29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (3215)

100. mál, landsstjórn

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það eru aðeins fá orð til hv. flm. (HjV). En hann er nú svo aðfram kominn, að jeg skal hafa þetta örstutt. Hann var að lýsa muninum á sínum frv. og frv. stjórnarinnar. Hann sagði, að ekki væri undarlegt, þó að þau væru ólík, því að hann bæri sín frv. fram fyrir sinn flokk. Þetta er alveg rjett. Munurinn er fólginn í því, að stjórnin ber frv. sín fram vegna allrar þjóðarinnar. Því er hennar frv. betur tekið en hans. Frá þessu sjónarmiði kallar hann frv. stjórnarinnar pólitísk viðrini, af því að þau falla ekki í smekk þessa eina flokks.

Þá sagði hv. þm. (HjV), að landhelgislögin væru brotin og gæslan skrípaleikur. Jeg neita því, að svo sje um gæsluna. En hv. þm. getur ímyndað sjer, að á jafnstórri strandlengju og hjer er um að ræða sje hægt að brjóta lögin, án þess varðskipin viti. En það er alt annað en að halda því fram, að varðskipin leiki sjer að því að svíkjast um sína eigin skyldu.

Þá nefndi hv. þm. tollmerkinguna og sagði, að jeg hefði ekki haft rjett til að svara þar til, þar sem jeg væri ekki fjrh. En við erum báðir þingmenn, og jeg læt hv. 4. þm. Reykv. (HjV) ekki segja mjer fyrir um það, hvenær jeg megi tala. En jeg segi bara það, að jeg sje enga ástæðu til þess að fara til aðaltóbakskaupmannsins í bænum til að fá svar hans við því, hvernig verjast skuli tollsvikum.