18.03.1927
Neðri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

48. mál, notkun bifreiða

Jón Ólafsson:

Þessi brtt. er fram komin vegna þeirra manna, sem verða kynnu fyrir slysum eða öðru tjóni af völdum bifreiða, svo að þeir geti fengið greiddar bætur fyrir slíkt.

Án slíkrar tryggingar mundu margir ekki vera borgunarmenn fyrir slíkum bótum.

Jeg er líklega eini maðurinn hjer, sem hefi praktiserað þessar tryggingar. Jeg hefi nú trygt allar þær bifreiðar, sem jeg hefi yfir að ráða. Jeg ætlaði í fyrstu ekki að tryggja fyrir meiri upphæð en 3000 kr., en þá þurfti jeg að borga 60 kr. í iðgjald, en hætti við það vegna þess, að 10000 kr. trygging kostaði ekki nema 70 kr. og 15000 kr. trygging aðeins 73 kr. Eftir því sem tryggingarupphæðin hækkar, verða þannig iðgjöldin tiltölulega miklu lægri.

Það er því engin ástæða til að óttast, að fargjöldin hækki, þó að tryggingin verði hækkuð þetta mikið. Jeg get þessa hjer til athugunar fyrir 3. umr. og skal bæta því við, að eini maðurinn, sem mun hafa rannsakað þessar tryggingar hjer, er Karl Finsen, og getur hv. nefnd fengið upplýsingar hjá honum um þetta atriði.