25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í D-deild Alþingistíðinda. (3243)

107. mál, smíði brúa og vita

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg hygg, að á erfiðum tímum og þegar atvinnuleysi sverfur að, sje það vilji alþjóðar, að það, sem hægt er að framkvæma í landinu, sje þar unnið og af landsmönnum sjálfum. Það, sem liggur til grundvallar þessari till. okkar flm., er það, að flogið hefir fyrir, að hæstv. stjórn hafi síðastliðið haust verið, ásamt vegamálastjóra, að yfirvega það, að láta smíða brýr erlendis. Á jeg þar við brúna á Hvítá í Borgarfirði. Það var ástæða til að ætla, að þessi brú yrði bygð á yfirstandandi ári, en þegar þessi orðrómur um hina erlendu brúarsmíði kom upp, þá sneru menn sjer til atvrh. (MG) og spurðu hann, hvort nokkuð væri hæft í þessu, en hann svaraði því á þá leið, að ekkert væri búið að ákveða um það, hvenær brú þessi yrði bygð, og því gæti hann engu um þetta svarað. Og söm voru svör vegamálastjóra. Svörin voru því þannig vaxin, að vel hefði mátt halda, að brúin yrði smíðuð erlendis. Nú stendur svo á, að um langt skeið hafa allar brýr landsins verið smíðaðar hjer innanlands. Og þegar hæstv. núverandi forsrh. (JÞ) var landsverkfræðingur, þá gekst hann fyrir því, að komið væri hjer upp fullkominni smiðju, sem smíðað gæti brýr og annað, sem landið þyrfti að láta gera, auk þess sem hann bætti mjög áhaldahús ríkisins að verkfærum. Í áhaldasmiðjuna voru þannig í landsverkfræðingstíð Jóns Þorlákssonar útveguð fullkomnari tæki en til voru í öðrum smiðjum í landinu, með það fyrir augum, að ríkið gæti sem best og mest bjargast við eigin smiðju. Vil jeg á engan hátt draga úr þeirri viðurkenningu, sem Jón Þorláksson á skilið fyrir þessar ráðstafanir sínar.

Eftir árið 1920 var myndað hjer í bænum hlutafjelag úr samsteypu af smiðjum einstakra manna. Var þangað keypt nokkuð af nýtískuvjelum, og þannig varð fært að leysa af hendi ýms verk, sem ekki hefir verið hægt að gera hjer á landi áður á smíðaverkstæðum einstakra manna. Síðustu ár hafa þannig ýmsar framkvæmdir viðvíkjandi brúm og vitum verið gerðar í þessu einkafyrirtæki.

Þó að það í sjálfu sjer þurfi ekki að hafa nein áhrif á sjálft verk það, sem þetta fyrirtæki leysir af hendi, að því er brýr og vita snertir, þá er það engu að síður mjög óviðkunnanlegt, ef satt er, sem heyrst hefir, að bæði forstjóri vitamála og forstjóri vegamála sjeu hluthafar í þessu fyrirtæki. Um vitamálastjóra er það svo, að hann hefir játað það opinberlega, að hann eigi hlut í fyrirtækinu, en að því er vegamálastjóra snertir, þá liggur ekki fyrir yfirlýsing frá hans hendi um þetta. Þó að það þurfi í sjálfu sjer ekki að vera neitt athugavert við það, þá getur það þó sett óþarflegan grun á þessa tvo menn, þegar ýmislegar framkvæmdir ríkisins, sem það ætti að geta látið sína smiðju inna af hendi, eru fengnar í hendur þessu fyrirtæki einstakra manna. En auk þessa hefir h. f. „Hamri“ verið lánað ýmislegt af áhöldum ríkissjóðs til þess að vinna með að ýmsu fyrir ríkið. Fjelagið getur vitanlega ekki unnið álagslaust fyrir ríkið, enda mun fjelagið hafa haft mikinn hagnað af viðskiftum ríkisins við það. Nú sýnist mjer eðlilegast, að áhöldum ríkissjóðs sje haldið í smiðju hans, og að þar sje unnið það, sem ríkið þarf að láta gera og hægt er að gera þar. Með því móti færi landið ekki á mis við þann hagnað, sem aðrir taka fram yfir beina kostnaðinn við vinnuna. Á sumum tímum hefir álag „Hamars“ verið talið 50–75% á vinnuna, en vera má, að það hafi lækkað eitthvað síðustu ár, en 1920–24 var lagt afarmikið á alla vinnu fjelagsins, vegna þess, að það hafði svo mikið að gera, að því var svo að segja alveg í sjálfsvald sett, hversu dýrt það seldi vinnu sína.

