29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (3198)

100. mál, landsstjórn

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Frá því að fyrverandi forsætisráðherra, Jón Magnússon, fjell frá og fram til þessa þings, sem nú situr, hefir verið hjer á landi bráðabirgðastjórn, en ekki regluleg þingræðisstjórn eins og áður. Í byrjun þessa þings birtist boðskapur frá Jóni Þorlákssyni þess efnis, að hann yrði skipaður forsætisráðherra af konungi, ef ekki kæmu fram mótmæli gegn því á þinglegan hátt. Við alþýðuflokksfulltrúarnir á þingi sendum stjórninni strax brjef, þar sem við lýstum því yfir, að við teldum sjálfsagt, að stjórnin leitaði traustsyfirlýsingar í sameinuðu þingi eða a. m. k. í neðri deild. Jeg veit ekki um svör annara flokka, en um endalok málsins hafa engar upplýsingar heyrst frá hæstv. forsrh.

Hæstv. atvrh. (MG) gat þess hjer í umræðunum um fátækralögin, að þótt stjórnin hefði ekki leitað trausts, væri æskilegt, að jeg kæmi með till., sem sýndi, hve mikið traust hún hefði. Þetta hefi jeg nú gert. Það er nú auðsýnilegt, að miklu varðar, hvers eðlis sú stjórn er, sem með völdin fer. Það er nokkur munur á því, hvort hún er bráðabirgðastjórn eða regluleg þingræðisstjórn. En það er auðsjeð, að stjórnin ætlar að breyta sjálfri sjer úr bráðabirgðastjórn í „þingræðisstjórn“, án þess að hafa yfirlýstan vilja Alþingis að baki sjer. Bráðabirgðastjórn getur yfirleitt ekki tekið neinar ákvarðanir eða gert ráðstafanir, sem bindandi eru fyrir eftirtímann. Aftur á móti má segja um slíka stjórn, að hún þurfi ekki að hafa meiri hluta þingsins að baki sjer, þar sem viðurkendar þingræðisstjórnir verða að hafa a. m. k. velviljaðan meiri hluta og helst stuðning ákveðins meiri hluta að baki sjer. Hæstv. ráðh. (JÞ) veit, að hjer er ekki rjett að farið. En hann hefir áður reynt að komast í forsætisráðherrasessinn og mishepnast. Nú hefir hann haldið, að sjer tækist að ná markinu með þessari leið.

Jeg hefi borið fram þessa till., til þess að það gæti komið glögt fram, hvort núverandi stjórn á að teljast þingræðisstjórn, og svo af því, að jeg er stjórnarandstæðingur og tel best fyrir land og lýð, að hún leggi niður völdin þegar í stað.

Það var vitanlegt þegar eftir síðustu kosningar til efri deildar nú í vetur, að íhaldsflokkurinn átti ekki nema 13 atkv. í hv. neðri deild af 28. Ef stjórnin hefir engan stuðningsmann úr öðrum flokki, er bersýnilegt, að hún hefir aðeins fylgi minni hluta deildarinnar. Nú er það auðvitað, að engin þingræðisstjórn, sem hefir minni hluta í Nd., getur setið áfram. Sú deild hefir mest áhrif á löggjöfina, og hjá henni er aðalfjárveitingavaldið. Þangað koma fjárlögin fyrst, og hún hefir einnig mest áhrif á samþykt þeirra, ef þau þurfa að koma í Sþ. vegna deilu milli deildanna. Það er alment viðurkent nú orðið í þingræðislöndum öllum, að þingræðisstjórn geti ekki setið aðeins með samþykki efri málstofunnar. Jeg geri því ráð fyrir, ef till. mín verður samþ., að stjórnin segi af sjer.

