13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (3374)

131. mál, uppmæling siglingaleiða og rannsókn hafnarbóta

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg vil láta örfá orð fylgja till. úr garði, þótt ýmsir liðir hennar hafi komið inn á þing áður. Þannig flutti jeg 1922, ásamt núv. forsrh., till. um að mæla upp svokallaða „Grunnleið“ á Húnaflóa. vestan Vatnsness. Árið 1923 kom hún aftur fram, og var þá gerð góð grein fyrir því af núv. 1. þm. Rang. (KIJ), þáv. atvrh., hvað gert hafði verið í málinu. Kom þá í ljós, að leitað hafði verið til flotamálastjórnarinnar dönsku og fengin áætlun um uppmælingu á þessari leið ásamt fleirum. Upplýsingar þær, sem fengust, hvað snertir þessa leið, voru þannig, að þurfa mundi til mælinganna 6–8 daga í góðu veðri, en aftur voru sumar uppmælingamar svo erfiðar, svo sem undir Strandafjallgarði, að talið var, að til þeirra þyrfti 48 daga, þótt ekki væri nema 16 daga verk í góðu veðri.

Uppmælingar á innsiglingu Kollafjarðar og Bjarnarfjarðar var áætlað að tæki 10 daga. Allur kostnaður við þessar uppmælingar var áætlaður 60 þús. kr., og var þá auðvitað gengið út frá því, að fleiri uppmælingar kæmu til greina. Síðan hefir till. enn komið fyrir þingið, en ýmist verið óútrædd eða vísað til stjórnarinnar, svo sem á síðasta þingi, en ekkert verið gert í málinu frá hennar hendi.

Nú vil jeg mælast til þess, að að því verði horfið svo fljótt sem auðið er að mæla þessa leið. Get jeg drepið á helstu ástæðuna fyrir því, sem er sú, að stytta mjög mikið leið þeirra skipa, sem sigla um Húnaflóa og þurfa inn á Miðfjörð. Till. þessa flutti jeg fyrst að beiðni skipstjórans á ,,Goðafossi“, sem kvaðst þess fullviss, að leið þessi væri fær. Hann kvaðst ekki mundu hika við að fara þessa leið, ef hann hefði minna skip í förum, en á svo stóru skipi sem „Goðafoss“ væri áhættan of mikil, þar eð leiðin væri ekki mæld.

Svo hagar til, að þegar komið er austan að, verður fyrst að sigla til Grímseyjar, til þess að fá glögg mið af landi. En þótt siglt sje þangað, er ekki altaf hægt að ná Miðfirði, vegna þess, að landmiðin eru hulin þoku. Til Grímseyjar er tveggja tíma sigling, og væri því mikill sparnaður, ef hægt væri að taka af sjer þennan krók. Annað er þó, sem hefir enn þá meiri þýðingu. Vestan með ströndinni og fyrir vestan þessa siglingaleið legst oft mjög mikil þoka, þótt heiðskírt sje á austurflóanum og sömuleiðis á grynnri leiðinni. Hafa bæði „Goðafoss“ og önnur skip oft orðið að bíða 3–4 daga við þokuvegginn og engu getað áorkað, en að öðrum kosti farið grynnri leiðina, ef hægt hefði verið. Þetta er því ekki sjerstaklega gert fyrir Miðfjörð eða aðrar hafnir, sem hlut eiga þar að máli, heldur fyrir öll þau skip, sem þarna eiga leið um, og þó sjerstaklega fyrir skip Eimskipafjelags Íslands.

Þá er 2. liður till., um uppmælingu á innsiglingu á Hindisvík á Vatnsnesi. Var í fyrra drepið á, hve mikil nauðsyn væri á, að þarna væri löggilt höfn, þar sem þarna er ef til vill einhver besti staðurinn til þess að gera höfn við Húnaflóa. Ef gert verður eitthvað í þá átt, verður þarna örugg og góð höfn og afdrep fyrir þau skip, sem stunda fiski á þessum slóðum.

Þá hefir aðalsíldveiðin undanfarin ár verið þarna vestur frá, og ef snögglega kemur óveður, er það eins og að fara í næsta hús fyrir skip þau, sem fyrir utan liggja, að leita sjer afdreps í Hindisvík. Kostnaðurinn við þessa uppmælingu ætti ekki að vera mikill.

3. liður, um uppmælingu á leiðinni frá Horni austur að Norðurfirði, er settur af hv. þm. N.-Ísf.

Jeg er ekki eins kunnugur þar, en jeg tel víst, að mjög mikil nauðsyn sje til þeirrar uppmælingar, þótt vera kunni örðugra að mæla þar.

4. liður, að rannsókn sje gerð á lendingar- eða hafnarbótum á Hvammstanga við Miðfjörð og gerð áætlun um. Við þetta hefir verið gerð lítilsháttar rannsókn og uppdráttur, en jeg hefi ekki grenslast svo nákvæmlega eftir því, að jeg geti farið nánar út í það atriði. En jeg tel víst, að það, sem gert hefir verið, sje góð undirstaða undir verkið, sem ætti því að verða ódýrara.

Jeg vænti þess, að hæstv. stjórn og atvrh. taki till. vel og sjái, að hún er aðeins flutt af nauðsyn, sem snertir öll skip, er þarna þurfa um að fara. Jeg vil líka taka það fram, að þótt verkið væri svona mikið eftir áætlunum flotamálastjórnarinnar, þá er önnur aðstaða nú. Jeg býst við, að varðskipin gætu framkvæmt þessar mælingar, og hægt væri að taka þau öðru hverju frá landhelgisgæslunni að skaðlausu. Ætti verkið þá ekki að verða jafndýrt og áætlað var. Jeg ætla ekki að byggja á því, sem sagt hefir verið hjer, að varðskipin lægju inni 12 daga í mánuði. En þrátt fyrir það ætti að vera hægt að haga þessu svo, að ekki væri til tjóns fyrir vörsluna.

Mjer finst eins mikill greiði gerður Eimskipafjelagi Íslands, ef uppmælingar þessar verða framkvæmdar og fjelagið hugsar sjer að hafa skipaviðkomur á Húnaflóa, eins og ef ríkissjóður legði fjelaginu fje til styrktar á annan hátt. Fjelagið mundi fljótt komast að raun um, að þeir peningar og fyrirhöfn, sem lagðir voru í uppmælingarnar, mundu borga sig.

Vona jeg svo, að till. fái góðar undirtektir. — Um brtt. get jeg ekkert sagt, en býst við, að þær sjeu fram komnar af sömu nauðsyn og till.