29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (3204)

100. mál, landsstjórn

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) óskaði að vita, hvenær skipun forsætisráðherra hefði farið fram. Tillaga um skipunina var afgreidd hjeðan til konungs 16. mars, og samkv. símskeyti frá konungsritara hefir konungur undirskrifað skipunarbrjefið hinn 28. mars.

Þá vildi sami hv. þm. halda því fram, að það vantaði yfirlýstan vilja meiri hluta Alþingis til slíkrar skipunar. En hjer vantaði ekki neitt. Núverandi stjórn hefði í raun og veru haft fullan rjett á því að leggja til, að endanleg skipun væri gerð þegar eftir að kunn var orðin atkvæðagreiðslan við landskjörið í haust. Með þeirri kosningu kom vilji kjósendanna ótvírætt í ljós. En stjórninni þótti þó rjett að gera þinginu aðvart um þetta, og því var hjer gefin yfirlýsing skömmu eftir að þing kom saman, þess efnis, að ef ekki kæmi innan hæfilegs tíma á þinglegan hátt ósk frá meiri hluta Alþingis um stjórnarskifti, þá mundi verða lagt til við H. H. konunginn, að út yrði gefið á venjulegan hátt skipunarbrjef handa mjer til þess að vera forsætisráðherra í núverandi ráðuneyti. Yfirlýsingu þessari var ekki svarað með öðru en því, að þm. alþýðuflokksins — minsta flokks þingsins — sendu mjer brjef og kváðust álíta, að stjórninni bæri að leita trausts þingsins áður en slík skipun færi fram. Þetta náði auðvitað engri átt. Það var þingsins að segja til, ef það óskaði stjórnarskifta. Slík ósk kom ekki fram á næstu vikum, og því var gerð sú tillaga, sem H. H. konungurinn nú hefir fallist á. Þegar við þetta bætist, að í brtt. við þáltill. hv. 4. þm. Reykv. (HjV), sem hjer liggur fyrir á þskj. 273, er því yfir lýst af 5 flm. úr fjölmennasta andstöðuflokki stjórnarinnar, að þeir telji ekki sjáanlegt, að hægt sje að mynda meiri hluta stjórn á þessu þingi, þá held jeg, að fengnar sjeu þær yfirlýsingar, sem öllum ættu að nægja til þess að rjettlæta það, að núverandi stjórn situr með venjulegu skipunarbrjefi konungs. Að því er snertir skyldu stjórnarinnar til þess að leita trausts, þá má hv. 4. þm. Reykv. (HjV) vita það, að það er ekki stjórnarandstæðinganna að segja fyrir um það. Það geta fylgismenn hennar gert, ef hún ekki gerir það sjálf. Stjórnarandstæðingar eiga að fara hina leiðina, þá leið, sem hv. þm. hefir nú farið, að bera fram vantraust, ef þeir óska stjórnarskifta. Að því leyti er þetta mál rjett flutt hjer nú, en það var það ekki í brjefi því, sem hv. 4. þm. Reykv., ásamt 5. landsk. (JBald), sendi mjer.

Þá sagði hv. þm., að það mundi hafa verið í glensi mælt, er jeg gerði ráð fyrir því, að hann mundi mynda hina nýju stjórn. Hv. þm. má gjarnan líta svo á, sem þetta hafi verið glens, en glensið byrjar þá, þegar hann gerist svo framur að hlaupa fram í fylkingarbrjóst stjórnarandstæðinga með vantraustsyfirlýsingu. Ef svo ólíklega vildi til, að hún yrði samþykt hjer og fengi nægilegan stuðning úr efri deild til þess, að meiri hluti þings stæði á bak við hana, þá mundi af því leiða stjórnarskifti, svo sem til mun vera ætlast. Þá mundu böndin fyrst og fremst berast að þessum hv. þm. með það, að leggja til menn í hina nýju stjórn. En það vill nú svo vel til, eins og einn hv. þm. sagði, að meðan ráðherrarnir eru ekki nema 2, þá getur flokkur sá, sem þessi hv. þm tilheyrir, lagt til menn í bæði sætin. Þá hafði hv. þm. það ekki rjett eftir mjer, sem jeg sagði um afstöðu meiri hluta Alþingis og meiri hluta neðri deildar til stjórnarskifta. Jeg sagði, að til þess að mynda stjórn nægði ekki meiri hluti Nd., heldur þyrfti til þess meiri hluta Alþingis. Hann er nú ungur þm. og því kannske ekki von, að honum sje kunnugt um þetta, en þeirri reglu er altaf fylgt, að krefjast meiri hluta Alþingis, og leiðir það af því, að allir þm. hafa jafnan íhlutunarrjett um stjórnarmyndun. Hitt, að stjórninni nægði að hafa meiri hluta Alþingis, þótt hún væri í minni hluta í annari hvorri deildinni, um það sagði jeg ekkert og segi ekkert að svo stöddu.