Alþýðuflokkurinn er aðalandstöðuflokkur Íhaldsins og greinir á við það í flestum málum. Ágreiningsefnin eru því ekki vandfundin. Þótt Íhaldsflokkurinn hafi kjósendur í öllum stjettum, þá er það vitanlegt, að mergur hans eru stóratvinnurekendurnir við sjóinn. Þeir ráða stefnu hans, kosta blöð hans og bera kosningakostnað. Flokknum er því beitt til hagsmuna fyrir þessa stjett, en stjórnin, sem nú situr, er pólitísk framkvæmdastjórn þessara atvinnurekenda. Flest hagsmunamál þeirra eru gagnstæð hagsmunum verkalýðsins og alþýðunnar, sem aðallega fylkir sjer í flokk jafnaðarmanna. Það er því auðvelt í flestöllum stefnumálum að draga fram andstæðurnar við núverandi stjórn. Má nefna fátækramál og önnur mannrjettindamál, skatta- og tollamál, tryggingarmál, atvinnumál o. s. frv. En jeg ætla heldur að taka dæmi af síðustu stjórnarathöfnum og athafnaleysi núverandi landsstjórnar til að sýna, að nægar ástæður eru til þess að lýsa á henni fullu vantrausti. Því að þótt hún hafi reynt að hafast sem minst að upp á síðkastið til þess að losna við ábyrgð gerða sinna, hafa þó afskifti hennar af mörgum málum orðið til þess að koma upp um hana.

Jeg skal þá fyrst snúa mjer að hæstv. forsrh. (JÞ). Hann er skipaður formaður bankaráðs Íslandsbanka. Það segir sig sjálft, að hann muni ekki eiga að sitja þar aðeins til þess að prýða stjórn bankans og hirða laun sín. Hann á að sjálfsögðu að hafa eftirlit með starfsemi bankans og beita áhrifum sínum þar til almenningsheilla. En það er nú kunnugt, að bankinn hefir tapað miklu fje á útlánum, af því að þeim hefir verið hagað þannig, að tiltölulega fáum mönnum hefir tekist að gleypa margar miljónir, sem svo hafa að miklu leyti tapast. Það er líkt og þegar bankinn tapaði mestu á fiskhringnum um árið. Það reyndist bæði þá og nú óheppilegt fyrir þjóðina, að bankinn legði margar miljónir af veltufje sínu í hendur fárra manna. Það er ekki vitanlegt, að hæstv. forsrh. hafi gert neitt til þess að afstýra þessari hættulegu stefnu bankans, enda eru nú afleiðingarnar orðnar stórkostlegar, þar sem er hið mikla hrun á Vestfjörðum. Þar tóku báðir bankamir af skuldheimtumönnunum mótorbáta, sem þeir höfðu haft að veði, og þar sem um var að ræða fjölda báta, sem mikill hluti Ísfirðinga lifði á, var sjálfsagt, að bankarnir gerðu ráðstafanir til þess, að veiði gæti haldið áfram. En þótt Landsbankinn kæmi brátt bátum þeim, sem á vegum hans voru, á veiðar, ljet Íslandsbanki sína báta sitja kyrra. Af þessu hefir skapast hið mesta atvinnuleysi, sem ósjeð er fyrir endann á, þar sem fjöldi fólks á þessum slóðum hefir eingöngu lifað á vinnu við veiðar og fiskverkun. Og þetta er alt á ábyrgð hæstv. forsrh. (JÞ), því að honum mun vera fullkunnugt, ekki síður en bankastjórum Íslandsbanka, hverju fram fór, en beitti þó ekki áhrifum sínum til þess að koma bátunum á flot. En hæstv. ráðh. hefði ekki aðeins getað beitt áhrifum sínum sem bankaráðsmaður Íslandsbanka, heldur hafði hann svipuna í hendi sjer, þar sem bankinn lifir mestmegnis á opinberu fje. Hversvegna voru ísfirsku bátarnir stöðvaðir? Útibússtjórinn hefir lýst því yfir, að ekki væri hægt að reka útgerð frá Ísafirði, af því að jafnaðarmenn rjeðu þar í bæjarstjórn. Því væri best að sýna þeim í tvo heimana með því að taka bátana af þeim. Þetta var bankastjórum Íslandsbanka hjer og ríkisstjórninni fullkunnugt um. Þeim var líka kunnugt, að útibússtjórinn gerði sitt til að selja bátana burtu frá Ísafirði. En með því var verið að eyðileggja atvinnulífið í þessum stóra kaupstað.

