26.02.1927
Neðri deild: 16. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í D-deild Alþingistíðinda. (3424)

42. mál, milliþinganefndir fyrir tolla- og skattalöggjöf

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg skal þegar taka það fram, að jeg álít ekki tímabært að skipa nú milliþinganefnd með því verkefni, sem þessi till. fer fram á. Og höfuðástæðuna til þess tel jeg þá, að á þessum tímum er ekki hægt að gera sjer grein fyrir útgjaldaþörf næstu ára. Höfuðástæðan til þess, að þetta yfirlit er ekki fáanlegt, er sú, að gildi peninga vorra er ekki fast enn. Jeg þarf ekki að skýra það fyrir hv. deild, að útgjöld ríkissjóðs eru að miklu leyti bundin við gildi peninganna. Meðan lággengi helst, verða útgjöldin meiri að krónutali en ef peningar væru í fullu gildi. Þetta kemur meðal annars fram í dýrtíðaruppbót embættismanna og á fleiri sviðum, þar sem við höfum orðið að setja bráðabirgðaákvæði til þess að stilla hag ríkissjóðs í hóf, vegna dýrtíðar og lággengis.

Til þess að gera frekari grein fyrir þessu, er ekki úr vegi að minnast á feril þessa máls að undanförnu.

Vandkvæðin byrjuðu hjá okkur eins og öðrum í stríðinu, og við urðum of seinir að sníða tolla og skatta eftir vexti útgjaldanna. Gáfust því ríkissjóði ekki nægar tekjur, og söfnuðust honum skuldir vegna tekjuhalla á landsreikningum.

Svo þegar stríðinu ljetti, bjuggust menn við, að veruleg breyting mundi verða á efnahag landsmanna, og leyfðu sjer að láta ríkissjóð færast í fang enn meiri útgjöld en áður. Skal jeg þar t. d. nefna skipun barnakennarastjettarinnar o. fl. En þó margt slíkt sje eflaust nytsamt fyrir landið, þá borgar það sig ekki fjárhagslega. Fór því þannig, að útgjöldin hjeldu áfram að hækka, og reyndist því óhjákvæmilegt að gera þær endurbætur á skattalöggjöfinni, sem lögleiddar voru 1921. En það hepnaðist þó ekki á þennan hátt, að útvega ríkissjóði þær tekjur, er nægði fyrir útgjöldum, og kom þar fram það, sem altaf má búast við á jafnóvissum tímum eins og þá voru og eru nú. Tekjuhallinn hjelt áfram öll árin 1921–23.

Fyrir þinginu 1924 lá það að ráða bót á þessu. Má segja, að þá hefði mátt gera þær breytingar á tollalöggjöfinni, er í samræmi hefði verið við þær till., sem hjer hafa komið fram. En það var ekki gert, og jeg tel ákaflega vel farið, að heldur var farin sú leið, er samsvaraði ástandinu, sem sje að gera þær einar breytingar á tollalöggjöfinni, er höfðu á sjer þann svip að vera bráðabirgðaráðstafanir. Af þeim hefir orðið sá árangur, sem til var ætlast, og á þinginu í fyrra voru feldar niður ýmsar þessar bráðabirgðaráðstafanir. Jeg hygg, að þessi reynsla eigi að kenna okkur, að meðan slíkur hverfleiki er á peningamálum sem nú, að við eigum að gera á hverjum tíma þær ráðstafanir, sem útheimtast í þann svipinn, en fara ekki að hugsa um tollalöggjöf fyrir framtíðina, því að það mistekst.

Út af ræðu hv. flm. (HStef) mætti margt segja, en jeg skal ekki drepa nema á einstök atriði. Hann gerði samanburð á tollum og sköttum árin 1876 og 1911 og 1915 og 1925. Jeg verð að segja, að jeg tel óheilbrigt að taka árið 1925 með, því að það er mjög óvenjulegt ár. Tollar og skattar voru þá óvenjulegir, en þeir voru ekki notaðir til eyðslu eingöngu, heldur til greiðslu skulda.

Jeg get tekið undir það, er hv. flm. (HStef) sagði næst, að opinber gjöld eru orðin mikil á mann hjer á landi, hvernig sem reiknað er. Og jeg get vel tekið undir það, að löggjafarvaldið má ekki misbrúka skattalöggjöf þannig, að hún gangi of nærri ákvæðum stjórnarskrárinnar og almenningsheill. En það vil jeg benda hv. flm. (HStef) á, að fyrir þjóðfjelagið í heild sinni verða gjöldin til hins opinbera jafnþung, þótt skákað sje frá einum tekjustofni til annars.

Það má sjá, að hv. flm. (HStef) lítur hýrum augum til verndartolla og býst við, að eitthvað slíkt muni spretta upp af starfi milliþinganefndar. Það er satt, að hverri þjóð er holt að búa að sínu, og þess vegna hafa verndartollar blómgast á síðustu árum í ýmsum löndum. En sú stefna er heimsböl, óyndisúrræði, er þjóðirnar hafa orðið að grípa til vegna stríðsins. Og ef nokkur þjóð í Evrópu ætti að óska þess, að verndartollastefnan ætti sjer sem stystan aldur, þá eru það Íslendingar, því að okkar velferð verður altaf undir því komin, að við getum selt sem mest til útlanda. Og ef við ættum nú að fara að koma á verndartollum hjá okkur, þá eigum við á hættu, að með samskonar verndartollum verði markaði lokað fyrir okkur erlendis. Við höfum þegar sjeð, að þetta getur komið fyrir. Norðmenn lokuðu saltkjötsmarkaðinum hjá sjer með verndartolli. Lík dæmi höfum við í Bandaríkjunum og á Spáni. Það hefir þó ráðist þolanlega fram úr þessum vandamálum fram að þessu. En við höfum ástæðu til að óttast það, að þeir, sem kaupa nú vörur okkar, útiloki þær með verndartollum. Við verðum að fara gætilega og styggja ekki þá, sem við viljum selja vörur okkar, því að þótt þar sje nú opnar dyr fyrir þær vörur, þá má fljótt skella þeim í lás. Við verðum að hafa það hugfast, að þessi hugsunarháttur er ráðandi nú í heiminum: „Ef þú gerir eitthvað fyrir mig, þá skal jeg gera eitthvað fyrir þig, en annars ekki“.

Lögin um verðtoll verka nú á einstöku sviðum sem verndartollur, t. d. á kjöti. Auðvitað kemur þetta ekki þeim kjötframleiðendum að neinu gagni, sem verða að selja kjöt sitt til útlanda, heldur aðeins þeim, sem njóta innlenda markaðsins. Það heldur verðinu uppi í stærri kaupstöðum landsins, en gefur engar tekjur í ríkissjóðinn.

Jeg skal aðeins minnast á það, sem hv. flm. (HStef) skaut fram, að hafa mætti hreyfanlega tolla. Mjer er ekki vel ljóst, hvað hv. þm. hefir meint. En jeg tel óheppilegt að hafa tollaákvæði, sem breyta megi án þess lög komi til Menn gætu ráðið af líkum, hvenær tollur mundi breytast og hagað viðskiftum sínum þannig, að þeir hefðu hagnað af tollbreytingunni. Jeg held, að best fari á að fylgja sömu reglu og tíðkast hefir síðustu árin, ef annars þykir nauðsyn á tollbreytingu, að gera það á þingi með lögum, sem geta gengið fljótt í gildi.

Jeg get getið þess að lokum, að mjer stendur á sama, þó að þessari till. sje vísað til 2. umr. og fjhn., ef hv. þm. sýnist svo.