29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í D-deild Alþingistíðinda. (3210)

100. mál, landsstjórn

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi ekki margt að svara hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Ræða hans var ekki annað en stytt útgáfa þeirrar fyrri, sem jeg var búinn að hrekja. Jeg tók svo eftir, að hv. þm. gerði ráð fyrir, að till. um skipun forsrh. hafi verið símuð út til konungs. Hafi hann sagt það, þá er það ekki rjett. Till. er afgreidd hjeðan 16. mars brjeflega í pósti til Kaupmannahafnar.

Jeg verð að halda því fram, eftir því sem fram hefir farið, að afgreiðsla till. hafi verið öldungis þingræðislega rjett. Að vísu vænti jeg ekki viðurkenningar á því frá hv. þm. Str. (TrÞ).

Hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) benti rjettilega á það, að þegar svo jafnir flokkar með og móti eru í þinginu, sem hann vill nú vera láta, þá geti að því dregið, að óhjákvæmilegt verði að leysa upp þingið. En þá verður að vera til einhver stjórn, sem getur borið ábyrgð á þingrofi. Það hygg jeg hafi verið öllum ljóst í þingbyrjun, er jeg gaf yfirlýsingu fyrir hönd stjórnarinnar. Þá var ekkert á móti því haft, að forsrh. yrði skipaður. Nú hefir það verið gert, og því situr nú stjórn að völdum, sem ber fulla stjórnskipulega ábyrgð. Hvort hún er skoðuð sem bráðabirgðastjórn eða ekki, get jeg látið mjer í ljettu rúmi liggja.

En út af þingrofunum vil jeg benda á, að ekki færri en 2 eða 3 frv. um stjórnarskrárbreytingar liggja nú fyrir þessu þingi. (TrÞ: Þau eru þrjú). Ja, kannske 3, ef hv. þm. Str. (TrÞ) vill telja sína tilraun með. Gerum nú ráð fyrir þeim möguleika, að eitthvert þeirra nái samþykki beggja þingdeilda. Þá mælir stjórnarskráin svo fyrir, að þing skuli rjúfa þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Heyrir þá til, að til sje í landinu stjórn, sem bær er að gera till. um þingrof til H. H. konungsins. Vilji Alþingi ekki hafa til þess þá stjórn, er nú situr, þá verður það að segja til þess. Gangi alt á þinglegan hátt, fer stjórnin frá, og þingið sjer um myndun nýs ráðuneytis.

Því verður ekki fengið framgengt að afturkalla skipun stjórnarinnar, nema önnur komi í staðinn, eins og mjer skildist helst mega skilja mjög óljósa hugsun hv. þm. Str. (TrÞ). Það er þingsins að velja, hvort það vill þessa stjórn eða vill hana ekki. Þess vegna er rjett, að till. hv. 4. þm. Reykv. (HjV) komi til atkv. eins og hún liggur fyrir.

Jeg skal svo reyna að vera stuttorður út af hv. 4. þm. Reykv. (HjV). Hann mintist á landskjörið og vildi gera lítið úr því, af því að kjósendurnir væru 35 ára og eldri. Það getur hann ekki. Meðan stjórnarskráin mælir svo fyrir, að þeir, sem kjósa við landskjör, skuli hafa þennan aldur, eru þeir, sem svo eru kosnir, fullkomlega jafnrjettháir þeim kjördæmakosnu sem þjóðarfulltrúar.

Þrátt fyrir persónulegt fylgi, sem játað skal að hv. 6. landsk. (JKr) hafi haft, geta þó stjórnarandstæðingar aldrei annað en viðurkent, að þeir hafi orðið undir, og kosningin sú gefur þeim því síður en svo rjett eða átyllu til að „troða upp“ og segjast hafa meiri hl. þjóðarinnar að baki sjer.

