25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í D-deild Alþingistíðinda. (3245)

107. mál, smíði brúa og vita

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg er nú ekkert óánægður með undirtektir hæstv. atvrh. (MG) undir þáltill. mína. Hann játaði það rjett vera, sem almannarómur sagði síðastliðið haust, að til mála hefði komið að byggja brúna á Hvítá erlendis. En það er gott, að ekkert verður úr því, en það virðist eingöngu vera því að þakka, að breytt hefir verið um gerð á brúnni. En hæstv. atvrh. og vegamálastjóri ættu að láta sjer umhugað um það, að öll slík verk væru unnin hjer á landi. Það er rjett hjá hæstv. atvrh., að jeg vil láta gera útboð, þegar um slíkar framkvæmdir sem þessar er að ræða, ef á annað borð er farið annað með þær en í áhaldasmiðju ríkissjóðs. Það var vikið að því í blaði einu í harðorðri grein, að vitamálastjóri hefði látið gera við „Hermóð“ í „Hamri“. Það sýndist eins og vitamálastjóra væri ant um að láta framkvæma vinnu þar. Það er þetta, sem jeg vil fyrirbyggja, að landssjóðsvinnan sje látin í ákveðnar smiðjur, án þess að útboða sje leitað. Annars held jeg, að smiðja ríkissjóðs sje svo vel útbúin, að ekki þurfi að leita annað með smíði fyrir ríkissjóðinn. Hæstv. atvrh. gaf þær upplýsingar, að síðastliðið ár hefði verið unnið fyrir ríkissjóðinn utan áhaldasmiðjunnar fyrir 1260 kr. En mjer er kunnugt um það, að á undanförnum árum hefir þetta numið meiru. Eftir 1920 voru aðaláhöld þau, sem notuð voru í áhaldasmiðjunni, lánuð út í „Hamar“ og verkin framkvæmd þar. Og það virðist aðeins vera fyrir opinberar ávítur, að farið er að vinna eitthvað í smiðju ríkisins, og að áhöldunum hefir verið skilað þangað aftur. Annars er það leitt að þurfa að vera á hælunum á þessum starfsmönnum ríkisins til þess að fá þá til þess að nota áhaldasmiðju ríkissjóðs.

Hæstv. ráðh. gat ekki að svo stöddu upplýst, hve mikið gas vitarnir hjer á landi notuðu. Mjer þætti vænt um, ef hann gæti aflað sjer vitneskju um það fyrir 3. umr. fjárl. í Ed. Þá getur kannske orðið tilefni til þess að minnast á það. Hæstv. ráðh. sagði, að vitamálastjóri hefði stofnað„Isaga“til hagsbóta fyrir vitana. En það lítur út fyrir, að það hafi verið fult svo mikið til hagsbóta fyrir hluthafana, ef það er satt, að verð á gasi sje miklu hærra þar en annarsstaðar á Norðurlöndum. En það fer ekki vel á því, að vitamálastjóri sje helsti forkólfur í hlutafjelagi, sem selur vitunum þetta efni. Hann ætti helst ekki að vera neitt við það riðinn, og það ætti að vera samningur um það, að ríkið þyrfti ekki að kaupa þetta ljósagas hærra verði en hægt er að fá það annarsstaðar.