29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (3206)

100. mál, landsstjórn

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), formaður Framsóknarflokksins og aðalflm. brtt. á þskj. 273, hefir nú gert grein fyrir, hvað hann telur felast í þeim. Aðalkjarninn er sá, að þar sem núverandi stjórn hafi í sínum eigin flokki á bak við sig helming þingsins, þá sje sjáanlegt, að engin önnur meiri hluta stjórn verði mynduð á þessu þingi, og er það alveg rjett. En mjer fanst hv. þm. draga það í efa, að slík stjórn sem þessi væri þingræðisstjórn, þar sem hún hefði ekki meiri hluta þingmanna með sjer. Jeg verð aftur á móti að halda því fram, að hún sje fullkomin þingræðisstjórn eins og nú stendur, og verði það þangað til fyrir liggur atkvgr. í þingdeildum eða önnur yfirlýsing af hálfu Alþingis, sem annað sannar. Nú er einmitt komin fram þessi brtt. frá langstærsta andstöðuflokki stjórnarinnar, sem sýnir það, að hann óskar ekki stjórnarskifta og er hlutleysisyfirlýsing frá þeim þm., sem greiða henni atkv. Ætti það að nægja til að taka af öll tvímæli.

Að vísu er það rjett, að upphaflega þegar þingræði komst á í Englandi, var þess krafist, að stjórnin hefði í flokki sínum stuðning meiri hluta allra þingmanna, og þessi tveggja flokka tilhögun hjelst þar langa hríð. En nú hefir flokkum fjölgað svo mjög í öll um löndum, að alstaðar hefir verið nauðugur einn kostur, að slá af þessum kröfum. Til þess að vera þingræðisstjórn er nú ekki heimtað meira en það, að stjórnin sje skipuð af þeim flokki, sem samkomulag er um, að sje til þess bærastur, og að hún fái yfirlýsingu nægilega margra þm. úr öðrum flokkum um það, að þeir láti hana hlutlausa. Þannig er nú t. d. í Danmörku. Þar er það ekki einu sinni stærsti flokkurinn, sem stjórninni fylgir, en hún hefir frá öðrum flokki samskonar yfirlýsingu og þá, er hjer liggur fyrir frá Framsóknarmönnum, að flokkurinn vilji leyfa stjórninni að reyna sig fyrst um sinn. Mjer hefir þótt rjett að taka þetta fram til þess að gera það ljóst, að núverandi stjórn er fullkomin þingræðisstjórn. Og jeg býst við, að til þess geti einhvern tíma komið hjer eins og annarsstaðar, að við verðum að viðurkenna þá stjórn þingræðisstjórn, sem minna fylgi hefir heldur en þessi.

Jeg hefi auðvitað ekkert að athuga við yfirlýsingu hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), að stjórnin skuli sitja fram yfir kosningar. En þó að svo sje, get jeg ekki sagt hið sama að öllu leyti um brtt. á þskj. 273. í henni er margt, sem jeg fæ ekki fallist á. Þar stendur t. d., að vitanlegt sje, að núv. stjórn sje í minni hl. í Nd. Ef sagt hefði verið, að flokkur núv. stjórnar væri í minni hl., þá mætti þetta til sanns vegar færast, en engin atkvgr. hefir farið fram, sem sanni nokkuð af eða á um það, hvort stjórnin hafi minni hl. í hv. deild eða ekki. Það stendur líka í brtt., að stjórnin hafi ekki meiri hl. í sameinuðu þingi. Um þetta hefir ekki heldur farið fram nein atkvgr. Helst mundi kannske vera vísað í forsetakosninguna í Sþ. En hvernig var sú kosning? Stærsti andstöðuflokkur stjórnarinnar, Framsóknarflokkurinn, greip til þess úrræðis að kjósa mann úr öðrum minsta flokknum. Þetta er heldur óvenjuleg aðferð, og þegar samkomulagið er svona dýru verði keypt, tel jeg það enga sönnun þess, hvernig fara mundi atkvgr. um stjórnarskifti. Jeg tel það því líka ósannað mál, að stjórnin sje án meiri hl. fylgis í Sþ., nema átt sje við það eitt, að flokkur hennar sje ekki í meiri hluta. Hitt get jeg viðurkent, sem í tillögunni stendur, að sýnilegt er, að önnur meiri hl. stjóra verður ekki mynduð á þessu þingi.

Það var aðallega eitt, sem jeg hlustaði eftir í ræðu hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), og það var skýringin á niðurlagsorðum greinarinnar, að líta verði á stjórnina sem starfandi til bráðabirgða. Það, sem jeg hleraði einkum eftir, var, hvort þetta ætti að þýða, að litið yrði á stjórnina aðeins sem „fungerandi“ stjórn, sem svo er nefnt á erlendum málum. Það er nokkuð sama og hjer væri talað um stjórn, sem aðeins væri sett, en ekki skipuð. Munurinn á reglulegri og „fungerandi“ stjórn er nokkurn veginn hinn sami og á skipuðum og settum embættismanni. Jeg heyrði nú ekki, að hv. þm. (ÞorlJ) legði þennan skilning í þetta, enda hefði það ekki verið í samræmi við þá skipun, sem nú er á stjórninni. Mjer skildist helst, að hv. þm. legði þann skilning í orðin, að það væri viðurkent, að stjórnin mætti sitja fram yfir kosningar, og að orðin „til bráðabirgða“ þýddu þá helst, að ekki væri langt til næstu kosninga.

Og jeg verð að segja það, þó að hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) gæfi þessa skýringu, sem var með öllu áreitnislaus í garð stjórnarinnar, þá er jeg hræddur um, ef brtt. verður samþ. með því orðalagi, sem hún hefir, að einhverjir aðrir flokksbræður þessa hv. þm. verði til þess að leggja annan og miður góðgjarnan skilning í orðin „starfandi til bráðabirgða“ en hann gerði. Þess vegna tel jeg þessi orð athugaverð, og mundi því fremur kjósa, að hv. deild sýndi með atkvgr. afstöðu sína til vantrauststill. sjálfrar eins og hún er fram borin af hv. flm. (HjV).

Jeg á ekki atkvæðisrjett í þessari hv. deild og get því engu um það ráðið, hvernig fer um atkvgr. En þó finst mjer eðlilegra, að sjálf till. komi undir atkv. deildarinnar, en með samþ. brtt. er það útilokað, og tel jeg það ver farið. Þess vegna beini jeg þeirri ósk til hv. þdm., að þeir felli brtt., svo að þeim gefist kostur að greiða atkv. um vantrauststill. óbreytta.