Þá get jeg horfið frá þessari litlu kenslustund í stjórnlagafræði og vikið að öðru, sem hv. þm. bar fram. En það var að vísu ekki mikið annað en daufar endurtekningar á því, sem hann sagði í fyrri ræðu sinni. Hann tók nú aftur að mestu leyti það, sem hann hafði sagt um stjórnina og stóratvinnurekendurna. Hann sagði í fyrri ræðu sinni, að stjórnin væri skipuð af þeim, og hún væri framkvæmdastjórn þeirra, en nú sagði hann, að þeir væru mergur þeirra, sem stjórnin styddist við. Þetta er samlíking, sem hann má gjarnan eiga. Það eru þá væntanlega einhverjir aðrir, sem eru beinin, taugarnar o. s. frv.

Þá mintist hv. þm. á ríkislögregluna sem dæmi þess, að Íhaldsflokkurinn væri stjettarflokkur. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. vill halda því fram, að þeir, sem vilja halda uppi lögum landsins og hafa lögregluvald í landinu, sjeu sjerstök stjett manna. Ef svo er, þá eru væntanlega í hinum flokknum tómir lögbrjótar, menn, sem vitandi vits vilja óhlýðnast lögunum. Jeg hefi ekki heyrt nefnda slíka stjettaskiftingu fyr. Hann má gjarnan skipa sjer í þann flokkinn, sem hvorki vill hafa lög eða rjett nje lögreglu. Hinu er búið að marghnekkja, að lögreglunni sje ætlað að ganga á móti verkamönnum sjerstaklega. Henni er ætlað að ganga á móti lögbrjótunum. Það kann að vera, að verkamenn liggi meira undir fortölum til lögbrota en aðrar stjettir manna, en þrátt fyrir þessar fortölur forkólfanna, þá ber jeg það traust til verkamanna, að þeir óhlýðnist ekki boðum lögreglunnar frekar en aðrir.

Þá talaði hv. þm. um bankaráð Íslandsbanka. Jeg þarf ekki að bæta miklu við það, sem jeg hefi áður sagt um það. Eins og lögum bankans er háttað, þá hefir bankaráðið ekki aðstöðu til þess að hafa áhrif á einstakar lánveitingar úr bankanum. Þetta hefir verið svo frá upphafi, svo sem m. a. má sjá af því, að 3 af 7 bankaráðsmönnum eru búsettir erlendis. Í sambandi við þetta fór hv. þm. að segja sögu af ástandinu á Ísafirði. Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) hefir svarað því, svo jeg þarf ekki miklu þar við að bæta. Þó vil jeg leiðrjetta það, er hv. þm. sagði, að jeg hefði kent verkalýðnum á Ísafirði um töpin. Jeg sagði, að það mætti rekja kröfurnar um hækkun kaupsins annarsvegar og þynging útgjaldanna hinsvegar til verkalýðsforkólfanna. Jeg get tekið undir með hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), að þeir forkólfar alþýðunnar á Ísafirði, sem hæst tala um það, hve útgerðarmennirnir sjeu ónauðsynlegir í bæjar- og þjóðfjelaginu, ættu ekki að standa ráðþrota núna, heldur reyna að finna upp á einhverju til þess að koma starfrækslu á útgerðina aftur. Því að það eru mestu ráðþrotin að heimta, að bankinn taki við og haldi útgerðinni áfram, þegar skuldunautar hans eru orðnir uppgefnir á því.

Þá ljet hv. þm. orð falla um það, að jeg vildi gera útibússtjóra Íslandsbanka á Ísafirði ómerkan orða sinna. Þetta er með öllu tilefnislaust. Alt tal hv. 4. þm. Reykv. (HjV) um þetta mál hjer, og sömuleiðis tal hv. 5. landsk. (JBald) um þetta í Ed., er ekki annað en tilraunir manna, eða í þessu tilfelli flokks, sem veit sig hafa farið frámunalega vitleysislega og klaufalega að, til þess að skella skuld sinni á aðra. Þessi herferð á hendur alsaklausum manni er gerð til þess að breiða yfir mistök og misgerninga alþýðuforkólfanna á Ísafirði. Annars má hv. þm. vita, að umræddar ráðstafanir Íslandsbanka eru ekki ákvarðaðar af útibússtjóranum á Ísafirði, heldur af bankastjórninni hjer. En það virðist sem hún sje svo voldug, að þeir þori ekki að beina skeytum sínum til hennar. En það lýsir ekki mikilmensku að taka einn undirmann hennar og ráðast að honum.

