14.05.1927
Neðri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (3389)

129. mál, verslanir ríkisins

Frsm. (Magnús Jónsson):

Það er rjett hjá hæstv. atvrh. (MG), og jeg gat líka um það í minni fyrri ræðu, að það breytir nokkru um útkomuna á útistandandi skuldum áfengisverslunarinnar, að reikningar hennar eru gerðir upp um áramót. En með þessu móti kemur betur í ljós hin raunverulega mynd af ástandinu heldur en ef reikningunum væri haldið opnum fyrstu 2–3 mánuði ársins. Annað mál er hitt, að það liti betur út á pappírnum, ef reikningunum væri haldið lengur opnum fyrir innborganir, svo að andvirði þess, sem selt er gegn víxlum, væri inn komið. Útistandandi skuldir reyndust þá minni, en myndin af hag verslunarinnar á hverjum tíma væri þá ekki eins rjett.

Það var ekkert um það rætt í nefndinni, hvort telja ætti spíritus til lyfja eða ekki. En jeg fyrir mitt leyti tel það alveg tvímælalaust, að það eigi að telja hann til lyfja. Jeg vil ekki „autorisera“ hann öðruvísi en sem lyf, og það er ekki leyfilegt að versla með hann nema sem lyf. Annað mál er það, að hann kann að vera notaður öðruvísi en sem lyf, en það er ekki hægt að skilja þar á milli. Það væri óviðkunnanlegt að fara að áætla, hve mikið af spíritus sje notað sem áfengi og hve mikið til lyfja. Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar.