29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (3207)

100. mál, landsstjórn

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) tók til máls áðan til þess að verja gerðir hæstv. stjórnar, og það sem undarlegra var, notaði hann tækifærið til þess að verja gerðir Íslandsbanka og útibússtjóra hans á Ísafirði.

Hann vildi ekki viðurkenna, að bátar Landsbankans hefðu stöðvast eins lengi og jeg hafði sagt. En jeg veit ekki betur en að það sje viðurkent, að þeir hafa stöðvast um mánaðartíma og það á þeim tíma, sem talið er að vertíð byrji hjer sunnanlands og þessir bátar eru vanir að sækja. En sá banki mun hafa sjeð sig um hönd, eins og rjett var. Þá vildi hann ekki viðurkenna, að bátarnir væru eins margir og jeg taldi þá vera. Jeg hefi það nú hjerna fyrir framan mig og bátanöfnin. Þar stendur, að 9 sjeu frá Ísafirði, 7 úr Hnífsdal og 1 úr Súgandafirði, en þetta verður til samans 17 bátar, sem allir voru á vegum Íslandsbanka, auk 5 báta, sem Landsbankinn hafði með að gera. (JAJ: Frá hverjum er þessi skýrsla?).

Hann vildi eitthvað draga úr þessu með því að segja, að bátarnir væru ekki allir frá Ísafjarðarkaupstað, en því verður þó ekki neitað, að meginhluti þeirra er þaðan og hinir allir úr nágrenninu.

Þá gat hann þess, að jeg hefði ásakað Íslandsbanka fyrir að lána þessum bátum fje, jafnframt því sem jeg ásakaði hann fyrir það að draga að sjer höndina og stöðva bátana. Jeg held, að reynslan hafi yfirleitt sýnt, hvernig fór fyrir þessum útgerðarmönnum, sem yfir bátunum höfðu að ráða, og hvernig fór um alla þeirra stjórn eða stjórnleysi, en eitt er það að taka bátana af þessum mönnum, og annað að sjá um, að atvinnuvegurinn fari ekki um koll, heldur sjeu framleiðslutækin fengin hæfari mönnum á staðnum. Það hefir Íslandsbanki ekki reynt. Kunnugt er af orðum útibússtjóra Íslandsbanka, að sá banki hefir helst kosið, að bátaútvegurinn hyrfi af Ísafirði. Sakirnar liggja helst á hendur þessum manni, og því hefði bankaráðið átt að taka í taumana, með hæstv. forsrh. (JÞ) í broddi fylkingar, og banna Íslandsbanka að beita Ísfirðinga slíku gerræði, þar sem auðsjeð var, að atvinna fjölda manna var í veði.

Hæstv. atvrh. (MG) fjelst á það sem jeg sagði, að ríkustu mennirnir væru í íhaldsflokknum og þeir kostuðu kosningamar og útgáfu blaðanna, og hann bætti því við, að þeir væru ekki verri menn fyrir það. Jeg var nú ekki að tala um það, að þessir efnuðu íhaldsmenn væru sjerstaklega vondir, heldur sagði jeg, að þeir stjórnuðu flokknum og segðu þannig hæstv. stjórn óbeinlínis fyrir verkum. En það er ekki lýðræði, og ólíkt því, sem á sjer stað um alþýðuflokkinn. Þar er öllum gjöldum jafnað niður á breiðari grundvelli, og þegar til þess kemur að velja t. d. fulltrúa til þess að fara með umboð flokksins á Alþingi, þá taka allir flokksmenn þátt í þeirri útnefningu.

Jeg geri ráð fyrir því, að ef hæstv. stjórn hefði sjeð sjer fært að fara lengra en „kapitalistar“ flokksins töldu hófi næst, þá hefði hún ekki borið fram jafnmörg og nauðaómerkileg frv., eins og hún hefir gert. Þar er víðast hvar um sáralitlar eða nauðaómerkilegar breytingar að ræða, enda er vikið að því í sumum nál., að það hafi svo sem enga þýðingu, þó að það verði samþ.

Stærsta málið er sjerleyfisfrv. til Titans, ef það nær þá fram að ganga. En hæstv. stjórn hefir lýst því yfir, að hún treysti sjer ekki að fylgja því eftir, ef nokkrar tryggingar fylgi með frá fjelagsins hendi fyrir því, að byrjað verði á framkvæmdum. Svo jeg get eins hugsað mjer, að það sje ekki annað en loddaraskapur hjá hæstv. stjórn að hafa borið frv. þetta fram.

