25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (3247)

107. mál, smíði brúa og vita

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Út af orðrómi þeim, sem hv. fyrri flm. þessar þáltill. (JBald) gat um að gengið hefði um bæinn, um að smíða hefði átt Hvítárbrúna erlendis, þá vil jeg benda á, að vegamálastjóri áleit, að ef brúin ætti að vera hengibrú, mundi smíðið verða svo mikið verk og vandasamt, að ekki væri unt að smíða hana hjer á landi, og alls ekki á vjelaverkstæði ríkisins.

Þetta var ástæðan til, að það kom til orða að smíða brúna erlendis. En útboð hefðu auðvitað verið gerð, og innlendu tilboði tekið, ef það hefði verið hægt í samanburði við önnur framkomin tilboð. Mjer skildist hv. flm. (JBald) hala dálítið í land um útboðin. Hann áleit, að ætíð ætti að smíða í vjelasmiðju ríkisins, þegar unt væri, án tillits til kostnaðarins. Jeg álít, að þegar öllu er á botninn hvolft, eigi að smíða þar innanlands, sem hægt er að komast að bestum kjörum.

Hv. flm. sagði, að sjer þætti leitt að þurfa altaf að vera á hælunum á þessum starfsmönnum ríkisins, vegamálastjóra og vitamálastjóra. Jeg veit ekki, hve sárt hann tekur það, en mjer virðist þeir hafa svarað allvel fyrir sig, og þeir því geti látið sjer í ljettu rúmi liggja ákúrur hans. Hv. flm. á að sanna, að ekki sje rjett skýrt frá hjá þeim. Ef hann getur það ekki, verður hann að viðurkenna, að þeir hafa gert í þessu það, sem rjett var, stundum leitað útboða og fengið vinnuna annarsstaðar frá, ef það var ódýrara en í áhaldasmiðju ríkisins.

Hv. flm. sagði, að verð á ljósagasi í „Ísaga“ væri of hátt. Mjer er það ekki vel kunnugt, en jeg er reiðubúinn að leita upplýsinga um það. En út af ummælum hv. flm. um það, að mjög væri óviðeigandi, að vitamálastjóri væri við það fyrirtæki riðinn, vil jeg geta þess, að svo framarlega sem hann hefir stofnað það til þess að vitarnir fengju ódýrara ljósagas en þeir fá frá útlöndum, finst mjer það rjett.

Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) spurði, af hverju hefði verið horfið frá smiðju ríkisins. Jeg vil spyrja hv. 4. þm. Reykv., hvort hann hafi verið viðstaddur, þegar jeg las upp úr brjefi vegamálstjóra. (HjV: Jeg heyrði sumt). Þetta er ekkert svar. Eins og þegar hefir komið fram, var áhaldasmiðjan notuð eins og hægt var. Annars verð jeg að segja, að hv. þm. bar fram svo margar og margvíslegar fyrirspumir, að það er ekki hægt að ætlast til, að jeg geti svarað þeim þegar í stað. Ef hv. þm. vill fá svar, er best fyrir hann að láta taka málið út af dagskrá. Hann spurði mig um kaupgjaldið hjá vegamálastjóra. Hvernig getur hv. þm. ætlast til, að jeg viti, hvað hátt kaup vegamálastjórinn hefir borgað verkamönnum sínum í gær? Það er eins og ef jeg færi að spyrja hv. þm., hvað margir hefðu keypt af honum vindla í dag. Annars hefir vegamálastjóri fengið ákúrur frá fjvn. fyrir að borga of hátt kaup. Það fer að verða erfitt fyrir stjórnina að gera öllum til hæfis. Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) vill eflaust hafa kaupið sem hæst, en fjvn. vill láta lækka það frá því sem það var í fyrra.

Þá spurði hv. þm., hvernig hefði verið, þegar rafmagn var lagt inn í áhaldastofu ríkisins 1919. Hvernig veit jeg það? Jeg var ekkert við það riðinn. Þegar jeg fór að hafa með þessi mál að gera, var búið að leggja inn rafmagnið víðast hvar.

Hv. þm. kom fram með ýmsar aðfinslur í garð vegamálastjóra. Það er gamla sagan, að reyna að gera menn tortryggilega. Jeg vil endurtaka það, að ef hv. þm. vill fá svar við öllum sínum spurningum, verður hann að láta taka málið út af dagskrá, ef hann þá meinar nokkuð annað en að bera slúðursögur inn í þingið. Það er í fylsta máta ómaklegt að ráðast þannig á fjarverandi starfsmenn ríkisins, ekki síst vegamálastjóra, sem er mjög góður embættismaður. Jeg vil ráða hv. þm. til að bera spurningar sínar fram í fyrirspurnarformi. Á þann hátt, sem hann sækir málið, getur hann ekki búist við að fá svar við þeim.