Í Landsbankafrv. stjórnarinnar, sem nú liggur fyrir þinginu, eru ákvæði um. að stjórnskipaðir bankastjórar megi ekki vera þingmenn og gildi þetta um bankastjóra Íslandsbanka, meðan sá banki fái lán úr Landsbankanum. En hvers virði eru slík ákvæði, þegar útibússtjórnum líðst að neyta bolmagns við pólitíska andstæðinga, eins og hjer hefir átt sjer stað, með vitund og samþykki fjármálaráðherrans? Þessi sami maður hefir líka gengið svo langt að leggja til í blaði fyrir vestan, að fjárráðin verði tekin af bænum, og þetta gerir hann um sama leyti og bærinn er að kaupa Neðstakaupstaðareignina. Slíkt framferði gegn einstökum manni hefði áreiðanlega verið kallað atvinnurógur. En það verður ekki sjeð, að bankastjórar Íslandsbanka nje stjórnin hafi haft neitt við þetta að athuga. Jeg veit ekki hvernig á að bera traust til þess ráðherra, sem lætur sig engu skifta, þótt aðalatvinnuvegur heils kaupstaðar sje lagður í rústir til þess að reyna að ná sjer niðri á pólitískum andstæðingum.

Það er auðsjeð, að hæstv. ráðh. lætur sjer ant um Íslandsbanka, því það er viðurkent, að lánið mikla, sem hjer hefir verið mikið um rætt, sje aðallega tekið hans vegna. En ekki verður annað sjeð en að hæstv. ráðh. ætli að halda áfram sömu braut og hingað til hafa Íslandsbanka fyrir höfuðvígi íhaldsins í landinu og nota það til útrása á andstæðingana. Af atferli hæstv. ráðh. í þessu lántökumáli má líka sjá, hvaða meðferð hann vill hafa á opinberum málum hvað hann vill láta þjóðina fá að vita um, hvað gerist í hinum stærri málum. Hann lagði mikla áherslu á, að enginn fengi að vita um upphæð lántökunnar, vaxtakjörin, eða til hvers ætti að nota lánið. Með töngum var hægt að toga sumt af þessu út úr honum, en sumt ekki. „Vjer einir vitum“ virðist kjörorð hans. Um öll stærstu málin má almenningur ekki vita neitt. Þetta er líka í fullu samræmi við einræðisstefnu íhaldsins.

Þá má minnast á eftirlit stjórnarinnar með embættismönnum og starfsmönnum landsins, ekki síst tollgæslu- og tollheimtumönnum. Það er vitanlegt, að á síðustu árum hafa verið selda vörur úr skipum, sem enginn tollur hefir verið greiddur af. Það virðist yfirleitt lítið eftirlit með slíku annarsstaðar en hjer í Reykjavík. Hjer er það í góðu lagi. En heyrst hefir, að þessi síðasta sendiför tollmanna austur, sem mönnum er kunnugt um, hafi leitt það í ljós, að á þessum slóðum væri ekkert tolleftirlit. Þegar samþ. var að hækka tóbakstollinn 1925, var ákveðið, að merkja skyldi allar tóbaksvörur með merkinu: Tollur greiddur. Þetta hefir nú verið framkvæmt svo, að 10–20 manns hafa ekki haft annað starf með höndum en að klína þessum merkjum á umbúðirnar. Við þá verslun, sem jeg veiti forstöðu, hafa stundum að þessu unnið jafnmargir menn og starfsmenn verslunarinnar eru. Merking þessi mun kosta ríkið 40–50 þús. krónur. Þetta virðist þó framkvæmt með öðrum hætti úti um land. Það munu vera dæmi til þess, að kaupmönnum sjálfum hafi verið afhentir tollmiðarnir, og má geta nærri, hve mikil trygging er í því fólgin. Þessum peningum er því algerlega kastað í sjóinn. — Við tollinnheimtuna hjer er miðað við meðalþyngd, en úti um land er farið eftir því, sem gefið er upp á reikningum, eða eftir því, sem kaupmenn gefa upp, og munar sumstaðar um 1/3, hvað minna er greitt en hjer. — Hjer í Reykjavík er tollur greiddur út í hönd, en úti um land er algengt, að gefinn sje langur gjaldfrestur, og stundum mun tollurinn þá alls ekki hafa fengist greiddur. Í þessu öllu kemur fram ósamræmi, eftirlitsleysi og stjórnleysi.

