24.03.1927
Sameinað þing: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (3193)

41. mál, síldarverksmiðja á Norðurlandi

Flm. (Magnús Kristjánsson):

Það er nú tilefnislítið fyrir mig að fara að leggja út í að tala frekar um þetta mál, því að mjer finst, eins og jeg hefi áður tekið fram, vera sá samúðarandi um þetta, að það gefur mjer ekki tilefni til að fara að orðlengja um það, og þess vegna verð jeg að biðja afsökunar á, að jeg bæti við nokkrum orðum enn þá.

Það eru aðeins þrjú smávægileg atriði í ræðu hv. þm. Ak. (BL), sem jeg vildi víkja lítið eitt að, ekki til þess að vekja deilur, heldur til þess að benda á, að hv. þm. (BL) lagði mjög mikið upp úr því, að verksmiðjumar, eða að minsta kosti ein þeirra, gerðu mjög mikið til þess að geta selt afurðir sínar hjer á landi. Þetta er að vísu virðingarvert, en jeg verð samt að álíta, að því að eins geti maður verið mjög þakklátur fyrir þetta, að verðið sje þá nokkurn veginn við hæfi kaupendanna, en jeg álít einmitt, að það verð, sem verksmiðjan hefir heimtað fyrir sínar vörur, sanni það einmitt, að fyrirtækið sje arðvænlegt, og annað hitt, að framkvæmdarstjóri þess muni hafa verið heldur ófeiminn um verðlagningu, þegar Íslendingar áttu í hlut, og jeg get hugsað, að honum hafi ekki verið móti skapi að tryggja sjer hærra verð innanlands en hann gat fengið utanlands, en verðlagið, sem um var getið, sannar einmitt mitt mál, að fyrirtækin hljóta að skoðast sem mjög arðvænleg, þegar gengið er út frá því, hvaða verð verksmiðjurnar hafa farið fram á hjer á landi.

Þá er þriðja atriðið, að færi svo, að í framtíðinni yrði nokkur breyting á því, hve hátt framleiðsluverðið yrði, og færi svo, að verðið hækkaði, þá gæfi það nokkurt tilefni til umhugsunar, ef það gæti leitt til þess, að síldarsöltun minkaði, og þá mundi það vera gott, því að jeg er nefnilega þeirrar skoðunar, að það væri mjög æskilegt, að minni fólksstraumur legðist að þessum stað heldur en verið hefir, því að hann hefir verið svo mikill, að hann hefir aðeins verið til tjóns fyrir atvinnureksturinn og starfsfólkið, og jeg vil ekki lýsa því með svo átakanlegum orðum sem við ætti, en jeg álít, að þessi hugmynd, og þá alls ekki síður lögin, sem hv. þm. Ak. (BL) barðist fyrir á síðasta þingi, hafi verið ákaflega mikilsverður þáttur í að stemma stigu fyrir því, að yngri kynslóðin úr sveitunum dragist á síldarstöðvarnar í þeirri von að fá þar einhverja hlaupasnatavinnu hjá útlendingum, og geri sig þannig að nokkurskonar undirlægjum hjá þeim háu herrum.

Jeg læt þá staðar numið um þetta atriði, en ætla að víkja örfáum orðum að því, sem hæstv. atvrh. gat um, að stöðvarnar hefðu verið leigðar út til 50 ára. Það er satt, en það kastar engri rýrð á mín ummæli, hversu grátlegt þetta ástand er. Og þótt þessir óheillasamningar sjeu til, þá er ekki hægt að slá því föstu, að afleiðingin af þessum löngu samningum þurfi óhjákvæmilega að vera sú, að ekki sje hægt að endurheimta eitthvað af þessum lóðum. Komið getur fyrir, að vegna ólags á þessum atvinnurekstri verði menn að gefast upp eða hætta vegna fjárskorts, og þá ætti atvrh. að vera á verði, ef ske kynni, að ríkið gæti þá endurheimt eitthvað af þessum lóðum, án þess að þurfa að greiða okurverð fyrir þær. Þetta er nauðsynlegt, því að sá tími getur komið, að þessar lóðir þurfi ekki að vera á höndum útlendinga um aldur og æfi.