25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (3251)

107. mál, smíði brúa og vita

Flm. (Jón Baldvinsson):

Hæstv. atvrh. (MG) er altaf svo viðkvæmur, þegar spurt er um einhverjar framkvæmdir landsins. Honum finst altaf, að verið sje að bera á sig og aðra hlutaðeigendur ógurlegar sakir, þó að menn vilji fá upplýsingar. En hæstv. ráðh. má ekki vera svo typpilsinna. Jeg veit, að hann mundi segja við andstæðinga sína, að annað eins og þetta kæmi af vondri samvisku hjá þeim. En fyrst hæstv. ráðh. er farinn að teikna upp hjá sjer fyrirspurnir, ætla jeg að leyfa mjer að bæta einni við. Hvað kostaði vitaskipið „Hermóður“? Jeg hefi heyrt 20 þús. kr. Hæstv. ráðh. (MG) getur kannske líka upplýst, hvað það kostaði hingað komið. Mjer hefir verið sagt 40–50 þús. kr. 1924 var svo gert við það í „Hamri“ fyrir 36 þús. kr., og 1927 var enn gert við það. (Atvrh. MG: Hv. þm. getur ekki búist við, að jeg sje eins fljótur að skrifa og hann að tala). Hæstv. ráðh. skal hlusta með andagt, og svo skal jeg hjálpa upp á hann á eftir. Einnig get jeg upplýst, að viðgerðin annaðhvort árið var þess eðlis, að vjelstjóri skipsins taldi sig vel geta framkvæmt hana. En hann var látinn fara sem verkamaður inn í „Hamar“ og gera við þetta þar. Jeg skal ekki fullyrða, að þetta hafi verið neitt dýrara, en óneitanlega var ankannalegt að hlaupa í smiðju, þegar engin þörf var á því.

Hæstv. ráðh. má ekki vera svona firtinn, þegar talað er um fyrirtæki, sem starfsmenn ríkisins eru eigendur að. Það hlýtur að vekja tortrygni. Enda þótt vitamálastjóri hafi ef til vill gert þetta í besta skyni, þá er engu síður óeðlilegt, að hann sje eigandi og versli við sjálfan sig fyrir landsins hönd. Hæstv. ráðh. sagði, að það sje verið á hælunum á þessum mönnum. En sannast að segja er ekki nema eðlilegt, að talað sje um sambandið milli þeirra og fyrirtækjanna. Atvikin gefa tilefni til þess.

Þá tók hæstv. forsrh. (JÞ) til máls og upplýsti það, að tillaga okkar væri fram komin út af óánægju þeirra manna, sem mist hefðu þarna atvinnu. Hafi verið lögð niður vinna í smiðju ríkisins að óþörfu, þá er þetta rjettmætt. Fyrst hæstv. ráðh. (JÞ) fór að minnast á þá menn, er þarna hafa mist atvinnu, þá er rjett að segja frá því, sem alkunnugt er, að vegamálastjóri sagði upp einum starfsmanna sinna fyrir nokkrum árum, fyrir þá sök eina, að honum líkaði ekki stjórnmálaskoðanir hans, og vegamálastjóri grunaði þennan mann um það, að hann hefði verið riðinn við grein í einu blaði borgarinnar, sem gagnrýndi gerðir vitamálastjóra. Það er eðlilegt, að menn, sem á þennan hátt verða fyrir rangindum, sjeu óánægðir. En ástæðurnar fyrir tillögunni voru ekki þær, sem hæstv. forsh. (JÞ) gat til, heldur þær ástæður, sem fram hafa verið færðar af flm. till., að ríkissjóður fær eins vel gerða vinnu í sinni eigin smiðju, og auk þess ódýrar. Og það má gjarnan koma hjer fram, að hæstv. forsrh. (JÞ) sýndi mikinn og lofsverðan dugnað, þegar hann í sinni landsverkfræðingstíð setti áhaldasmiðjuna á stofn. Þá vildi ráðh. (JÞ) bera það af vegamálastjóra, að hann hefði átt frumkvæði að því að hætta að nota ríkissmiðjuna, heldur hafi þetta leitt af skipun ríkisstjórnarinnar 1923, þegar hún ljet hætta öllum verklegum framkvæmdum. Jeg skal ekkert um það segja, en hafi þetta verið gert samkvæmt fyrirskipun stjórnarinnar, þá var það jafnóviturlegt. Og vegamálastjóri, sem jafnan hlýtur að hafa talsvert mikið að segja á hærri stöðum, hann hefði átt að leiða stjórninni það fyrir sjónir, hversu afaróheppilegt það væri að loka smiðjunni, af því að óhjákvæmilegt yrði að kaupa þá vinnu, sem ríkissjóður hefði að öðrum kosti getað látið vinna í sinni eigin áhaldasmiðju. Því ávalt hefir ríkissjóður nokkrar framkvæmdir með höndum. Vegamálastjóri hefir því reynst stjórninni slæmur ráðunautur, að koma ekki í veg fyrir það, að áhaldasmiðju landsins væri lokað. Það hefir líka komið á daginn, að kaupa hefir orðið dýru verði ýmiskonar vinnu, sem hægt hefði verið að sleppa við, ef áhaldasmiðjan hefði starfað áfram. Og allmikil brögð hafa verið að því, að bæði vegamálastjóri og vitamálastjóri hafa leitað til „Hamars“ um ýmsa vinnu í þarfir ríkisins, en vitamálastjóri þó gert meira að því. Það var ekki fyr en síðastliðið sumar, þegar farið var rekast í þessu, að áhöldum þeim, sem „Hamar“ hafði fengið lánuð úr smiðju landsins, var skilað aftur, og þá um leið byrjað að vinna eitthvað í smiðjunni, en í smáum stíl. Þess vegna vona jeg nú, að þáltill. okkar hv. 4. þm. Reykv. (HjV) verði til þess, að þetta þjóðnýtingarfyrirtæki, sem hæstv. forsrh. (JÞ) kom á stofn, þegar hann var landsverkfræðingur, verði tekið upp aftur og rekið með dugnaði og ráðdeild.