24.03.1927
Sameinað þing: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í D-deild Alþingistíðinda. (3442)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Flm. (Jónas Kristjánsson):

Jeg verð að játa það, að mjer kom kynlega fyrir sjónir þetta svarbrjef háskólaráðsins, þar sem jeg einmitt hafði átt tal við Sigurð Guðmundsson skólameistara á Akureyri nú í vetur, og hann sagt mjer, að hann hefði fengið tilkynningu frá háskólaráðinu, þar sem tekið væri

fram, að ekkert væri því til fyrirstöðu frá þess hálfu, að stúdentaefni frá Akureyri fengju að taka próf þar. En þar sem mjer gekk ekki annað til með flutningi þessarar till. en að vilja ljetta kostnaði af þessum fátæku piltum fyrir norðan, við það að fara suður, þá get jeg sætt mig við það, að piltarnir verði látnir fá styrk til ferðarinnar suður, heldur en að fara að etja kappi við háskólaráðið og taka próf nyrðra í trássi við háskólann og missa af þeim rjettindum, sem hann veitir.

Jeg tel það vera hagsmunamál fyrir þjóðina, ef efnilegum mönnum er hjálpað áfram, þannig að þeir komist í þær stöður, sem þeim hentar best.

Eftir svari háskólaráðsins að dæma, er stúdentapróf það, sem hjer er farið fram á, brot á lögum háskólans. Jeg vil því ekki bera ábyrgð á því, að verið sje að etja kappi við háskólaráðið og koma ef til vill með því í veg fyrir, að þeir, sem tækju stúdentspróf við skólann á Akureyri, fengju inngöngu í háskólann. Til þess var till. vor ekki fram borin. Jeg get því, úr því sem komið er, fallist á rökst. dagskrá, er hv. þm. Ak. (BL) ber fram.