna. En verðið verður nú ekki bygt á óskum einum, heldur verðum við að venjast því að horfast í augu við ástandið eins og það er og reynslu undanfarandi ára um afkomu þessa atvinnuvegar. Verðið fer fyrst og fremst eftir eftirspurninni, eða með öðrum orðum eftir því, hvað síldarneytendurnir vilja hæst fyrir síldina borga.

Þá ætla jeg að víkja örfáum orðum að brtt. minni. Hv. flm. (MK) tók henni hlýlega, og er jeg honum þakklátur fyrir. Vona jeg svo, að hann sannfærist um, að eigi slík þáltill. að ná fram að ganga, þá sje sjálfsagt að samþ. hana með þeirri breytingu, er jeg legg til, enda skal jeg leyfa mjer að rökstyðja það nokkru nánar.

Þegar til þess kemur, að reisa á slíka stöð, sem hjer er um að ræða, er margs að gæta. Það þarf að tryggja sjer nægilega stóra og trausta lóð, sem gerlegt sje að reisa á slíkar byggingar. Þarna þarf að reisa bryggjur, þar sem skipin losa, og þær verða að vera það margar, að skipin geti fengið skjóta og greiða afgreiðslu, þó að mörg komi í einu. Oft getur leitt af því stórtjón að láta skipin bíða eftir afgreiðslu og tefja þau á þann hátt frá því að komast sem fyrst út aftur og á veiðar. Það leiðir af sjálfu sjer, að þar sem stöðin er reist þarf að vera góð höfn og aðdýpi nóg, svo að kostnaður við bryggjugerð verði sem minstur.

Þá ætla jeg nú að athuga Siglufjörð í sambandi við það, sem hjer var sagt, og verð jeg þá, eftir þeim kunnleikum, sem jeg hefi af staðnum, að álíta hann of landlítinn og þröngan til þess, að þar yrði reist síldarbræðslustöð. Eini staðurinn, sem um er að gera á Siglufirði, er nú eign útlendinga, og þó ekki hugsanlegt að fá þar nóg lóðarrými til verksmiðjunnar. Þar vantar líka nægilegt sjávardýpi. En verði nú samt að því horfið, að svæði þetta verði tekið undir bræðslustöð, þá er þess að gæta, að það er tekið frá síldarsöltun, sem þarna hefir farið fram. En eins og allir vita, hefir Siglufjörður verið sjerstaklega talinn heppilegur fyrir smábátaútveginn, en slík útgerð ætti þá örðugra með að komast þar að til síldarsöltunar, ef síldarsöltunarstöðvar yrðu teknar undir verksmiðjuna.

Ef þetta verksmiðjumál skal rannsaka á annað borð, finst mjer ekki nema sjálfsagt, að það verði athugað vel og rækilega, hvar heppilegast muni að reisa slíka bræðslustöð, og hvar tiltækilegast sje að fá nógu stórt svæði, þar sem færa megi út byggingarnar jafnóðum og þörf gerist. Er þar margs að gæta og einnig þess, að verksmiðjan komi síldarsöltuninni að sem mestu liði. Kemur þar meðal annars til athugunar að sjá því borgið, að sem best fari um síldina, eftir að hún kemur á land. Hún má helst ekki liggja úti undir beru lofti í sólskinshita, eins og venja er til. Í þessu sambandi vil jeg geta þess, að vert er að athuga, hvort ekki skuli banna að láta saltaða síld liggja undir beru lofti í sumarhitum, því af því leiðir, að síldin rýrnar og rennur, en tunnurnar smita, og verður þá varan ekki eins útgengileg. Til þess að koma í veg fyrir þetta, gæti svo farið, að byggja yrði nægilega stór skýli, sem tunnurnar yrðu svo geymdar í, en þá þarf stórt svæði, svo að hægt verði að koma öllu slíku fyrir sem haganlegast. En alt land í og umhverfis Siglufjarðarkaupstað er dýrt, landþrengsli mikil og staðhættir að ýmsu leyti óhentugir.