12.05.1927
Efri deild: 72. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í D-deild Alþingistíðinda. (3361)

121. mál, landsspítali

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg vildi aðeins láta þess getið, að stjórn landsspítalasjóðsins er þess albúin að leggja fram fje, hvenær sem þess verður krafist. Að sjóðurinn hefir eigi lagt fram neitt fje það sem af er þessu ári, er aðeins af því, að þess hefir ekki verið farið á leit. Í þessu sambandi vil jeg þó geta þess, að í nóvembermánuði 1926 lagði landsspítalasjóðurinn, eftir tilmælum ríkisstjórnarinnar, fram kr. 14,000 af upphæð þeirri, kr. 100,000, sem honum ber, samkv. samningi, að leggja fram á árinu 1927. Jeg vil líka taka það fram, að við væntum þess fastlega, að verkið þurfi ekki að stöðvast í sumar, jafnvel þó að draga þurfi úr vinnukrafti að einhverju leyti. Við teljum betra, að haldið sje áfram, þó hægt fari, heldur en verkið sje látið niður falla í bili. Landsspítalasjóðurinn mun leggja fram sitt lofaða tillag, og ef til vill meira. Jeg hefi ekki neinu við að bæta það, sem hv. þm. Snæf. (HSteins) sagði. Jeg tek undir með hæstv. forsrh. (JÞ), að gott sje að fá heimildina frá 1919 endurnýjaða með þessari till., og að það komi greinilega í ljós, að menn sjeu enn á sama máli og þegar lögin frá 1919 voru afgreidd, að landsspítalinn eigi að ganga fyrir öðrum byggingum, sem gert er ráð fyrir í áðurnefndum heimildarlögum.