Um Íslandsbanka læt jeg útrætt, að öðru en því, að jeg kendi ekki verkalýðsforkólfunum um mistök og skaða á Þingeyri, Bíldudal eða Flateyri, heldur um þann þátt, er þeir eiga í því, hve höllum fæti stendur útgerðin á Ísafirði nú. Jeg skal gjarnan fræða hv. 4. þm. Reykv. (HjV) um, hvað tiltækilegast er til þess að reisa við útveg Ísfirðinga, og hann getur þá látið ráðleggingarnar berast til rjettra hlutaðeigenda. Það er fullyrt, að sterkríkustu og tekjuhæstu mennirnir á Ísafirði sjeu einmitt nokkrir helstu forkólfar alþýðuflokksins þar. Nú þætti mjer rjett, að þessir menn tækju rögg á sig og verðu fje sínu og hættu lánstrausti sínu til þess að stofna einkafyrirtæki eða sjerstakt fjelag til þess að taka við útgerðinni og rækju síðan til atvinnu fyrir bæjarbúa. Það mundi greiða fyrir ekki svo lítið, ef þessir helstu efnamenn legðu fram krafta sína, fje og tíma.

Út af því, sem sagt er um slælegt eftirlit með því, að ekki sje selt vín í land úr skipum, skal þess getið, að málið hefir verið til athugunar undanfarið í fjármálaráðuneytinu. Og það hafa verið gerðar uppástungur viðvíkjandi tilhögun um eftirlit með ferðum skipa, er sigla á hafnir hjer við land, sjerstaklega hvað snertir áfengi. Það er að vísu vandkvæðum bundið vegna þess, hve litlum starfskröftum er á að skipa á þeim höfnum, er þau koma við. Það er vandi að sníða eftirlitið svo, að það verði ekki gagnslaust, en þó eigi óframkvæmanlegt með þeirri tilhögun og því liði, sem nú er á að skipa um tollgæslu.

En þó að stjórnin komi endurbótum í verk á þessu, getur hún ekki þar fyrir losað borgara ríkisins, eins og t. d. hv. 4. þm. Reykv. (HjV), undan því að gerast meðsekur með því að hylma yfir tollsvik og smyglun. Það er skylda hans að gera rjettum yfirvöldum viðvart, og jeg vona, að þau fái hið fyrsta upplýsingar um, hvar honum er kunnugt um misfellur. Hingað til hefir hann hvorki nefnt heimildarmann nje sakborning.

Hv. þm. (HjV) hjelt, að ríkissjóður mundi hafa tapað fje í Vestmannaeyjum vegna ófullkominnar vigtar á tóbaki. Það kemur til athugunar við endurskoðun tollreikninganna í fjármálaráðuneytinu, og jeg get fullvissað hann um það, að komi í ljós, að tollur sje vanreiknaður, verður af hálfu endurskoðanda gefinn úrskurður til lögreglustjóra um að innheimta vangreiddan toll. Þar er ekkert tapað, að ekki verði gengið eftir í tíma.

Þá spurði hv. þm.(HjV), hvers vegna hefði verið skift um póstmeistara í Vestmannaeyjum. Jeg veit það ekki, enda heyrir það ekki undir mína stjórnargrein. Það verða svo oft mannaskifti, ekki síst í kaupstöðum. Og það er ekkert undarlegt um Vestmannaeyjar, sem eru í slíkum vexti, að þetta starf, sem var áður aukastarf og haft í hjáverk um, er nú orðið nóg einum manni. Jeg geri ráð fyrir, að ástæðan sje þessi.

Um ásakanir hv. þm. um landhelgisgæsluna er það að segja, að hv. þm. Borgf. (PO) hefir nú svo rækilega lagt niður fyrir honum, hverjar sjeu skyldur hans gagnvart því máli, að jeg treysti mjer ekki til að gera betur.