Með þessari þáltill. viljum við flm. Í fyrsta lagi, að þær verklegar framkvæmdir, sem landið ræðst í, sjeu unnar hjer á landi, og í öðru lagi láta smiðju ríkisins inna þær af hendi, af því að við vitum, að það er hægt og að brýr og vitar hafa verið smíðuð þar í mörg ár. Vildi jeg heyra álit hæstv. atvrh. (MG) um þetta og hvort hann og vegamálastjóri hafi í hyggju að láta smíða erlendis ýms mannvirki, eins og t. d. brúna á Hvítá. Þó að það ef til vill yrði ódýrara að láta smíða slíkt í Noregi, þá mundi mismunurinn margfalt vinnast upp á því, að það fje, sem greitt væri í vinnulaun og fyrir notkun smiðjunnar, sem ríkið á, færi ekki út úr landinu. Menn þekkja dæmi til þess með öðrum þjóðum, að ýmsar framkvæmdir eru unnar í landinu sjálfu, enda þótt þær fengjust ódýrari annarsstaðar. Skal jeg í þessu sambandi minna á, að það var harðlega átalið í dönskum blöðum, er það kom fyrir ekki alls fyrir löngu, að Sameinaða gufuskipafjelagið sendi til Gautaborgar til viðgerðar eitt af skipum sínum, vegna stirðleika danskrar skipasmíðastöðvar. Þetta er aðeins eitt dæmi, en þau eru til mörg fleiri.

Þá vildi jeg í sambandi við þessa till. spyrja hæstv. atvrh. (MG), hvort honum sje kunnugt um það, hversu miklu af gasi vitarnir hjer eyða. Það er sem sje ekkert leyndarmál, að gasið er keypt af verksmiðju, sem vitamálastjóri er mikið riðinn við. Jeg spyr að þessu vegna þess, að mjer hefir verið sagt, að verð h. f. „Ísaga“ á gasi sje hátt. Það er í hæsta máta óviðkunnanlegt og varhugavert, að vitamálastjóri skuli vera riðinn við þetta fyrirtæki, sem verslar beint við vitana, sem hann á að sjá um fyrir hönd ríkisins. Er altaf hætta á því, að ekki sje passað nógu vel upp á, þegar sami maður á að gæta hagsmuna beggja aðilja. Enda er lítið um það, að maður sjái, að vega- eða vitamálastjóri bjóði út smíði á opinberum mannvirkjum. Og þó að h. f. „Hamar“ sje stærsta smiðja hjer á landi, þá eru þó til hjer fleiri fyrirtæki í þeirri grein, sem tekið geta að sjer smíði. Nú hefir í einu af blöðum bæjarins kaupmaður einn fundið að því, að maður, sem stendur fyrir einu ríkisfyrirtæki, hafi ekki auglýst útboð með nægilega löngum fyrirvara. En ekki mætti síður áfellast það, að verk ríkissjóðs sjeu falin einu einstöku firma, án þess að leitað sje tilboða, og vítaverðast er það, ef ríkissmiðjan getur sjálf int þetta af hendi og ekki dýrar en önnur samskonar fyrirtæki.

Jeg þykist með þessum orðum hafa gert næga grein fyrir því, hvað vakað hefir fyrir okkur tillögumönnum, og jeg hefi beint fyrirspurnum til hæstv. atvrh. (MG) í þessu sambandi, sem jeg vænti að hann svari.