13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í D-deild Alþingistíðinda. (3377)

131. mál, uppmæling siglingaleiða og rannsókn hafnarbóta

Jón Guðnason:

*) Jeg á litla brtt. við þessa þáltill., á þskj. 547, þar sem farið er fram á, að gerð verði rannsókn á lendingarbótum við Salthólma á Gilsfirði og gerð áætlun um.

Jeg hafði áður minst á þetta fyrirtæki við umr. fjárlaganna og fór fram á, að gerð væri bryggja við Salthólma, en fjell frá till., þar sem málið var ekki rannsakað til fulls. Nú hafa komið fram till. um uppmæling siglingaleiða og rannsókn hafnarbóta, og vildi jeg, að þessi staður fylgdi með, þar sem hann liggur ekki mjög langt frá þeim stöðum, er þáltill. og brtt. fjallar um. Hjer er um atriði að ræða, sem hefir mjög mikla þýðingu fyrir samgöngur þessa staðar og mundi gera gagngerða breytingu á því, hve hægt væri fyrir skipin að koma þangað og fá sig afgreidd.

Í Salthólmavík í Gilsfirði hagar þannig til, að þar er mjög mikið útfiri, svo að uppskipun verður að bíða marga tíma um fjöru, og er ekki hægt að koma henni við nema um hálffallinn sjó. En 200–300 faðma undan landi er hólmi nokkur, og er það hugmynd manna þar vestra að gera „bólverk“ við hólmann og byggja þar vörugeymsluhús. Gætu skipin þá komið þar upp að og fengið affermingu hvernig sem stæði á sjó. Þó eru menn nokkuð hikandi við þetta og vilja ekki leggja út í slíkan kostnað fyr en þetta hefir verið athugað af verkfróðum mönnum.

Vænti jeg þess, að enginn hafi neitt á móti þessari till. minni, því að kostnaður við rannsókn og gerð bryggjunnar mun bráðlega fást endurgoldinn í því, hve miklu greiðara og kostnaðarminna verður fyrir skip að fá sig afgreidd þarna.

*) Ræðuhandr. óyfirlesið.