Þá endaði hv. þm. (HjV) loks ræðu sína með því að kvarta yfir tollum og sköttum. Jeg neita því ekki, að þeir voru miklir frá því 1. apríl 1924 og þar til farið var að ljetta þeim af aftur. En þar er ekki um stjórnarráðstöfun að ræða. Heldur reyndist það nauðsynlegt af því, hvernig komið var hag ríkissjóðs í höndum fyrverandi stjórnar, og löggjafarvaldið ber á því fulla ábyrgð, því að það hefir gert alt, sem gert hefir verið á þessu sviði.

Jeg ætla þá að enda með því að rifja upp og fá yfirlit yfir það, sem hv. 4. þm. Reykv. (HjV) hefir sagt við þetta tækifæri. Hann hefir ekki dregið fram eina einustu stjórnarathöfn úr mínum verkahring, er teljast megi aðfinsluverð eða jeg hafi vanrækt. Alt eru það vonbrigði yfir því, að mjer hafi ekki tekist að koma í veg fyrir ýmislegt, sumpart í atvinnulífinu eða hjá bönkunum eða hjá tilteknum embættis- og starfsmönnum hins opinbera.

En svo gengur það jafnan í þessum ófullkomna heimi, að eftir á er hægt að benda á eitt eður annað, er betur hefði mátt fara, og jafnan kemst maður skemra en skyldi.

Sú stjórn er þó ekki öllum heillum horfin, er á þeim kjörum að sæta, að ekki er fundið að athöfnum hennar sjálfrar af andstæðingum, heldur því, að henni hefir ekki tekist að afstýra ýmsu, sem liggur fyrir utan hinn eiginlega verkahring hennar.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Str. (TrÞ), sem jeg gerði ráð fyrir í svari mínu til hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), að svo góðgjarnlega sem hann túlkaði brtt. þeirra, þá yrðu einhverjir flokksbræður hans til þess að túlka hana miður góðgjarnlega, ef hún yrði samþykt.

Hv. þm. Str. (TrÞ) var með dylgjur, að stjórnin starfaði til bráðabirgða, með þeim afleiðingum, er það hefði í för með sjer.

Jeg veit ekki vel, við hvað hann átti. Ef hann á við það, að stjórnin sje ekki skipuð, heldur aðeins sett eða „fungerandi“, þá er því ekki til að dreifa. Hafi hv. þm. Str. (TrÞ) þótt stjórnin misgera og brjóta af sjer með till. sinni til H. H. konungsins um skipun forsætisráðherra, ætti það að vera enn ein ástæða til fyrir hann, og hún fullgild, að láta koma til atkv., hvort deildin vill samþykkja vantraust á stjórninni eða ekki. Það nær ekki nokkurri átt að vera með dylgjur um það, að stjórnin hafi gert sig seka um mjög alvarlegan hlut í þingræðislandi, og þora svo ekki að láta koma til atkv. till., sem gefur mönnum kost á að taka afstöðu til annars eins og þessa.

Eftir alt þetta verð jeg að líta svo á, að ef hv. þm. greiðir atkv. með till. eins og hún er nú breytt, tjáir hann þar með þessari stjórn hlutleysi sitt að svo stöddu og fram til kosninga, ef ekkert nýtt kemur fyrir. Þetta er gert ómótmælanlega með brtt.

Seinasta kjarnyrði hans um pólitíska „castration“ má þm. eiga fyrir mjer. Smekkvísina í þessum ummælum hefir hann víst fundið í Búnaðarfjelaginu, á það svið var samlíkingin sótt. En hitt verður hann að vita, að hans rjettur sem þingmanns og stjórnarandstæðings er að greiða stjórninni vantraust, ef hann vill, að hún fari frá. En sje hann stjórnarandstæðingur og þori ekki að greiða atkv. gegn henni hjer, þegar á hann er kallað, þá hefir hann ekki í sínum vasa neinn kuta til þess að gera neinar dýralæknisaðgerðir á stjórninni. Hann getur vitanlega skrifað í blað sitt eins og hann hefir nú gert um nokkur ár, en um áhrifin af þeim skrifum fer líklega líkt hjer eftir sem hingað til.