06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

48. mál, notkun bifreiða

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Lögin um notkun bifreiða eru ekki nema ársgömul, og er þegar komið fram frv. til breytinga á þeim.

Allshn. hefir haft frv. til athugunar síðan það kom frá hv. Nd. Hefir nefndin fallist á þá skoðun, sem fram kemur í 1. gr. frv., að nauðsynlegt sje að gera eftirlitið með bifreiðum öruggara. En á hinn bóginn virðist nefndinni fulllangt gengið í tryggingarskyldu frv., að minsta kosti að því er stærri bifreiðastöðvar snertir. Er með frv. lagður ekki alllítill skattur á þær, þar sem það skiftir tugum þúsunda, sem þær þurfa að tryggja fyrir. Tryggingin á að vera til þess, að vissa sje fyrir því, að nægilegt fje sje fyrir hendi til greiðslu skaðabótakröfu þess, er verður fyrir slysi af völdum bifreiðar, m. ö. o. til þess, að örugt sje, að bifreiðaeigendur eigi fje fyrir hendi, sem hægt sje að ganga að, ef svo ber undir. Þetta er ekki nema sjálfsagt. En menn mega ekki gleyma því, að tryggingin er, eins og jeg þegar hefi tekið fram, skattur á bifreiðaeigendum, og í því má ekki fara lengra en góðu hófi gegnir og forsvaranlegt er í þessu efni. Í frv. er farið fram á, að tryggingarnar þrefaldist við það, sem gert var ráð fyrir í lögunum frá síðasta þingi, og er það hlutfall látið halda sjer án tillits til þess, um hve margar bifreiðir er að ræða. En nefndin vill breyta þessu þannig, að setja hámark fyrir tryggingarupphæð hvers einstaks bifreiðaeiganda eða fjelags, þannig, að hún þurfi ekki að vera hærri en 45 þús. kr. Er þetta gert vegna hinna stærri bifreiðastöðva, því að í bifreiðum þeirra og öðrum eignum felst að jafnaði trygging fyrir því, að þeir sjeu borgunarmenn fyrir skaðabótunum. Er það auðvitað, að skaðabótaskyldan hvílir jafnt á mönnum, hvort sem þeir eiga eina bifreið eða fleiri, en nefndinni virðist rjett að taka tillit til þess um tryggingarupphæðina, hvort um litlar stöðvar eða stórar er að ræða, þar eð hjá stóru stöðvunum eru að öllum jafnaði miklar eignir fyrir hendi auk hinnar lögmæltu tryggingarupphæðar.