25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (3252)

107. mál, smíði brúa og vita

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 5. landsk. (JBald) þótti jeg úrillur, af því að jeg vildi ekki fallast á ómaklegar árásir hans á embættismenn landsins. Hann sagði líka, að jeg vildi engu svara spurningum sínum. En það er hægt að spyrja um svo margt og spyrja þannig, að ómögulegt sje að svara án þess að leita sjer upplýsinga. Jeg gæti t. d. spurt hv. þm. þeim spurningum, sem hann gæti alls ekki svarað, og koma honum þó við. Getur hann t. d. nú þegar sagt mjer, hvað marga snúða hann seldi í bakaríinu sínu 1. mars 1926? (JBald: Jeg get svarað því strax. Jeg seldi ekki einn einasta). Já, hann getur svarað því, að hann hafi ekki sjá sjálfur selt þá, því að auðvitað leggur hann sig ekki niður við svo lítilfjörleg verk. En annars er svarið út í hött, því að vitaskuld er hann seljandi snúðanna, þó að hann afhenti þá ekki sjálfur. Og ef jeg vildi svara út af eða út í hött, gæti jeg það, en jeg tel það ekki samboðið ráðherra að svara þannig á þingi.

Annars mætti minna hv. 5. landsk. (JBald) á gamalt spakmæli, sem hljóðar svo, að einn heimskingi geti spurt um fleira en 10 vitringar geta svarað. (JBald: Hæstv. ráðh. er búinn að útslíta þessu nú á þessu þingi). Spurningar hv. 5. landsk. (JBald) gefa mjer ástæðu til að minna hann á þetta spakmæli oftar en einu sinni.

Hann var að spyrja um, hvað vitaskipið hafi kostað. Það er mjer ókunnugt um. Jeg var ekki í stjórn, þegar það var keypt, og veit ekki annað en það, sem sagt var frá, að skipið muni hafa verið talsvert dýrt. Annars vildi jeg benda á, að öðruvísi er ástatt nú en á þeim tímum, er hæstv. forsrh. (JÞ) kom á fót áhaldasmiðju landsins. Þá var hjer engin vjelasmiðja, er gæti að sjer tekið að smíða það, sem landið þurfti að láta gera. Nú eru að minsta kosti 2 slíkar smiðjur hjer í bæ, „Hamar“ og ,,Hjeðinn“, sem jeg held að sjeu að ýmsu leyti betri og fullkomnari en vjelasmiðja ríkisins.

Hv. 5. landsk. (JBald) þótti vegamálastjóri ekki góður ráðunautur stjórnarinnar, úr því hann fekk hana ekki til þess að hætta við að leggja niður vinnu í áhaldasmiðjunni 1923. En skipunin um það var gefin út áður en vegamálastjóri átti kost á að vita um hana. Það var því ekki um annað að gera fyrir hann, sem undirmann, en að hlýða fyrirskipunum yfirboðaranna. Annars hefði mig ekki furðað á því, þó að hv. 5. landsk. (JBald) hagaði svona orðum sínum, ef íhaldsstjórn hefði verið hjer að verki. En af því að það var nú stjórn þess flokksins, sem hann hefir jafnan staðið í innilegu sambandi við, þá hjelt jeg, að hann mundi tæplega álasa vegamálastjóra fyrir það að fara eftir skipunum hennar.