29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (3202)

100. mál, landsstjórn

Sigurjón Jónsson:

Jeg ætla mjer ekki að ganga fram fyrir skjöldu til að fara að verja hæstv. ríkisstjórn. Það er síður en svo, að nokkur ástæða sje til þess. Hæstv. ráðherrar eru svo langsamlega færir um að bera hærri hlut í þeirri orðasennu, er hjer fer fram. En jeg verð að leiðrjetta mishermi hjá hv. flm. (HjV), sjerstaklega af því, að hann hefir komið tvisvar að því sama. En ranghermi þetta ber mjer sjerstaklega að leiðrjetta, af því að það snertir Landsbankaútibúið á Ísafirði, sem jeg veiti forstöðu. Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) sagði, að bæði útibúin á Ísafirði hefðu stöðvað þann bátaútveg á Ísafirði, er þau hafa áður styrkt. Hann sagði nú ekki, að Landsbankaútibúið hefði stöðvað á Ísafirði allan þann bátaútveg, er það áður hefir haldið þar uppi, en það tók hv. þm. fram, að útibú Íslandsbanka hefði gert. Svo hefir hann komið tvívegis að því, að stjórn Íslandsbanka, og þá sjerstaklega útibússtjórinn þar, hefði gert þetta til að hefna sín á pólitískum andstæðingum í kaupstaðnum. Hjer er geipilega hallað rjettu máli um öll þessi atriði.

Hvað Landsbankaútibúið fyrst snertir, þá hefir það ekki enn stöðvað neitt af þeim bátum, er útibúið hefir áður styrkt. Það gerir heldur ekki sjálft út neinn bát. Hitt skal jeg ekkert um segja, hve lengi útibúið sjer sjer fært að halda þessari útgerð uppi. Hv. flm. (HjV) gat þess, að 23 bátar frá Ísafirði hefðu stöðvast, en þetta er ekki rjett. Þeir voru 9 frá Ísafirði og 5 frá Hnífsdal.

Þá er annað atriði. Útibú Íslandsbanka stöðvaði ekki alla þá báta í haust, er haft hafa fjárhagslegan styrk frá útibúinu.

Ásökunin á hendur útibússtjóranum er með öllu rakalaus. Erfið afkoma þess útvegs hefir skapað það, sem nú er fram komið. Eignir þær, er bak við útgerðina höfðu staðið, voru eyddar, og lánstraust það, er mennirnir höfðu notið, var þrotið. Þar liggja þær raunverulegu ástæður. Það er annars hálfeinkennileg tvídrægni í þeim ásökunum, sem hjer eru bornar fram á hendur Íslandsbanka. Sumpart er hann ásakaður fyrir að hafa lánað of óvarlega til útgerðarinnar og á því tapað fje, meira en góðu hófi gegndi, en ef hann stöðvar útlán sín og segist ekki geta eða vilja tapa meiru, þá er hann enn grimmilegar skammaður fyrir það.

Skil jeg mjög illa, hve gjarnt hv. 4. þm. Reykv. (HjV) er að draga atvinnuleysi Ísfirðinga inn í umræður hjer á hv. Alþingi og leita að orsökum fyrir því þar, sem þær er ekki að finna. Hv. þm. ætti í stað þessa að hvetja skoðanabræður sína á Ísafirði til þess að taka við atvinnurekstrinum og láta fólkið ekki gjalda atvinnuleysisins og komast í örbirgð. Væri ekki nema eðlilegt, að þeir menn, sem svo hátt tala um það, að atvinnufyrirtækin sjeu illa rekin, beittu sjer sjálfir fyrir þeim til þess að firra bæjarfjelagið vandræðum vegna atvinnuskorts almennings.