Þá þóttist hann ekki geta að því gert, hverju væri varpað út frá útvarpsstöðinni, og að hann gæti ekki tekið fram fyrir hendurnar á þeim, sem stjórnuðu stöðinni.

Jeg ætla nú með leyfi hæstv. forseta að lesa upp dálitla klausu úr nál. allshn. Nd. 1925, þegar hjer var á ferðinni frv. það, sem síðar varð að lögum og útvarpsstöðin hlýtur að vera háð. Þessi klausa hljóðar þá svo:

„Það tíðkast nú mjög, að útvarpsstöðvar flytja ræður stjórnmálamanna, bæði þegar kosningar standa yfir og endranær. Er það og haganlegt, því á þann hátt geta miklu fleiri hlustað á þær en ella. Þetta mundi vafalaust tekið upp hjer, þegar útvarpsstöð er komin. En þess verður að sjálfsögðu að krefjast, að allir stjórnmálaflokkar eigi jafnan aðgang að stöðinni í þessu skyni. Þá verður og að gæta þess, að þau tíðindi eða frjettir, sem stöðin sjálf kann að senda heyrendum, verði eigi lituð í þágu neins sjerstaks stjórnmálaflokks“ (þskj. 364 1925).

Með þessu er einmitt lagt í hendur hæstv. stjórnar að hafa eftirlit með því, hverju varpað er út, og gæta þess, að enginn stjórnmálaflokkur sje þar sjerstaklega tekinn fram yfir annan. En nú hefi jeg einmitt skýrt frá því, að það litla, sem varpað hefir verið út af „pólitík“, er vegna íhaldsflokksins gert og litað af hans stefnu. Það hafa ýmist verið íhaldsslitur úr dagbók „Mogga“ eða íhaldsfjármálapólitík hæstv. forsrh. (JÞ).

Þá sagði hæstv. atvrh. (MG), að það væri ekki vel við eigandi af mjer að vera að saka forstöðumann útvarpsstöðvarinnar, af því að hann stæði nærri fjelagi, sem jeg er viðriðinn. En jeg gef forstöðumanni þessum ekki að sök, þó að hann hafi reynt að komast eins langt hjá stjórninni eins og raun hefir á orðið. En jeg saka hæstv. stjórn fyrir frámunalegt eftirlitsleysi, er hún lætur forstöðumann stöðvarinnar vefja sjer svo um fingur. Jeg verð að halda því fram, að það sje ólöglegt að leggja sjerstaklega á varahlutina. Lögin gera ekki ráð fyrir því, og þó að það sje tekið fram í reglugerðinni, þá er það ólöglegt, en því aðeins er reglugerð bindandi, að hún hafi þó einhverja stoð í lögum.

Það getur vel verið, að erfitt hafi verið að fá fje í þetta fyrirtæki. En jeg held, að upphaflega hafi það ekki verið meiningin, að hæstv. stjórn ætti að hugsa mest um það, að hluthafar hefðu arð af því, heldur hitt, að þjóðin hefði sem mest og best not af því.

Það er satt, að jeg hefi ekki lagt fje í þetta fyrirtæki og á engan eyri í því. Jeg hefi talið það gróðafjelag, enda virðist þetta háa stofngjald benda ótvírætt í þá átt.

Þá gat hann þess, að stöðin væri aðeins tekin til reynslu, og því ekkert við því að segja, þó að hún dragi ekki um alt land. Þetta getur vel verið, en hvað sem því líður, er það á móti lögunum að hafa svo veika stöð, að allir landsmenn geti ekki heyrt til hennar.

Jeg hefi heyrt því fleygt, að hæstv. atvrh. (MG) sje hluthafi í fjelaginu „Útvarp“, enda mun það hafa staðið í dönskum blöðum, að hann væri formaður, sem þó mun ekki vera satt. En hitt mun óhætt að fullyrða, að hann sje það mikið viðriðinn fjelagið, að um eftirlit hans með útvarpsstöðinni. ráði meira eiginhagsmunir heldur en sæmandi er fyrir mann, sem fyrst og fremst á að hugsa um þjóðarheildina og hvað henni kemur best í þessu efni.