Þá kom hv. þm. að lánsheimildinni fyrir Landsbankann og sagði, að jeg hefði átt að skýra opinberlega frá öllum málavöxtum viðvíkjandi henni. En hann veit það fullvel, að jeg skýrði frá öllu viðvíkjandi því máli á þann hátt, að allir þm. höfðu fullan aðgang að þeirri vitneskju.

Að því er snertir tolleftirlitið, þá vænti jeg þess, að hv. þm. komi til mín einhvern næstu daga og skýri mjer frá, hvers hann hefir orðið var um tollsvik; hann reyndi að víkja sjer undan því áðan og sagði, að mjer stæði nær að snúa mjer til lögreglustjórans um þetta. En það er nú því miður svo, að þegar lögbrjótar eru á ferðinni, þá byrja þeir ekki á því að heilsa upp á lögreglustjórann. Fyrsta vitneskja um lögbrotin verður venjulega að koma frá öðrum.

Þá upplýsti hv. þm. það, að sömu tóbakstegundimar reyndust misþungar við vigt í Vestmannaeyjum og í Reykjavík. Jeg vona nú, að vigtin í Reykjavík sje ekki minni en rjett er, því að ef svo er, þá er það tilfinnanlegur tekjumissir fyrir ríkissjóðinn. En jeg mun nota þetta tilefni til þess að láta fara fram athugun á þessu. Á því getur hv. þm. markað, að það er ekki rjett, sem hann sagði, að mjer væri lítið ant um tollgæsluna.

Þá mintist hv. þm. á eftirstöðvamar í Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem talað er um í landsreikningnum. Athugasemdum yfirskoðunarmannanna um það hefir nú verið svarað. Ef hv. 4. þm. Reykv. (HjV) þykir ekki fullsvarað, getur hann gert sínar athugasemdir, þegar landsreikningurinn kemur til umræðu. Annars er það svo um þessa upphæð, að síðan landsreikningurinn var saminn, hefir heimst inn allmikill hluti af upphæðinni, en nokkur hluti hennar er áreiðanlega ófáanlegur — tekjuskattur öreiga fyrirtækja og tekjuskattur, sem hefir verið færður niður með dómi, — og um sumt er eigi enn sjeð, hvort hægt verður að innheimta það. Þó er vonin um það betri nú en þegar svörin við aths. yfirskoðunarmanna voru skrifuð.

Það má vel vera, að það geti oft verið óhentugt fyrir ýmsa kaupmenn, ef aðrir keppinautar þeirra hafa með höndum innheimtu og umboð fyrir sýslumenn. En meðan fjárveitingarvaldið veitir ekkert fje til þessara umboðsmanna, er erfitt að gera sýslumönnum sjerstakar kröfur um það, hverja þeir velji. Samt held jeg nú, að þegar völ er á öðrum hæfum manni en þeim, sem rekur kaupmensku eða viðskiftaatvinnu, þá gangi sýslumenn heldur fram hjá þeim.

Hæstv. atvrh. (MG) svaraði því, sem fram kom hjá hv. þm. (HjV) um landhelgisgæsluna, sem sagt ásökununum um hlutdrægni foringjanna á varðskipunum. Jeg vil aðeins bæta því við, að það er ákaflega óheppilegt fyrir landið, þegar slíkar órökstuddar ásakanir koma fram um hlífð gagnvart innlendum sökudólgum, þegar þetta eru ekki heldur annað en sögusagnir óhlutvandra manna. Við verðum að vera vel á verði gegn því, að þeim erlendu fiskiþjóðum, sem helst verða fyrir barðinu á landhelgisgæslunni, þyki ekki brotinn á sjer þjóðarjettur. Eins og nú er, vantar síst kvartanirnar. Þegar útlendir skipstjórar koma heim, eftir að hafa verið dæmdir hjer í þungar sektir, hefir æði oft kveðið við sami söngurinn. Þeir hafa talað við blöðin í landi sínu og sagt, að þetta væri ekki sjer að kenna, heldur fákunnandi skipstjórum á íslenskum varðskipum og fákunnandi og hlutdrægum dómendum. En þessar ásakanir hafa altaf verið ósannar og ósannanlegar. Þess vegna hafa þær ekki gert okkur mein. En það er dálítið hættulegt, þegar fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi fara að bera fram svona ásakanir, því að með því gefa þeir þessum útlendingum mjög svo bætta aðstöðu um að vekja tortrygni gagnvart landhelgisgæslu Íslendinga í heimalandi sínu. Því álít jeg, að það hafi verið mjög vanhugsað af hv. 4. þm. Reykv. (HjV) að ráðast þannig á þá stofnun, sem einna mikilsverðast er að haldi fullum heiðri í augum umheimsins.