Þá hefir ekki heldur enn verið svo um búið, að vextir af fje, sem lögreglustjórar hafa undir höndum, renni til ríkissjóðs, nje að þeir hafi ekki slíkt fje á reikningum undir eigin nafni. Nema þessir vextir miklu fje, sem ríkissjóður að rjettu á, en nú rennur til lögreglustjóranna, án þess að hæstv. forsrh. geri neitt til að varna því.

Sú venja, sem mun tíðkast víða um land, að sýslumenn hafi aðalverslun á staðnum sem umboðsmenn, er ranglæti gagnvart öðrum verslunum. Ríkissjóður mun einnig hafa brent sig á þessu fyr og síðar. Nýlega hafa t. d. tapast 16 þús. kr. á einum stað fyrir vestan, og veit jeg þó ekki, hvort öll kurl eru komin þar til grafar, svo sem um póstfje.

Þá má nefna drátt á ýmsum málum hjá embættismönnum, sem oft er óforsvaranlegur, og má þar minna á skifti búa og drengsmálið í Skagafirði, sem tók 1½ ár í hjeraði, ekki margbrotnara en það er. Allir sjá, hve miklu skiftir, að málin gangi greiðlega, bæði í undirrjetti og hæstarjetti. Það getur engu síður verið óþægilegt fyrir menn, sem eiga kröfur í búum, að þurfa að bíða oft árum saman eftir því, að skifti fari fram. En stjórnin virðist ekki gera sjer neitt far um að hafa eftirlit með embættismönnunum í þessum efnum, heldur eru þeir látnir haga sjer eins og þá lystir.

Þá eru tvö eða þrjú mál, sem jeg vildi sjerstaklega beina til hæstv. atvrh. (MG). Fyrst er það útvarpsmálið. Í lögunum um útvarpið frá 1925 er krafist 100 þús. króna stofnfjár og að stöðin skuli vera alt að 1½ kw., „enda draga um land alt“. Það hefir heyrst, að fjelagið hafi ekki haft nema 58 þús. kr., þegar leyfið var veitt, og það er vitanlegt, að stöðin er miklu minni en lögin ætlast til og dregur ekki svipað því um land alt. Menn þurfa að hafa dýr móttökutæki hjer í nágrenninu til þess að sæmilega heyrist það, sem útvarpað er. Í sumum landshlutum heyrist alls ekki neitt til stöðvarinnar, hvaða móttökutæki sem höfð eru. Fjelagið fullnægir því engan veginn þeim skilyrðum, sem því voru sett með lögum. Hæstv. atvrh. (MG) hefir því farið algerlega í bága við lögin sjálf með því að veita þessu fjelag sjerleyfi. Í sömu lögum frá 1925 er heimild til, að ákveða megi með reglugerð stofngjöld og árgjöld fyrir þá, sem móttökutæki hafa. En í reglugerð frá 23. mars 1926 eru sett ýms sjerstök skilyrði. Það er bannað að flytja inn, selja og kaupa tæki og hluta af þeim nema með sjerstöku leyfi landssímastjóra og lagðar sektir við. Sjerstakt gjald til útvarpsstöðvarinnar er lagt á varahluta. Útvarpsstöðinni er heimilað nákvæmt eftirlit með verslunum þeim, sem tækin selja, og þeim gert að skyldu að gera nákvæmar skilagreinir til stöðvarinnar. Atvrh. á að úrskurða ágreining um þetta, og má ekki skjóta slíkum málum til dómstólanna. Allar þessar hömlur á verslun með þessi tæki, gjaldið á varahlutunum, sektirnar og ákvæðin um úrskurð, eru með öllu án heimildar í lögunum sjálfum. Þar er einungis ætlast til, að greitt verði árgjald og stofngjald af uppsettum stöðvum, en viðskiftin sjeu frjáls, enda var einkasala fjelaginu til handa feld á þingi. En auk þess er það svo, að þegar ákveðið var, að stofngjald skyldi sett, var ekki ætlunin að setja það svo hátt, að ókleift væri fyrir alla aðra að versla með vöruna. í reglugerðinni er það svo ákveðið 85 krónur, sem útvarpsstöðin sjálf þarf ekki að borga, svo að illgerlegt er fyrir aðra að keppa, og þannig breytt á móti anda laganna.