Hæstv. atvrh. (MG) hefir nú algerlega gefist upp við að tala frekar um siglinga-atvinnulögin. Hann vill ekki viðurkenna, að hann hafi brotið lögin, en játar þó í öðru orðinu, að hann muni hafa gengið fulllangt um undanþágurnar. Jeg get vel trúað honum til þess — sem þykist vera mikill lögfræðingur — að vita, að ekki er hægt að veita undanþágu frá lögum, sem ekki er heimild til. Annars skaut hann sjer hjá því að svara, með því að segja, að jeg hefði hjer á dögunum viljað brjóta háskólalögin. En jeg tók það einmitt fram í þeirri deilu, sem varð um það mál, að jeg teldi stúdentana frá Akureyrarskólanum löglega stúdenta, ef prófin væru lögskipuð og í samræmi við próf mentaskólans í Reykjavík, enda eru margir lögfræðingar þeirrar skoðunar.

Mjer kom það dálítið undarlega fyrir, þegar hæstv. ráðh. (MG) kom eins og út úr hömrum og sagðist ekkert vita, hvaða gjald væri tekið fyrir að veita undanþágurnar. Hver ætti þá að vita það, ef ekki hæstv. siglingamálaráðh. (MG)? En mjer er sagt, að einhver hluti þessa gjalds renni til fjelags eins hjer í bænum.

Þegar um varðskipið Óðin er að ræða, þá verður ekki hjá því komist að segja þann sorglega sannleika, að skipið var illa bygt í upphafi, og þess vegna varð að endursenda það. Og þessar sakir verður að skrifa á bak hæstv. hermálaráðherra (MG). Hann ber ábyrgðina á því, hvernig skipið var úr garði gert af þeim dönsku, sem þegar hefir komið allþungt niður á ríkissjóði. Það hefir enginn ætlast til, að hæstv. ráðh. væri sá fagmaður, að hann gæti ráðið smíðinni, en hann átti að hafa þá ráðunauta við hönd sjer, sem treysta mátti að hefðu bæði vit og þekkingu til þess að segja fyrir um smíði skipsins. Hefði skipið verið gott og rjett smíðað í upphafi, hefði það hvorki þurft að tefjast um 3 mánaða bil frá strandvörnum nje ríkissjóður þurft að greiða þessar 8 þús. kr., sem talið er að hluti ríkissjóðs í viðgerðarkostnaðinum muni nema.

Hann heimtar af mjer að segja hjer, hverjir hafi sagt þetta eða hitt, sem hann á að vita og hlýtur að bera ábyrgð á. Jeg álít þess enga þörf að fara að þylja hjer upp nöfn þeirra manna, sem segja, að skipið sje illa gert og alls ekki fært um að hafa það starf með höndum, sem því er ætlað. Það er hæstv. landhelgismálaráðh. (MG) næst að láta rannsaka þetta, því hann getur aldrei skotist hjá því, að á honum hvílir ábyrgðin fyrst og fremst, og hann verður að standa reikning á gerðum sínum.

Og sama er um sjálfa landhelgisgæslu varðskipanna að segja, að hún er alment talin mjög slæleg. Hundruð manna hafa heyrt það, að landhelgisbrot togaranna íslensku hafi verið mjög tíð í vetur, en varðskipin látið sig það litlu skifta, eða jafnvel ekki komið í veg fyrir, að þau slyppu, eins og dæmið sýnir, er jeg nefndi í fyrstu ræðu minni. Þetta veit allur bærinn, og þó heimtar hæstv. ráðh., að jeg sanni þetta, að mjer skilst, með vitnaleiðslu hjer á Alþingi. En þetta er miklu auðveldara fyrir hann, sem valdið hefir í sínum höndum til þess að kalla skipshafnir togaranna og varðskipanna fyrir rjett og láta með yfirheyrslu sanna þennan áburð eða ósanna. Mjer skildist líka, að hann mundi fara þá leið, og er það vel farið. En hitt er óþarfi að þrátta um, að það er hæstv. atvrh. (MG), sem ber ábyrgð á því, hvernig landhelgisgæslan fer úr hendi, eins og á hverjum öðrum framkvæmdum ríkisstjórnarinnar, sem undir hann heyra.

