25.04.1927
Sameinað þing: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (3254)

107. mál, smíði brúa og vita

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það eru aðeins örfá orð til árjettingar því, sem jeg hefi áður sagt.

Jeg verð að halda fast við það, að þessir embættismenn eigi að vera ráðunautar stjórnarinnar um allar framkvæmdir, og þeir eiga umfram alt að vera stjórninni hollir í ráðum sínum. Hafi því svo verið, að stjórnin hafi skipað að leggja áhaldasmiðjuna niður, þá átti vegamálastjóri að sýna fram á, að það væri ekki hægt, en að hinu leytinu sjálfsagt að draga seglin saman. En að „loka búð og hætta að höndla“ og flytja áhöldin vestur í ,,Hamar“, það voru Lokaráð, sem sjálfsagt er að víta.

Hæstv. atvrh. (MG) þarf jeg ekki að svara miklu. Það hefir komið fram fyr en í dag, að honum er ósýnt um að svara fyrirspurnum þeim, sem til hans er beint um störf opinberra embættismanna landsins. Í staðinn fyrir að svara beint fyrirspurnum þeim, sem fyrir hann eru lagðar, fer hann inn á „prívat“-sakir manna. Hann hefir oftar en nú spurt um fyrirtæki, sem jeg er viðriðinn, og veit jeg ekki, hvað slíkt á að þýða, nema þá að draga athygli frá því, sem um var spurt. Það er þó alt annað að spyrja um starf opinberra embættismanna ríkisins en um rekstur einkafyrirtækis.

Jeg hefði nú getað skilið þessar gagnspurnir ráðherrans, ef jeg hefði t. d. spurt um, hvað margir hnappar væru í vestinu hans eða þvíumlíkt. Annars get jeg svarað þessari fyrirspurn hans um snúðasölu í Alþýðubrauðgerðinni þennan ákveðna dag, sem hann nefndi, ef það yrði nokkuð til þess að upplýsa það, hvers vegna áhaldasmiðja ríkisins ekki hefir verið notuð.