12.05.1927
Efri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (3359)

121. mál, landsspítali

Flm. (Halldór Steinsson):

Á þinginu 1925 flutti jeg þáltill. um viðbótarbyggingu við geðveikrahælið á Kleppi og um landsspítalann. Jeg skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa þann lið, sem snerti landsspítalann:

„Árið 1926 veitist stjórninni heimild til að verja alt að 100 þús. kr. úr ríkissjóði til byggingar landsspítala, gegn jafnmiklu framlagi úr landsspítalasjóðnum, enda hafi á árinu 1925 verið varið til hennar að minsta kosti 100 þús. kr. úr þeim sjóði. Þingið gerir ráð fyrir, að þessu verki verði hagað samkvæmt síðari spítalateiknun húsameistara ríkisins, með þeirri breytingu, er síðar kynni að þykja nauðsynleg og framkvæmanleg án verulegs viðbótarkostnaðar. Ennfremur ætlast þingið til þess, að verkinu verði haldið áfram á næstu árum og byggingunni lokið í árslok 1929, ef ekki ófyrirsjáanleg fjárhagsvandræði ríkisins gera ókleift að halda henni áfram“.

Þessi till. var samþ. í einu hljóði hjer í deildinni. Mig minnir, að margir tækju til máls og allir legðust á þá sveif að styrkja afgreiðslu till. Hún var afgr. 24. apríl og send til Nd. Hún mætti þar engri andstöðu og var samþ. í e. hlj. Það var því í fullu samræmi við vilja þingsins, að stjórnin gerði samning við stjórn landsspítalasjóðsins. Sá samningur er í samræmi við og byggist á þessari þáltill. Það er því ekki rjett, sem haldið hefir verið fram við umræðurnar um fjárlögin í Nd. síðustu daga, að stjórnin hafi heimildarlaust gert þennan samning, heldur var það gert samkvæmt vilja, eða öllu heldur skipun þingsins. Samkvæmt þessum samningi, sem var undirskrifaður sama dag og málið var afgr. í Ed., skyldi landsspítalasjóðurinn leggja fram 75 þús. kr. árið 1925 og 100 þús. kr. árið 1926. Aftur á móti átti ríkissjóður ekki að leggja neitt fram 1925, en 100 þús. kr. 1926 og síðan 100 þús. kr. á ári til móts við landsspítalasjóðinn, meðan hans fje hrykki til. En eftir að hans fje væri þrotið, skyldi byggingunni haldið áfram á kostnað ríkissjóðs, uns henni væri lokið. En það er skýrt tekið fram í samningnum, að verkinu skuli lokið fyrir árslok 1929.

Nú horfir málið svo við, að því er framlög snertir, að fyrsta árið, 1925, lagði landsspítalasjóðurinn fram 50 þús. kr. Næsta ár, 1926, lagði hann fram 139 þús. kr., en ríkissjóður 155 þús. Báðir aðilar hafa því lagt meira fram það ár en samningurinn gerði ráð fyrir. Þótti það hagkvæmara vegna verksins að ljúka svo miklu það ár. Á árinu 1927 er búið að leggja fram 65 þús. kr. úr ríkissjóði, en úr landsspítalasjóði hefir ekkert verið lagt fram enn á þessu ári, en mun verða gert, ef verkinu verður haldið áfram. Alls er þá búið um miðjan vetur 1927 að leggja fram 409 þús. kr. Þegar við bætist það, sem landsspítalasjóðurinn leggur fram í ár, verður fyrir árslok að líkindum búið að verja til byggingarinnar hátt á fimta hundrað þús. kr., en gert er ráð fyrir, að verkið alt kosti 1200000 kr. Ef því á að verða lokið fyrir 1930, verður að leggja mikið fje fram þessi ár, sem eftir eru. Með tilliti til þess er þessi þáltill. flutt. Við lítum svo á, að fjárhagur ríkissjóðs sje ekki nú og muni ekki verða 2 næstu ár svo góður, að fært verði að leggja þetta fje fram að öllu leyti í fjárlögum. Því viljum við, að farin sje þessi leið, til þess að hægt sje að standa við gerða samninga, og ýta undir ríkisstjórnina að nota heimildina frá 1919. Það má að vísu segja, að stjórnin hafi þessa heimild án þess þáltill. komi til, en í henni felst þó hvatning til þess að nota þessi lög. Það er einkum með tilliti til hins örðuga fjárhags, sem þáltill. er borin fram. Með henni er ekki sagt, að stjórninni skuli skylt að taka lán, ef henni sýnist kleift að ljúka verkinu fyrir 1930 án lántöku. Við mundum vitanlega sætta okkur best við þá úrlausn. Í þessum heimildarlögum frá 28. nóv. 1919 eru taldar upp 5 byggingar, sem heimilað er að taka lán til. Þrjár þeirra hafa verið reistar án sjerstakrar lántöku, en tvær eru eftir, landsspítalinn og húsmæðraskóli á Norðurlandi. Landsspítalinn er nefndur fyrst, og var gert ráð fyrir, að sú bygging yrði látin sitja fyrir.

Jeg vænti þess, að tillögunni verði vel tekið. Hún miðar að því, að við getum haldið samninga, sem þing og stjórn hefir gert við landsspítalastjórnina.