Mjer skaust yfir að svara því, sem hæstv. ráðh. (MG) tók fram um utanför Óðins, að það hefði verið hættulaust að sigla skipinu landa milli, þó um hávetur væri. En hann játaði þó, að hann hefði ekki spurt háseta skipsins um þetta atriði. Þó var mikið um þetta talað áður en skipið fór, og hásetarnir allir á einu máli um það, að hættulaust væri það ekki að sigla skipinu landa milli, þegar allra veðra var von, og jafnvel töldu þeir tvísýnu á lífi sínu að fara með skipinu svo langa leið, og bygðu það á því, að skipið hefði verið komið að því að farast í Siglufjarðarmynni þá um sumarið.

Þá sagði hæstv. ráðh. (MG), að láninu til „Stefnisfjelagsins“ hefði ekki fylgt meiri áhætta en ýmsum þeim lánum, sem jeg hefði veitt viðskiftamönnum Landsverslunarinnar á meðan jeg hefði verið þar starfandi í þjónustu landsins. Jeg veit ekki, hvað hann meinar með þessu, því að vitanlega veitti jeg engin lán nema með ráði forstjórans, og vil jeg skora á hann að tiltaka nánar, um hvaða lán sje að ræða, eða taka dylgjurnar aftur. Annars get jeg bætt því við, sem hæstv. ráðh. hlýtur að reka minni til, að mikið var um þessa lánveitingu rætt á sínum tíma, og allir á sama máli um það, að lántakandi væri þá svo illa staddur, að það væri mesta óráð að veita lánið, enda kom fljótt á daginn, að trygging sú, er sett var, var aðeins á pappírnum og Fiskiveiðasjóði einskis virði. Og það er að því, sem jeg er að finna, að veita lán, sem sýnilegt er, að aldrei verði endurgreitt.

Þá kem jeg nú að hæstv. forsrh. (JÞ), og þótti mjer broslegt að heyra um skipun hans og meðstjórnanda, hæstv. atvrh. (MG). Þeir senda þetta út 16. þ. m. og leita þá staðfestingar á skipun þeirri, sem íhaldsflokkurinn hafði lagt til, að yrði á stjórninni. En svar konungs eða samþykki kemur fyrst í gær. Það er svo sem auðsjeð, að hæstv. forsrh. (JÞ) hefir vaknað við vondan draum, þegar vantraustið var komið fram, og farið þá að reka á eftir skipuninni.

Þá voru ekki síður broslegar ályktanir þær, sem hæstv. forsrh. dró út úr landskosningunum í haust. Samband Framsóknar og alþýðuflokksins sannar ekkert um meiri hluta fylgi þjóðarinnar við íhaldsstefnuna. Í fyrsta lagi kusu aðeins þeir, sem voru yfir 35 ára að aldri, en flestir þeir, sem jafnaðarmönnum fylgja, eru yngri, og í öðru lagi hafa jafnaðarmenn ekki fylgt sambandslistanum jafnfast og þeir hefðu gert, ef efsti maðurinn hefði verið úr þeirra flokki. Auk þess mætti og geta þess, að sá maðurinn, sem kosinn var, naut fylgis allmargra bindindismanna, því að hann var talinn mikill bindindisfrömuður og góður „goodtemplari“ á meðan stóð á kosningahríðinni, þó að komið hafi á daginn síðan, að hann muni vera meiri íhaldspostuli en bindindispostuli.

Jeg hefi ekki sagt, að hæstv. stjórn væri skipuð af stóratvinnurekendum og öðrum gróðamönnum, en hitt hefi jeg sagt, að þessir menn væru aðalkjarni íhaldsflokksins, sem ekki aðeins kostuðu allar kosningar flokksins, heldur bera þeir og uppi blöð hans, sem stráð er ókeypis út um sveitir landsins. Þess vegna verða það stóratvinnurekendurnir, sem ráða því, hverjir verða í kjöri af hálfu flokksins við kosningar, en hinir, sem stefnu þessari fylgja, hafa ekkert annað hlutverk en að kjósa eins og fyrir er lagt af þeim, sem kostnaðinn bera.

