03.05.1927
Neðri deild: 65. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (3297)

117. mál, sameining póststöðva og símastöðva

Flm. (Magnús Torfason):

Jeg get verið þakklátur hæstv. atvrh. (MG) fyrir undirtektir hans við till., og þarf jeg ekki að taka annað fram en það, sem mörgum af þeim mönnum hefir fundist, sem athugað hafa póstmálaforstöðuna hjer á landi, að þeir þykjast ekki koma auga á mann, sem fylli sæti okkar gamla, góða póstmeistara, þegar til þess kemur. Það eru vitaskuld margir valinkunnir menn, sem starfa hjer á pósthúsinu, en það eru margt af þeim aldraðir menn, sem myndu ekki vera færir um að taka að sjer stöðuna, þótt þeir hafi verið góðir og gegnir menn á sinni tíð.

Að öðru leyti er það sýnilegt, að síminn er að bólgna og stækka ár frá ári, og veitir svo stórum mun meiri tekjur en póstmálin gera, svo að það er alllíklegt, að með tíð og tíma verði póstmálin ekki nema smábrot af hinu. Af því vildi jeg líka taka það fram í þessu sambandi, að eitt er það, sem ætti að geta orðið til mikils sparnaðar í þessu máli. Húsaleiga ætti að geta orðið mun minni, en það er, eins og við vitum, ekki óverulegur hluti af kostnaðinum, að minsta kosti sjer maður það á reikningum frá póstafgreiðslumönnum, að húsaleigan er allverulegur útgjaldaliður hjá þeim, og þá verður manni sjerstaklega að renna huganum til lóðarinnar hjerna við hafnarbakkann fyrir austan símahúsið, sem menn hafa í hyggju að kaupa fyrir of fjár. Mjer dettur í hug út af því, þegar byggja skal á þessu plássi, hvort þá er ekki rjett að athuga um leið, hvort byggingar á sínum tíma fara fram með það fyrir augum, að þetta hvorttveggja sje sameinað.

Hv. þm. Barð. (HK) ljet í ljós, að sjer fyndist það firra næst að hugsa sjer, að yfirmaður þessara stofnana væri ekki sjerstaklega kunnáttumaður. Jeg hefi ekki sagt það, að hann eigi ekki að hafa einhverja þekkingu á hlutverki sínu, og býst við, að sá maður yrði að hafa undirbúið sig á einhvern hátt. En að minsta kosti er þetta ekki fráleitara en það, að danska stjórnin og sú nefnd, sem hefir haft málið þar til meðferðar, hafa hnigið að því að sameina þessar greinir. En sá maður, sem á að hafa þetta mál með höndum, verður að vera maður víðsýnn og góður búmaður, en sjerkunnáttu þarf ekki meiri en svo, að sæmilega skynsömum mönnum, sem fengju slíka trúnaðarstöðu, myndi veita það ljett að setja sig inn í hana.

Þá spurði hv. þm. (HK), hvað ætti að rannsaka í sambandi við þetta, og hvort það ætti að sameina þessar æðstu stöður þarna. Rannsóknin fer vitanlega fram þannig, að það er athugað, hvort þetta getur samrýmst neðan frá og upp úr gegn, þessar tvær greinir samgöngumálanna; en hvað það atriði snertir að láta einn og sama mann hafa æðstu ráð með höndum í þessum málum, þá getur maður kannske sagt, að ekki þurfi að rannsaka það beinlínis, en það þarf að minsta kosti að athuga það rækilega, en annars er það venja að nota þetta orð, rannsókn, í slíkum tillögum, meðfram af því, að það er ætlast til þess, að ráðherra fái umsagnir frá mönnum, sem hafa sjerþekkingu í þeim greinum, sem um er að ræða; það er ætlast til, að þeir athugi það og rannsaki.