14.05.1927
Neðri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í D-deild Alþingistíðinda. (3395)

129. mál, verslanir ríkisins

Jón Guðnason:

Mjer þykir það, er jeg sagði áðan, hafa orðið til þess að vekja óþægilegar tilfinningar hjá hæstv. atvrh. (MG), og þó einkum hjá hv. þm. Borgf. (PO). Jeg gat ekki betur fundið en að talsvert mikill móður væri í hv. þm. Borgf., þegar hann var að tala. Veit jeg sannast að segja ekki. hvað það hefir verið, sem fyrir honum vakti með því að standa upp og láta mælskuljós sitt skína á þann hátt, sem hann nú gerði.

Hv. þm. talaði um það, að þeir menn, sem hafa verið áhugasamir um bindindi og bann, mundu ekki hafa gert það með ljúfu geði að opna landið aftur fyrir víninu, eins og gert var með Spánarsamningnum. Þetta get jeg fallist á. Og jeg hefi heldur aldrei borið það yfirleitt á þessa menn, að þeir hafi gert þetta með ljettúð. Jeg talaði um þetta um daginn sem nauðung frá Spánverja hendi, sem við hefðum orðið að ganga að. Hitt er annað mál, að mjer getur ekki dulist, að það hefir ýmislegt komið fram síðan við urðum að slá þannig undan Spánverjum, sem sýnist bera þess vitni, að mönnum hafi ekki verið — sumum að minsta kosti — eins óljúf þessi undanlátssemi eins og maður hefði getað búist við.

Þetta mál horfir kannske nokkuð öðruvísi við þar, sem jeg þekki best til, heldur en þar, sem hv. þm. Borgf. (PO) er kunnugur. Þar, sem jeg þekki til, er það svo nú til margra ára — og það eins eftir að leyfður var innflutningur á Spánarvínum, að vínsala eða drykkjuskapur hefir ekki átt sjer stað. En eigi að síður er almenn gremja yfir því, að hafa orðið að láta þannig undan útlendri þjóð um fyrirkomulag hjer heimafyrir. Og mjer er óhætt að segja, að það er ríkjandi skoðun þar, að okkur beri að gera alt, sem hægt er, til þess að losa af okkur þetta helsi, sem á okkur var spent. Það er skoðað sem stórt sjálfstæðisatriði fyrir okkar þjóð, að þetta megi verða. Jeg lít því á þetta mál sem hreint og beint sjálfstæðismál okkar gagnvart þessari þjóð, sem í þessu efni kúgar okkur, um leið og það vitanlega er siðferðismál, þar sem það hefir svo mikla þýðingu til þess að draga úr þeirri ofnautn áfengis, sem á sjer stað í landinu.

Jeg hefi ef til vill átt að skilja svo orð hv. þm. Borgf. (PO), að mjer færist ekki um þessi mál að tala, þar sem hann sagði, að mikið væri undir því komið, hver stæði bak við till. í þessa átt og bæri fram. Jeg vil í þessu efni algerlega vísa frá mjer þeim dylgjum, sem komu fram frá hv. þm. Borgf. Það er alveg satt, að jeg hefi aldrei verið í þeim hóp, sem ýmsir flokksbræður hv. þm. Borgf. kalla þröngsýna og einsýna templara; og jeg hefi heldur aldrei talið mig þurfa þess með, sökum þess, að jeg hefi sjálfur aldrei fundið til neinnar ástríðu gagnvart áfengi, þótt jeg ekki sjái neitt á móti því, að neyta þess í góðum kunningja hóp. Enda er það vitanlegt, að það, sem vakir að minsta kosti fyrir hinni íslensku þjóð út um landið, sem horfir á áfengisbölið álengdar, það er ekki neinn ofsi gagnvart öllum þeim, sem að einhverju leyti neyta áfengis. Það er óánægja yfir þeirri misbrúkun, sem hefir átt sjer stað, að því leyti sem það átti að nota til lyfja, og ennfremur óánægja út af því, hversu óþarflega virðist hafa verið gengið langt gagnvart Spánarsamningnum um það, að hafa svo marga vínsölustaði sem raun er á, og í þriðja lagi að gera áfengið svo aðgengilega vöru, með því að lána það út, eins og hefir átt sjer stað.

Jeg tek því þessi orð hv. þm. Borgf. (PO) sem vott um gremju, sem hjá honum býr yfir þeim ásökunum, sem komið hafa fram opinberlega í garð þeirra manna, sem ekki hafa viljað gera hinar ítrustu ráðstafanir, sem stungið hefir verið upp á til þess að fyrirbyggja misbrúkun áfengis. Jeg fyrir mitt leyti hefi í því efni ekki ásakað neinn eða neina fyrir neitt annað en það, sem hefir komið fram algerlega opinberlega. Jeg hefi vítt misbrúkun á þeim rjetti, sem læknum er gefinn og einnig að því er snertir áfengisverslunina, og jeg hefi vítt undanlátssemi að óþörfu við Spánverja. (Atvrh. MG: Hver á sökina á því?). Jeg gat um það um daginn, að í Spánarsamningnum er þess hvergi getið, hversu útsölustaðir ættu að vera margir. Hæstv. forsrh. (JÞ) bar af sjer sökina um þetta efni — og jeg hygg að hann hafi á rjettu að standa — en þá er sökin hjá þeirri stjórn, sem kom þessu í kring áður; jeg tek það fram, að mjer er engin ánægja að koma þessu á hæstv. núverandi stjórn.