Þá vildi hæstv. forsrh. (JÞ) gera lítið úr ríkislögreglunni, hún ætti aðeins að halda uppi betri lögreglu í landinu, og gaf þá, að mjer virtist, í skyn, að í alþýðuflokknum mundi helst að leita lögbrjóta. En jeg held, að þarna sje nokkuð langt seilst, því vitanlegt er, að ríkislögreglunni var stefnt að verkalýðsfjelögunum, til þess að vernda hlut atvinnuveitenda í þeim vinnudeilum, sem upp kynnu að rísa. Ríkislögreglunni mundi aldrei hafa verið beitt, þó að lög landsins væru fótum troðin á þeim sviðum, sem nær stendur hæstv. stjórn, svo sem gegn bannlagabrjótum.

Sama er og um bankaráð Íslandsbanka að segja, að hæstv. forsrh. (JÞ) vildi lítið gera úr því og sagði, að það gæti lítið látið sig skifta um daglega stjórn bankans, vegna þess að meiri hl. bankaráðsins væri utanlands. En einmitt þess vegna er aðstaða þeirra manna betri, sem eiga hjer heima, og með aðstoð þeirra ætti hann sem formaður bankaráðsins að geta komið á þeim breytingum, sem hann teldi heppilegar um allan rekstur bankans, ekki síst er hann hefir í raun og veru sem fjármálaráðh. fjárráð bankans í hendi sjer með lánveitingunum til hans af hálfu hins opinbera.

Hann sagði, að verkalýðsforkólfarnir vestra hefðu valdið hruninu þar, en þar voru engin verkalýðsfjelög, t. d. á Þingeyri, Flateyri og Bíldudal, og því engir verkalýðsforkólfar. Á Ísafirði hafa raunar verið verkalýðsfjelög, en kaupgjald og álögur ekki meiri en í öðrum kaupstöðum landsins. Þetta er því hrein fjarstæða, sem ekki þarf neinum orðum um að eyða. Jeg skil heldur ekki, hvers vegna hann er að bera það fram, að menn vestra hafi staðið ráðþrota um þessi mál, þegar þeir lögðu einmitt til, að bátarnir yrðu teknir af bankanum 2–3 mánuðum áður en það varð. Það var ekkert eðlilegra en að bátamir hefðu verið teknir af eigendunum og gerðir út af bankanum. Með því hefði þó verið bjargað atvinnu þeirra manna, sem mest tjón biðu við stöðvunina. Ef ætti að beina ádeilu á einhverja menn út af þessu, þá eru það auðvitað þeir, sem hafa verið við útgerðina riðnir.

Viðvíkjandi tollgæslunni ætla jeg að fara fljótt yfir sögu, þar sem tíminn er naumur. En jeg vil benda hæstv. fjrh. (JÞ) á, að það er vert að athuga skipin, þegar þau koma hjer að landi. Annars er það lögreglunnar auðvitað að hafa upp á sökudólgum, en ekki óviðkomandi manna. Það væri lítil löggæsla, ef lögreglan biði ávalt eftir því að fá kærur frá einstökum mönnum um ákveðin lögbrot. Svo að hæstv. fjrh. og forsrh getur ekki búist við því, að jeg fari að ganga langt í að vinna að því verki, sem er lögreglunnar að vinna.

Jeg skil ekki, hvers vegna hæstv. fjrh. vill ekki hætta við álímingu hjer í Reykjavík, en halda sama ástandi og verið hefir úti um landið, þar sem hún er mesta handahófsverk. Hann viðurkendi, að í Vestmannaeyjum hefði tollurinn yfirleitt verið reiknaður öðruvísi en hjer í Reykjavík. Jeg veit, að það er rjett. Það mun koma á daginn, að ríkissjóður hefir mist mikið vegna of lágt reiknaðs tolls og vegna þessa gjaldfrests á tollgreiðslu, sem hæstv. stjórn hefir ekki skift sjer af hingað til. Það er ófært að fara eftir sinni reglunni á hvorum stað, þar sem fluttar eru inn tóbaksvörur. Til lítils er eftir á að afsaka það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) hefir haft heilt ár til að laga.

Viðvíkjandi Gullbringu- og Kjósarsýslu gat hæstv. fjrh. þess, að það væri óinnheimtur tekjuskattur hjá öreiga fyrirtækjum. Mjer er spurn: Er skatturinn ekki óinnheimtur af því, að ekki var gengið rækilega eftir honum á sínum tíma?

Viðvíkjandi umboðsmönnum sýslumanna úti um land er þess að gæta, sem hæstv. fjrh. virtist ekki ljúka upp augunum fyrir, að með því að halda því fyrirkomulagi, sem hæstv. fjrh. vill, að stærsta verslun á staðnum hafi umboð sýslumanna, þá getur hún sjeð alla innkaupsreikninga þeirra verslana, sem við hana keppa.

Jeg vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. (JÞ), hvers vegna var skift um póstmeistara í Vestmannaeyjum?

Þá kvað hæstv. forsrh. mjög óheppilegt, að slík ásökun um ljelega strandgæslu kæmi fram á Alþingi. Jeg vil spyrja: Hvar ætti slík ásökun að koma fram, ef ekki á Alþingi? Jeg hygg, að þótt hæstv. forsrh. vildi helst, að menn kæmu upp í stjórnarráð til að bera fram slíkar kvartanir, þá mundi því harla lítið sint þar. Eina vonin um, að slíkum kvörtunum sje sint, er að þær sjeu gerðar í heyranda hljóði. Og það er best, að útlendingar þeir, sem þykjast hafa eitthvað við strandgæsluna að athuga, sjái það, að Íslendingar sjálfir vilji, að hún nái jafnt yfir alla. Jeg sje ekki, að hægt sje að kalla það hættulegt, að fulltrúar þjóðarinnar komi með slíkt. Það er ekki nema sjálfsögð skylda hvers þeirra, sem um það veit.

Jeg er yfirleitt mjög undrandi yfir þessum svörum hjá hæstv. ráðherrum viðvíkjandi strandgæslunni, að þeim finnist það vera goðgá að skýra frá því, að lög sjeu brotin. En það kemur kannske ekki illa heim við það, að hæstv. atvrh. (MG) lætur sjer það í mjög ljettu rúmi liggja, að hann hefir sjálfur verið að brjóta landslög.

Hæstv. forsrh. (JÞ) sagði, að þar sem jeg væri svo framur að flytja vantraust, þá mundi, ef vantraustið yrði samþ., að mjer berast böndin að mynda stjórn. Ekki veit jeg, hvaðan hæstv. forsrh. hefir þessa þingreynslu sína, og fer mjer nú að þykja ekki ótrúlegt, sem sagt er, að hæstv. forsrh. hafi áður gert sig heldur sekan um þingsafglöp. Ef til kæmi að mynda stjórn, þá myndi konungur auðvitað snúa sjer til forseta Sþ. til þess að leita fyrir sjer um það. Annars finst mjer mega segja það um hæstv. forsrh. sjálfan, að hann gerist framur, þegar hann mælir með því við konung, að hann skipi sig ráðherra á þeim tíma, sem hann ræður ekki meiri hluta í þinginu og á vantraustsyfirlýsingu yfir höfði sjer. Enda geri jeg ráð fyrir, að þessari brtt., sem er fram komin, sje einmitt ætlað að koma í veg fyrir, að sú skipun hafi þá þýðingu, sem hann hefir ætlast til.

Það mætti nú fara nokkuð lengra út í að rekja syndir hæstv. fjrh. (JÞ) en jeg hefi gert. En jeg hefi ekki tekið stefnumálin yfirleitt, heldur drepið á einstök nýleg mál, og alls ekki farið langt aftur í tímann, eins og hæstv. atvrh. bjóst við. Það hafa áður verið eldhúsdagar og þau mál athuguð. En minna mætti hæstv. fjrh. (JÞ) á það, að fjárhagsástandið í landinu er yfirleitt honum og hans stjórn að kenna. Það, sem mest þjakar fólki nú, það eru þeir miklu tollar, sem gera svo að segja ólíft fyrir alla alþýðu manna í þessu landi. Hans stefna er sú, að láta tollana hvíla þungt á alþýðunni, en láta atvinnufyrirtækin græða. En reynslan hefir sýnt, hversu óviturleg slík stefna er. Atvinnufyrirtækin standa sig ekki betur fyrir það. Fjeð, sem þau fá í góðu árunum, eyðist engu síður, en á krepputímum eins og nú fara þau unnvörpum á höfuðið. En alþýðan, sem þá ætti að hafa gjaldþol, ef hyggilega hefði verið farið að, er þá svo rúin af álögum hæstv. fjrh. (JÞ), að engu er á bætandi.