03.05.1927
Neðri deild: 65. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (3295)

117. mál, sameining póststöðva og símastöðva

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þetta mál er ekki nýtt hjer á þingi. Jeg held, að það hafi komið fram á þinginu 1922. Þá var, að mig minnir, skorað á stjórnina að láta eitthvað svipaða rannsókn fara fram eins og hjer er gert ráð fyrir, og það gerði stjórnin á sínum tíma. Það var hv. 1. þm. Rang. (KlJ), sem gerði það sem atvinnumálaráðherra, og síðan hefir ætíð þeirri reglu verið fylgt, þegar losnað hefir annaðhvort símastjórastarf eða símavarðar úti um land eða póstafgreiðslumannsstarf, þá hefir verið athugað, hvort ekki væri hægt að slengja þessum störfum saman, og landssímastjóri og póstmeistari hafa altaf ráðgast um þetta, samkvæmt fyrirmælum í brjefi, dags. 4. maí 1922, og það hefir verið með þeim árangri, að tekist hefir að sameina þessi embætti á 6 stöðum. Þessir staðir eru: Fáskrúðsfjörður, Borðeyri, Egilsstaðir, Eskifjörður, Siglufjörður og Stykkishólmur. En stundum hefir staðið svo á, að sá maður, sem eftir hefir verið í hinni stöðunni, hefir ekki treyst sjer til þess að taka við þeirri stöðunni, sem losnað hefir. En þessi athugun hefir farið fram altaf jafnóðum og stöðurnar hafa losnað, og jeg geri ráð fyrir, að því verði haldið áfram á sama hátt og verið hefir.

Eftir því sem hv. aðalflm. (MT) mælti fyrir till. sinni, þá virðist mjer hún ganga lengra en þál. 1922 að því leyti, að rannsakað verði, hvort ekki sje hægt að sameina yfirstjórn síma- og póstmála. Jeg skal fyrir mitt leyti ekkert hafa á móti því að láta slíka rannsókn fara fram, en hún þýðir auðvitað það, að það verður að hafa settan mann í landssímastjórastöðunni þar til á næsta þingi. Þetta er sjálfsagt ekki nein frágangssök, en jeg er hræddur um, að rannsóknin leiði aðeins í ljós, að það verði tiltölulega lítill sparnaður að sameiningunni og kannske enginn, því að þeir landssímastjóri og póstmeistari halda því báðir fram, að þeir menn, sem gegna þessum embættum, hafi sjálfir svo mikla persónulega vinnu, að slík sameining á störfum geti ekki átt sjer stað nema þá með því að taka mann í þeirra stað, til að losa þá við þessi störf, en hinsvegar halda þeir því fram, að það sje erfitt fyrir einn mann að vera framkvæmdarstjóri fyrir hvorttveggja, nema þá að hann sje mjög vel kunnugur öllum þessum störfum, svo að hann þurfi ekki að sjá alt með annara augum. Alt þetta er rannsóknaratriði eftir till., og skal jeg því ekki ræða það frekar, en aðeins lýsa yfir því, að svo framarlega sem hv. deild óskar, að þessi rannsókn fari fram, þá er frá minni hálfu ekkert í vegi fyrir því, að hún verði framkvæmd.

Jeg get hugsað mjer, að þeim manni, sem nú er settur til þess að gegna embætti landssímastjóra, þyki verra að vera settur svo lengi, ef hann gerir sjer von um að verða skipaður í stöðuna, en jeg álít það ekki atriði, sem hafi svo mikla þýðingu, að það sje ástæða til að setja það sjerstaklega fyrir sig.

Jeg sje ekki, að þetta þurfi frekar að ræða, og skal aðeins endurtaka það, að jeg er fús til að láta þessa rannsókn fara fram, ef þingið óskar, að það verði gert.