13.05.1927
Neðri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (3379)

131. mál, uppmæling siglingaleiða og rannsókn hafnarbóta

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Mjer kemur ekki annað til hugar en að taka till. vel. En út af þeim ummælum hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ), að mál þetta hafi verið lengi á döfinni, vil jeg upplýsa, að það er sjerstaklega vegna þess, hve uppmælingin er dýr. Jeg vil þó segja, að langt sje frá því, að ekkert hafi verið gert til framgangs þessu máli. Hv. þm. upplýsti, hvað gert hafði verið 1922–23. En síðan málinu var vísað til stjórnarinnar í fyrra, hefir ýmislegt verið gert til þess að hrinda því í framkvæmd. Þegar yfirmaður flotastjórnarinnar dönsku kom hingað í sumar, átti jeg tal við hann um þetta mál. Hann skoðaði vitaskipið, og jeg ráðgaðist um það við hann, hvort hægt mundi að nota varðskipin til þessara uppmælinga. Hann kvað svo vera, ef hægt væri að taka þau til þess 2–3 mánuði samfleytt, því að þarna verður að sæta góðu veðri, og skipin þurfa altaf að vera til taks. Eftir skoðun vitaskipsins komst hann að þeirri niðurstöðu, að hægt væri að nota það, ef því væri breytt. Þá breytingu var ákveðið að gera í sumar, þar sem kostnaður við hana mundi ekki nema meiru en 4–5 þús. kr., og það er tiltölulega lítil fjárupphæð. Ennfremur lofaði yfirmaður flotastjórnarinnar að lána hingað vana menn, til þess að starfa að uppmælingunum, gegn því, að þeim væri greitt venjulegt kaup, og auk þess látinn vjelbátur, sem gæti verið skipinu til aðstoðar. Hann kvaðst verða að krefjast þess að hafa skipið til afnota 2–3 mánuði, því að verkið er mjög seinunnið. Hann benti og á, að ef á annað borð á að fá menn hingað upp frá Danmörku, þá mundi það ekki borga sig fyrir stuttan tíma.

Nú stendur svo á í sumar, að reisa á stóran vita eystra, og verður skipið upptekið við flutning til þess vita. Það varð því ofan á að fresta þessu til næsta árs. En það er loforð fyrir því að fá mennina næsta ár, með þeim skilmálum, að við kostuðum skipið og mótorbát. Jeg hefi talað um þetta við vitamálastjóra, og hvort hann gæti sjeð af skipinu um tíma næsta ár, svo að uppmælingarnar gætu farið fram, og hefir hann tekið því fremur vel.

Forstjóri flotamálaráðuneytisins danska áleit, að uppmælingin á Húnaflóa einum mundi taka 2 sumur, og áleit, að það gengi vel, ef hægt væri að ljúka því á þeim tíma. Kostnaðurinn mun ekki verða minni en 30–40 þús. kr.

Enda þótt hjer sje ekki höfð sú aðferð, sem venja er til um till., sem fara fram á fjárútlát, þá verður samt að líta svo á, þar sem uppmælingin hefir verið samþ. þing eftir þing, að stjórnin hafi heimild til þess að láta fje af hendi í þessu augnamiði.

Eftir því sem jeg nú hefi sagt, vona jeg, að hægt verði að byrja á uppmælingunum næsta ár. En jeg veit ekki. hvenær þeim mun verða lokið.

Af því að jeg er kunnugur, hvernig til hagar á Húnaflóa, þá skal jeg taka það fram, að það er mitt álit, að rjett sje að byrja á því að mæla grunnleiðina inn á Miðfjörð. Því eins og hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) tók fram, þá er það geysikrókur, sem skip verða að taka á sig, á meðan sú leið er ekki mæld upp. Það má að vísu vera, að svo reynist við uppmælinguna, að ekki verði hægt að komast þar inn á stórum skipum. En sjómenn halda þó, að hægt sje fyrir stór skip að sigla þar, ef gott er veður. Nú er skipum bannað að fara þarna um, enda þótt skipstjórar treysti sjer til þess. Eru það vátryggingafjelögin, sem banna það, meðan leiðin er óuppmæld.

Út af því, sem hv. þm. Barð. (HK) sagði, þá skal jeg geta þess, að enda þótt hann hafi ekki komið með till. um uppmælingu á Breiðafirði, þá álít jeg það ekki neitt verða til þess að seinka fyrir mælingu þar, vegna þess, að það liggja fyrir stjórninni ákveðnar óskir hjeraðsbúa um það, og svo samþyktir þingsins.