Þá má minnast dálítið á starfsemi útvarpsstöðvarinnar. Það er viðurkent, að hún getur haft mikið menningarlegt gildi, ekki síst í strjálbýlinu hjá okkur, en þá verður að gæta þess, að það, sem stöðin varpar út, sje einhvers virði. Fyrir utan hljóðfæraslátt er svo að segja eingöngu varpað út ræðuhöldum úr kirkjunum. (Atvrh. MG: Er það ekki gott?). Fyrirlestrar eru af skornum skamti. Þó má geta eins kafla, sem reglulega er varpað út, en það er dagbók „Morgunblaðsins“. Þó að ekki væri ætlast til, að þetta fyrirtæki væri pólitískt, hefir samt verið varpað út pólitískum dylgjum úr dagbók „Morgunblaðsins“, og eina ræðan, sem flutt hefir verið af stjórnmálamanni í útvarpið, var fjárhagsræða hæstv. fjrh. (JÞ). Öðrum hefir ekki verið hleypt að. Það segir sig sjálft, að ekki er hægt að fylgja því lengi, að útvarpsstöðin starfi svona. Flestir sjá, að heppilegast er, að ríkið taki hana að sjer. En alt þetta sýnir, að hæstv. atvrh. (MG) hefir farið á snið við lögin með reglugerðinni og brotið þau með því að veita fjelaginu leyfi til að starfrækja stöð, sem ekki dregur um alt land. Yfirleitt virðist annað hafa vakað fyrir hæstv. atvrh. Í þessu máli heldur en að fara að vilja þingins og eftir lögunum, eða hugsa um hagsmuni almennings gagnvart fjelaginu.

