18.05.1927
Efri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í D-deild Alþingistíðinda. (3417)

133. mál, lánsstofnun handa bátaútveg landsins

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Þáltill. um skipun milliþinganefndar til að rannsaka hag bátaútvegsins var vísað til sjútvn. Nefndin hefir nú íhugað þetta mál og borið hjer fram aðra þáltill. um það, er henni þótti sjerstök ástæða til að rannsaka í þessu máli, og það er, hvernig megi verða auðveldara en nú er fyrir bátaútveginn að fá rekstrarlán, og þó með betri kjörum. Þetta fanst nefndinni ástæða til, að ríkisstjórnin rannsakaði, án þess að vísa því til milliþinganefndar; enda er verkefni hennar ærið fyrir því. Sjútvn. veit, að bátaútvegurinn á við afarmikla erfiðleika að stríða um rekstrarlán — vafalaust alstaðar á landinu, og ef ætti úr því að bæta að gagni, þyrfti mikið fje. Það er nú svo, að flestir útvegsmenn, smáir og stórir, þurfa lánsfjár við, og þau eru oft dýr og óhentug, t. d. kaupmannalán, eða þá víxlarnir, sem þeir fá hjá bönkunum, en verst af öllu er þó það, að bátaútvegsmenn eiga yfirleitt afarerfitt með það, að fá sjer lán til rekstrarins.

Fyrir skömmu var ræktunarsjóðurinn stofnaður fyrir bændur, og byrjaði hann með stofnfje, sem nam alt að einni miljón króna. Auk þess voru ræktunarsjóðnum ætlaðar tekjur með sjerstöku gjaldi af útflutningsvörum, og það er vitanlegt, að allmikill hluti þess fjár kemur frá sjávarútveginum.

Jeg verð að segja, að mjer fanst, þegar þessi skattur var lagður á, dálítið óeðlilegt, að hann rynni til ræktunarsjóðsins, og nær sýndist liggja, að honum hefðu verið ætlaðar tekjur beint úr ríkissjóði. Það virðist eðlilegra, að þessum tekjum af sjávarafurðum væri varið til að stofna eða styðja lánstofnun handa sjávarútveginum heldur en ræktunarsjóðnum, þótt jeg fullkomlega viðurkenni nauðsynina á lánsstofnun handa landbúnaðinum. En samkv. lögunum frá 1925, um að hækka útflutningsgjald úr 1% upp í 1½%, þá átti þessi auking á útflutningsgjaldinu árin 1925 og 1926 að ganga til ræktunarsjóðsins, en ¼ aukningarinnar gengur áfram til sjóðsins, þar til ræktunarsjóðurinn á þenna hátt hefir fengið 1 milj. kr. En nú getur hæstv. stjórn upplýst, hversu langt muni enn líða, þar til þessari fjárhæð er náð, og athugað með hliðsjón af því, hvort tiltækilegt þætti að fara svipaða leið, að því er snertir lánssofnun þá, er hjer um ræðir. Einnig þarf að rannsaka það, hvort ekki sje ástæða til þess að koma upp mörgum lánsstofnunum, er starfi sjálfstætt, hver í sínu hjeraði, og einnig má þá athuga, hvort ekki mætti hafa þær í sambandi við sparisjóðina út um landið. Líka er sú leið, að hafa aðallánsstofnun í Reykjavík með deildum eða útibúum út um land, og að hún fengi styrk frá ríkissjóði eða henni væru ætlaðar sjerstakar tekjur eins og ræktunarsjóðnum.

Í góðum árum, eins og var 1924, gæti komið til mála að ákveða einhvern sjerstakan skatt af gróða á afla eða verði aflans, sem gengi til þessarar stofnunar.

Það liggur vitanlega í augum uppi, að bátaútgerðin gæti gengið betur, ef menn ættu aðgang að betri lánskjörum en nú eru á rekstrarfje, til dæmis alls ekki hærra en 6% í stað þess, að nú verða menn að greiða 7½–8% af víxlum sínum í bönkunum hjer, sem að mestu eru framlengingarvíxlar og njóta því eigi hinna lægri vaxtakjara, sem þeir fá, er geta borgað víxla sína að fullu eftir fyrstu 3 mánuðina. Og svo er það, sem er mesta meinið: menn fá ef til vill alls engin lán til þessarar útgerðar, og annaðhvort geta ekki haldið úti bátum sínum, eða útgerðin verið þeim á ýmsa lund miklu dýrari, af því að þeir verða háðir viðskiftamönnum þeim, er lána útgerðarmönnum, og njóta því ekki bestu kjara. Þeir, sem þurfa t. d. að kaupa veiðarfæri á bátana, fá þau ódýrari, ef þeir hafa peninga í höndunum, og það munar meiru en því, sem þeir þurfa að greiða í vexti af þeim peningum. Og þó eru vextirnir svo háir, að nærri lætur, að tíunda hver króna fari í þá, og er því mjög skiljanlegt, að þessi atvinnuvegur eigi mjög erfitt uppdráttar.

Það má vel vera, að finna megi aðrar leiðir til úrlausnar á þessu máli en jeg hefi bent á. En þetta mál þarf að rannsaka, í samráði við þá menn, sem því eru kunnugastir, og er sjálfsagt að hafa þar í ráðum stjórn Fiskifjelagsins.

Þá vil jeg fyrir hönd sjútvn. taka það fram, að hún álítur bátaútveginn svo mikilsverðan þátt í atvinnulífi þjóðarinnar, að hann sje þess verður, að mikið sje á sig lagt hans vegna, svo að hann leggist ekki í rústir, vegna skorts á rekstrarfje og erfiðra vaxtakjara. Því sá arður, sem hann gefur af sjer, dreifist miklu víðar og kemur að betra haldi fyrir þjóðarheildina en afraksturinn af framleiðslu hinna stærri útgerðartækja.

Jeg vænti svo, að hæstv. stjórn taki vel í þetta og athugi, hvort ekki er hægt að hrinda á stað framkvæmdum í þessu máli sem allra fyrst.

Ekki má skiljast svo við þetta mál, að eigi sje minst á fiskiveiðasjóðinn, sem er lánsstofnun fyrir bátaútveginn. Að vísu er það einkum verkefni þessa sjóðs, að veita lán til kaupa á bátum: hann veitir engin rekstrarlán. Rjett er að athuga, hvort ekki megi auka og efla þessa lánsstofnun og gera hana færa um að inna af hendi það verkefni, sem í till. felst.

Jeg þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þessa till. En í sambandi við hana vil jeg að lokum geta þess, að erlendis stofna menn sumstaðar svonefnd lánsfjelög, til þess að útvega peningalán til atvinnurekstrar, og þykja þau hafa gefist vel, þar sem þau hafa verið reynd. Hygg jeg, að hæstv. forsrh. (JÞ) kannist við þau. Vil jeg benda á þetta sem rannsóknaratriði, og sjálfsagt er margt fleira, sem komið getur til mála í þessu sambandi.