24.03.1927
Sameinað þing: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (3440)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Flm. (Jónas Kristjánsson):

Jeg vil ekki láta hjá líða að segja nokkur orð um þessa till., áður en atkvgr. fer fram um hana, og gera grein fyrir afstöðu minni til hennar.

Því verður ekki neitað, að þeir námsmenn, sem eiga heima á Norðurlandi, eiga erfiðari aðstöðu til að ná stúdentsprófi heldur en þeir, sem eiga heima í Reykjavík. Það er skylda þings og stjórnar að gera þennan aðstöðumun sem minstan, og miðar till. í þá átt. Því hefir með rjettu verið haldið fram, að margir hinna efnilegustu námsmanna hafi verið fátækir sveitapiltar, sem hafi með dugnaði brotist áfram á eigin spýtur og sem gátu það meðan aðstaðan til námsins var betri en nú er orðið. Meðan jeg var við nám, var aðstaðan sú, að duglegir piltar gátu komist af með sparsemi og dugnaði, og þar sem þeir fengu styrk, þá komust þeir af með sumarkaupi sínu ásamt þeim styrk, sem þeir fengu. Þetta mun hafa verið svona til aldamóta, en þá breyttist aðstaðan og varð erfiðari fyrir fátæka pilta utan af landi. Og nú er svo komið, að sumarkaup pilta og námsstyrkur hrekkur hvergi nærri fyrir öllum námskostnaði, svo að ókleift er að verða fyrir fátæka pilta að komast áfram. Hinsvegar eru margir þessara manna þannig gerðir, að þeir njóta .sín ekki nema þeir komist á rjetta hillu í lífinu, og þjóðin fer á mis við góða starfskrafta, ef hún missir þá frá náminu.

Þetta er það, sem veldur því, að hjer er farið fram á, að fátæk stúdentaefni geti tekið próf fyrir norðan, án þess að fara suður, og þannig sparað sjer kostnað, er af þeirri ferð leiddi. Þingið hefir áður litið á þetta mál með sanngirni, því að það hefir veitt þessum piltum styrk til að geta stundað nám sitt fyrir norðan. Nú eru þarna stúdentaefni fyrir norðan. Þá er spurningin: Er nokkuð á móti því, að þeir geti tekið prófið fyrir norðan undir eftirliti prófdómenda, sem Háskóli Íslands sendi norður til þess að sjá um, að prófið yrði ekkert „humbug“, heldur í fullu samræmi við kröfur þær, sem gerðar eru við stúdentspróf hins alm. mentaskóla í Reykjavík?

Það er auðvitað minni kostnaður við það að senda einn prófdómanda norður á Akureyri heldur en við að veita piltunum styrk til að fara suður og taka prófið. En fengist ekki, að piltarnir mættu taka próf fyrir norðan, þá vildi jeg auðvitað heldur að þeir fengju styrk til að fara suður heldur en að þeir færu á mis við hvorttveggja. Þyrftu þeir þá ekki að missa neins í af því fje, er þeir þurfa til náms næsta vetur.

Jeg vil í þessu sambandi taka það fram, að kennararnir við gagnfræðaskólann á Akureyri eru mjög samviskusamir menn og færir, og þeir eru mjög vel hæfir til þess að búa þessi stúdentaefni undir próf, og þeir hafa lagt mikla áherslu á það.

Ef ekkert mælir á móti þessu að öðru leyti, þá sje jeg ekkert athugavert við það, að það sje framkvæmt. Mjer gengur ekkert annað til, er jeg mæli með þessari till., en það, að jeg vil hjálpa þessum fátæku stúdentaefnum, þar sem jeg veit, að efnahagur þeirra er erfiður. Mjer er það því viðkvæmt mál, að þeir fái að taka próf nyrðra. Mjer er kunnugt um, að þeir hefðu alls ekki getað stundað nám og búið sig undir próf annarsstaðar en fyrir norðan. Og þar hefir kostnaðurinn orðið þeim mjög lítill.

Ef þessi till. er ekkert á móti lögum háskólans, þá get jeg ekki sjeð, að neitt mæli á móti henni, þar sem hægt er að hafa við þetta fyrirhugaða próf eftirlit með því, að það sje í samræmi við kröfur háskólans.

Jeg skal svo ekki orðlengja um þetta mál. Mjer er það áhugamál, að þessum stúdentaefnum sje gert ljett fyrir með að ná prófi, að því er til kostnaðarins kemur.