29.04.1927
Efri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (3281)

34. mál, kennaraskólinn

Ingibjörg H. Bjarnason:

Hv. 1. landsk. (JJ) hefir nú skýrt frá áliti mentmn., það sem það nær, en að því er snertir þörf landsspítalans til þessarar lóðar, þá hefi jeg þegar tekið það fram, og get fært sönnur á það, að þessi öld líður að líkindum svo, að ekki þurfi að taka lóðina til notkunar fyrir landsspítalann. En aftur á móti felst nefndin á það, að ekki sje tiltækilegt að byggja neina viðbót við þetta gamla timburhús.

Að lóðin fyrir skólann þyrfti endilega að vera þarna, í „háborginni“, geta verið skiftar skoðanir um, og það er líka eftir að vita, hvort bærinn sjer sjer það fært að verða við þessari ósk nokkurs hluta nefndarinnar, og mjer fanst skólastjóri kennaraskólans ekki leggja eins mikið upp úr því, hvar skólinn stæði, eins og hv. 1. landsk. (JJ) virðist gera. Náttúrlega gekk hann inn á, að hentugast væri, að hann yrði reistur þarna í nánd við háskólann, en að sambandið sje svo náið milli þessara tveggja skóla, það get jeg ekki sjeð, því að í öðrum löndum er svo langt frá því, að svona óskyldar stofnanir standi mjög nálægt hvor annari, og ef það kemur fyrir, að sækja þarf fyrirlestra á háskólann, þá telur enginn það eftir sjer, þó að svo sem hálftíma leið sje á milli þeirra stofnana. En að fá bæinn til þess að leggja til lóð handa skólanum, verður vitanlega altaf erfiðara, því að það verður altaf meiri og meiri erfiðleikum bundið að fá góðar lóðir, þar sem lóðum bæjarins fer altaf fækkandi.

Jeg hefi hjer fyrir mjer uppdrátt af landsspítalanum, og þar þykist jeg sjá, að hann muni ekki þurfa að halda á lóð kennaraskólans í fyrirsjáanlegri framtíð. Jeg hefi líka fyrir mjer uppdrátt af lóð þeirri, sem kennaraskólinn stendur á. Samanburður á uppdráttum þessum bendir á engan hátt á, að nauðsyn sje á því að flytja kennaraskólann, vegna þarfa landsspítalans, og byggja yfir hann annarsstaðar; en að fara að byggja nýtt steinhús í viðbót við þetta gamla timburhús, nær vitanlega engri átt.