26.02.1927
Neðri deild: 16. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (3428)

42. mál, milliþinganefndir fyrir tolla- og skattalöggjöf

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hafði ekki gert ráð fyrir að taka til máls, síst við fyrri umr. þessarar till. En mjer finst hjer hafa komið fram svo undarlegir hlutir, að jeg get ekki orða bundist. Hv. 4. þm. Reykv. (HjV) kom fram með alveg rjettar forsendur, en hann dró af þeim ákaflega einkennilegar ályktanir. Hann kom með þær forsendur, að meðan núverandi stjórn sæti að völdum, væri vonlaust um, að breyting fengist til bóta á skattalögunum. Af því dró hann þá ályktun, að tilgangslaust væri að skipa milliþinganefnd. Hann gleymir því, að fyrir næsta þing fara fram kosningar, og það má telja víst, að eftir þær verði ekki framar íhaldsstjóra í landinu. Því væri mjög æskilegt, að búið væri að vinna undirbúningsvinnuna að því að breyta tolla- og skattakerfinu í samræmi við skoðanir frjálslyndra manna. Ástandið mun breytast, og þá verður skattalögunum breytt, en það þarf að undirbúa þá breytingu.

Þá sagði hv. þm. (HjV), að till. mundi borin fram til þess að losna við umræður um skattamálin fyrir kosningarnar. Jeg lít alveg öfugt á þetta. Af því að kosningar eru fyrir dyrum og af því að málið er merkilegt, er einmitt nauðsynlegt, að það sje rætt. Og hvenær er meiri ástæða til að ræða málið en einmitt meðan milliþinganefnd starfar í því? Hvenær voru fossamálin meir á dagskrá en þegar þau voru í höndum milliþinganefndar? Forsendur hv. þm. voru rjettar, ályktanirnar rangar. Jeg öfunda ekki hv. þm. (HjV) af þeim meðmælum, sem hæstv. forsrh. (JÞ) gaf honum, að hann hefði tekið skynsamlega í málið.