29.04.1927
Efri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í D-deild Alþingistíðinda. (3327)

101. mál, styrkur handa stúdentaefnum frá gagnfræðaskólanum á Akureyri

Jónas Jónsson:

Jeg vil nota þetta tækifæri til að fá hæstv. ráðh. (JÞ) til að láta í ljós álit sitt um framkvæmd þessarar till. Þegar hún var fyrst til umr. hjer í þinginu, skýrðu flm., hvað fyrir sjer vekti, sem sje það, að þessir piltar fengju styrk til að standast venjulegan ferðakostnað og dvalarkostnað. Þetta hefir nefndin fallist á, nema það sannist, að einhverjir námsmannanna sjeu beinlínis efnaðir, þannig, að óþarfi væri að styrkja þá. En hæstv. ráðh. (JÞ) ljet þau orð falla við fyrri umr. málsins, að hann teldi sig ekki bundinn af tillögunni. Jeg vildi heyra álit hæstv. forsrh. (JÞ) um það, hvort till., eins og hún er nú, er ekki svo vel í hóf stilt, að greiddur verði ferðakostnaður og dvalarkostnaður til þessara pilta, sem kunna að koma að norðan.

Þótt hæstv. mentmrh: . (MG) sje ekki við, vil jeg samt nota tækifærið til að segja það, að jeg álít, að það sje orð í tíma talað, sem hann sagði við fyrri umr. þessa máls, að hann áliti það óforsvaranlegt, ef um samtök hefði verið að ræða á móti þessum aðkomumönnum frá kennurum mentaskólans. Jeg sagði, að jeg hefði haft það eftir einum kennara þar, að hann hefði verið beðinn um að kenna þeim ekki. Þetta vil jeg benda hv. 2. landsk. (IHB) á, að þegar þeir aðilar, sem höfðu haft þessa meðferð á málinu, hefðu fengið vissu fyrir því, að mentmrh. landsins var á móti þessu, þá myndu þeir hafa lækkað seglin, og eins og Alþingi sýnir þessum piltum nokkra samúð með því að styrkja þá, má vonandi vænta þess, að þeir verði ekki beittir neinni ósanngirni. En verði það samt gert, þá eru hjer þeir menn til eftirmáls, að það verður ekki látið ómótmælt viðgangast.