25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í D-deild Alþingistíðinda. (3249)

107. mál, smíði brúa og vita

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg held, að undirrót þessarar tillögu og umtals þess, sem henni fylgir, sje að miklu leyti sú óánægja, sem vaknaði hjá einstökum mönnum, nefnilega starfsmönnum hins opinbera, sem þangað til höfðu starfað í áhaldasmiðju ríkisins, af því að hætt var eitt sinn um tiltekinn tíma að starfrækja þessa smiðju. Og þegar hv. 4. þm. Reykv. (HjV) spyr, af hverju ekki hefði þótt borga sig eftir stríðið að nota áhaldasmiðjuna, getur það ekki lotið að öðru en þessu atviki, en til þess lágu orsakir, sem mjer eru af tilviljun kunnar.

Á miðju sumri 1923, þegar þáverandi stjórn vegna fjárskorts ríkissjóðs stöðvaði ýmsar framkvæmdir, var lagt fyrir vegamálastjóra að hætta starfrækslu áhaldasmiðjunnar og segja upp þessum mönnum, og þeirri skipun hlýddi hann auðvitað. Af þessari stöðvun framkvæmda leiddi, að ekki var mikið verkefni þá fyrst um sinn fyrir smiðjuna. Eins og menn muna, stóð þessi stöðvun lítið breytt árið 1924. Það hafði ekki verið gert ráð fyrir miklum opinberum framkvæmdum í fjárlögum þess árs, og auk þess var afráðið, í samráði við hlutaðeigandi nefnd á þingi, að þeim litlu framkvæmdum, sem teknar höfðu verið á fjárlögin 1924, skyldi skotið á frest. Þannig stóð á því, að um langan tíma, jafnvel tvö ár, var ekki svo mikið verkefni fyrir höndum handa áhaldasmiðjunni, að fært þætti að ráða þangað fasta menn umfram það, sem nauðsynlegt var vegna viðgerða á verkfærum. Það gleður mig að heyra það af skýrslu hæstv. atvrh., að nú, eftir að framkvæmdir ríkissjóðs hafa aukist, er komin breyting á þetta. En það er með öllu rangt að álasa vegamálastjóra fyrir stöðvun þessa fyrirtækis 1923 og 1924.