Þá ætla jeg að benda á framferði hæstv. atvrh. Í öðru máli, atvinnu við siglingar. Með lögum 1922 var afnumin undanþága, sem hægt var að veita, í lögum frá 1915, um að menn gætu tekið að sjer skipstjórn og stýrimensku án fullra þekkingarskilyrða og siglingatíma. Með lögunum 1922 voru ákveðnar skýlausar og skilyrðislausar kröfur um þessi þekkingarskilyrði og sjóferðatíma. Hjer liggur fyrir þinginu stjfrv., sem fer fram á, að ekki aðeins verði undanþágan frá 1915 sett í lög aftur, heldur miklu víðtækari undanþága frá öllum ákvæðum gildandi siglingalaga og flestar þeirra jafnvel án þess að meðmæli stýrimannaskólans komi til. Það segir sig sjálft, að það er mjög varhugavert að veita slíkar undanþágur, þegar nóg er til af mönnum, sem fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru, eins og nú, þegar á fimta hundrað manna hafa fullan rjett til skipstjórnar og stýrimensku á fiskiskipum og í utanlandssiglingum, og helmingur þeirra siglir sem hásetar. En forsaga málsins sýnir það, að þetta stjfrv. á eftir á að rjettlæta lögleysur, sem hæstv. atvrh. hefir framið nýlega. Á síðastliðnu sumri veitti hann sem sje þremur mönnum að vestan slíkar undanþágur, tveimur til skipstjórnar og einum til stýrimensku, fyrir milligöngu stuðnings manna Íhaldsstjórnarinnar. Fleiri áttu að fá sömu undanþágur frá þekkingarskilyrðum og sjóferðatíma þeim, sem lögin heimta, en þá kom skipstjórafjelagin „Aldan“ til skjalanna og gerði nefnd á fund stjórnarinnar til þess að mótmæla þessu, og hæstv. atvrh. (MG) lofaði, að slíkt skyldi ekki koma fyrir aftur. Þó hefur núna eftir nýárið verið veitt að minsta kosti ein undanþága. En það merkilega er, að þessi undanþáguleyfi hæstv. atvrh. (MG) eru hvergi í lögum. Hann hefir ekki haft meiri rjett til þess að veita þau heldur en jeg eða hver annar, og þessir undanþágumenn hafa því engan rjett til að fara með stjórn á skipum þeim, sem þeir eru nú á. Hæstv. ráðh. (MG) verður að lifa eftir lögunum, jafnvel þó að hann sje dómsmálaráðherra. Undanþágur frá lögunum má aðeins veita eftir 25. gr. stjórnarskrárinnar, en hún gildir einungis um lög, sem voru í gildi fyrir 1874. Til að veita undanþágur frá síðari lögum þarf lagaheimild, svo að þarna er um skýlaust lagabrot að ræða hjá hæstv. ráðh. (MG).

Nú stóð svo á, að fjöldi manna hafði nóg til brunns að bera til þess að taka að sjer skipstjórn og stýrimensku á þessum skipum. Jeg hefi hjer nöfn á 36 mönnum, sem hafa próf og nægan siglingatíma að baki sjer og hafa lengi verið á línuveiðurum og jafnvel sumir verið óbreyttir hásetar á skipunum, sem þessir undanþágumenn fengu til stjórnar, svo að ekkert er til, sem getur mildað þetta lagabrot hæstv. atvrh.

Jeg vil benda á, að í lögum um ábyrgð ráðherra Íslands frá 1904 stendur í 3. gr.: „Og enn varðar það ráðherrann ábyrgð eftir lögum þessum, ef hann veldur því, að brotið sje gegn öðrum lögum landsins en stjórnarlögum þess“. b-liður: „Með því að framkvæma eða valda því, að framkvæmt sje nokkuð það, sem fer í bága við lögin . . .“ Nú er alveg greinilegt, að hæstv. atvrh. hefir stórlega og af ásettu ráði brotið á móti lögunum, og á hann því að sæta ábyrgð eftir lögunum um ábyrgð ráðherra, þó að hann líklega, eins og þing er skipað, verði látinn sleppa. En jeg sje ekki, hvernig hægt er að bera traust til slíkrar stjórnar, sem virðir að engu lög landsins.

Jeg hefi þá hjer dregið fram nokkur þau atriði, er sýna, hvernig núverandi hæstv. landsstjórn er, ónýt þegar vanda ber að höndum, og lætur að minsta kosti viðgangast pólitískar ofsóknir á heil bæjarfjelög, jafnvel þó að af leiði atvinnuhrun, eftirlitslaus með embættismönnum landsins og ljeleg í allri framkvæmdastjórn, en þó kastar tólfunum, er hún þverbrýtur landsins lög. Mörg fleiri dæmi mætti tilfæra úr ferli stjórnarinnar, þó að þessi eigi að nægja til að rökstyðja fult vantraust og óskirnar um stjórnarskifti.