07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í D-deild Alþingistíðinda. (3353)

127. mál, ríkisrekstur útvarps

Klemens Jónsson:

Það er í rauninni óþarfi að tala langt mál frekar, eftir þær undirtektir, sem hæstv. ráðh. (MG) hefir veitt. En jeg hafði ásett mjer að standa hjer upp til að styðja till., sem jeg álít mjög nauðsynlega.

Jeg held mjer sje óhætt að fullyrða það, að allir bæjarbúar hafi fagnað því, þegar hjer var stofnað fjelag í þeim tilgangi að reka útvarpsstarfsemi. Jeg get sagt það fyrir mitt leyti, að jeg varð mjög glaður og útvegaði mjer strax tæki og gekk í fjelagið. En jeg hefi orðið fyrir miklum vonbrigðum, og jeg hygg, að allur almenningur hafi líka þóst verða fyrir vonbrigðum.

Fjelagið ljet, er það var stofnað, í ljós það markmið, að það ætlaði að útbreiða útvarpið og gera það alment. En jeg held, að það hafi reynst svo frá allra fyrstu byrjun, að það hafi tafið fyrir útbreiðslu þess á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi með háu gjaldi. Það ljet sjer ekki nægja minna en 50 kr. ársgjald, þar við bættust svo mjög dýr tæki og sjerstakt stofngjald, 85 kr., á hvern notanda.

Þetta var í byrjun alt of dýrt og sjáanlegt, að með því móti yrði útvarpið ekki alment menningarmeðal.

En hvað fengu svo útvarpsnotendur fyrir þessi háu gjöld? Ýmislegt gott, en fleira ljelegt. Við höfum fengið guðsþjónustur á hverjum sunnudegi, og er það auðvitað út af fyrir sig gott, einkum fyrir gamalt fólk, sem ekki er fært um að troðast inn í kirkjurnar hjer, sem venjulega eru fullar. Stöku sinnum eru haldnir fyrirlestrar, en þeir eru misjafnir, eins og gengur, og sumir mjög ljelegir. Hljóðfærasláttur er á hverju kvöldi frá sjerstöku kaffihúsi í bænum, og vil jeg sem minst um hann tala. Oft er ennfremur „grammófónmúsík“, og geta menn alveg eins notið hennar heima hjá sjer á sitt eigið hljóðfæri, því að flestir, sem efni hafa á útvarpstækjum, eiga líka „grammófón“, og er það sannarlega ljettmeti að bjóða fólki fyrir hátt gjald. Nú nýlega er farið að segja börnum sögur og æfintýr eitt kvöld í viku, og er það vitanlega vel þegið. Þá er daglega útvarpað gengisfrjettum og veðurskeytum, og það kemur auðvitað að gagni, ef á annað borð er hægt að heyra það. En eitt heyrist þó altaf yfirgnæfa það, sem útvarpað er, og það er „tikk, takk, tikk, takk“ frá loftskeytastöðinni. Jeg veit ekki, hvernig heyrist á sjónum, en á landi nær stöðin skamt. Norður á bóginn heyrist ekki vel lengra en upp í Borgarfjörð og austur eftir ekki lengra en undir Eyjafjöll. Útvarpsstöðin hjer er því alveg ónóg.

Það er lítið gagn í að hlusta á fyrirlestra á kvöldin, ef svo er eilíft „tikk takk“ frá loftskeytastöðinni til að trufla. Jeg verð að álíta, að þetta áhald sje mjög merkilegt fyrir Íslendinga, ekki aðeins til gamans og dægrastyttingar, heldur og til mikils gagns. Þykir mjer því full ástæða til að sýna málinu meiri sóma en þetta fjelag hefir gert.

Því miður hefir reynslan sýnt, að mikil mistök hafa orðið hjá fjelaginu. Því álít jeg tillögu hv. 1. þm. Reykv. (JakM) eðlilega og rjettmæta. Jeg er sammála honum um, að gott sje, að rekstur útvarpsins sje í höndum hins opinbera. Úr því að hæstv. atvrh. (MG) hefir tekið svona vel í málið, vænti jeg, að það nái fram að ganga.