28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í D-deild Alþingistíðinda. (3312)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

Jónas Jónsson:

Jeg vildi leyfa mjer að beina einni eða tveimur fyrirspurnum til hæstv. kenslumálaráðh. (MG). Í fyrsta lagi, hvað háan styrk hann getur búist við, að hægt verði að veita þessum piltum — þeir eru víst 10 talsins, sem hugsað hafa sjer að ganga undir próf á Akureyri nú í vor. Þetta eru alt bláfátækir menn, sem eytt hafa 3 árum í mentaskólanám þar, og engan styrk fengið. Jeg vildi vita, hvort styrkurinn yrði miðaður við námsstyrk mentaskólasveina, eða hafður hærri, með það fyrir augum, að piltarnir hafa engan styrk fengið áður. Í öðru lagi vildi jeg mælast til, að orðalagi tillgr. væri breytt. Það stendur, að ferðastyrkur þessi nái aðeins til vorsins, sem nú fer í hönd. En af því að gera má ráð fyrir, að strax á næsta vori þurfi líka að útskrifa stúdenta frá Akureyrarskóla, þá virðist mjer, að standa ætti í till., að regla þessi gilti framvegis.

Jeg álít, að því sje ekki þannig farið, að þessir piltar eigi auðvelt með að taka stúdentspróf hjer. Jeg hefi talað við einn af kennurum mentaskólans og spurt hann að því, hvort það væri rjett, sem jeg hefi heyrt, að samtök væri milli kennara hjer um að neita þessum piltum um tímakenslu fyrir stúdentspróf. Hann sagðist halda, að ekki væri um nein samtök að ræða, en rektor mentaskólans hefði beðið sig að taka norðanpiltana ekki til kenslu undir stúdentspróf, og því kvaðst hann hafa lofað.

Jeg býst nú við, að fyrst rektor þótti það svona miklu máli skifta, að þessi stúdentaefni fengju ekki tilsögn hjer undir próf, þá hafi hann farið fram á þetta við fleiri kennara en þennan eina. Og þá ætla jeg, að hv. þdm. geti orðið það ljóst, að þessir norðanpiltar eiga kaldra griða að vænta hjer, þá er þeir koma til prófs. Jeg hefi aldrei heyrt, að rektor hafi nokkru sinni áður komið með slíka beiðni til kennara, vegna utanskólanemenda. Sumir kennarar geta ekki tekið pilta í tímakenslu undir próf, vegna tímaleysis, en aðrir, svo sem þessi kennari, sem jeg mintist á áðan, en það er dr. Ólafur Dan. Daníelsson, hafa aftur á móti hjálpað mörgum piltum. Utanskólanemendum — og til þeirra verða nemendur frá Akureyrarskóla nú að teljast — er það nauðsynlegt að fá að vita áður en til prófs kemur, hvað það er, sem kennarar leggja áherslu á, og að kynnast þeim, því að þá hafa þeir að mörgu leyti betri aðstöðu, er til prófs kemur.

Þessi beiðni rektors gerir piltum erfitt fyrir um próftöku og leiðir til þess, að þessir piltar falli fremur en aðrir, vegna þess, að þeir hafa verri aðstöðu við próf.

Jeg veit, að sumir af þessum piltum hafa nú, er þeir fengu vitneskju um þetta, fremur hugsað sjer að taka stúdentspróf erlendis. Og það skiftir landinu engu um styrk til þeirra, hvort þeir taka prófið hjer, í Noregi eða Danmörk, því að þeir fengju ekki meiri ferðastyrk til þess að taka próf ytra heldur en hjer. En það ætti hv. þdm. að vera ljóst, að óviðfeldið er að neyða pilta til þess að taka próf hjer, eftir það, sem á undan er gengið.

Byrjun málsins er sú, að nokkrir menn á Akureyri, þar á meðal bæjarfógeti og Böðvar Bjarkan lögmaður, hafa ritað brjef um prófrjettindi þessara pilta norður frá. Þessir tveir menn eru að minsta kosti eins góðir lögmenn og guðfræðisprófessor við háskólann. Hæstv. stjórn leitar svo álits rektors mentaskólans um það, hvort þessir piltar megi ganga undir próf nyrðra, og hann svarar aftur með mjög kuldalegu brjefi. Og upp á hans „autoritet“ er svo beiðni piltanna synjað. En síðan, þegar það kemur til mála, að piltarnir fái að ganga undir próf hjer, þá eru hjer gerðar ráðstafanir, sem virðast miða að því að fella þessa pilta við próf. Um alla þessa framkomu er það vægast sagt, að hjer er stórhneyksli í uppsiglingu. Það á að neyða þessa pilta til þess að ganga undir próf þar, sem ekki á hið sama að ganga yfir þá og aðra. Ef prófið á svo að vera mælikvarði á það, hvað þeir eru vel að sjer í samanburði við aðra, þá fer að verða undarlegt rjettlæti í landinu.

Jeg hefi líka heyrt, að nemendur í 6. bekk mentaskólans óski einskis fremur en þess, að piltarnir komi ekki að norðan. Af hverju? Af því að þeir búast við því, að prófið verði þá gert miklu þyngra heldur en ella, til þess að gera norðanpiltum sem erfiðast fyrir.

Jeg álít, að þeir fylgismenn hæstv. stjórnar, sem hafa fylgt þessu máli fram í þeirri góðu trú, að þeir væru að gera rjett, muni nú eftir þetta eigi vilja halda áfram í sömu stefnu.

Vona jeg, að hv. flm. (JKr) og hæstv. stjórn vilji fallast á till. mína, að ákveða styrkinn hæfilegan, og að það sje ótiltekið, hvar þessi stúdentaefni taka próf, því að það kemur ekki Alþingi við.