24.03.1927
Sameinað þing: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í D-deild Alþingistíðinda. (3444)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Einar Árnason:

Það hefir nú komið á daginn, að menn ætla sjer að fara krókaleiðir til þess að koma máli þessu fyrir kattarnef. Jeg get ekki betur sjeð en að hjer hafi verið kallaðir til aðiljar, sem ekkert hafa um málið að segja. Á jeg þar við rektor mentaskólans. Annars skal jeg ekki frekar fara út í álit hans. Hitt var auðvitað sjálfsagt, að leita álits háskólans. Í erindi hans er gefið í skyn, að hann ætli ekki að taka við þeim stúdentum, er ganga undir próf fyrir norðan. Ber hann fyrir sig 17. gr. háskólalaganna, þar sem talað er um, að mentaskólinn eða honum jafngildur skóli hafi rjett til þess að útskrifa stúdenta. En jeg verð að neita því, að háskólinn hafi nokkurt hæstarjettarvald til þess að dæma um það, hvort framhaldsdeildin á Akureyri jafngildi mentaskólanum eða ekki. Sá dómur verður fyrst kveðinn upp, er stúdentaefnin hafa tekið prófið að viðstöddum þeim prófdómendum, sem fullfærir þykja. Það er langt frá því, að það sje tilgangurinn með þessari till., að stúdentsefnin fyrir norðan komist ljettara út úr prófinu en stúdentsefnin við mentaskólann. Jeg vil einmitt tryggja það sem best, að nemendurnir fái þá mentun, sem nauðsynleg er til stúdentsprófs. En það er þá fyrst, er þeir hafa tekið prófið við skólann, að hægt er að dæma um, hvort framhaldsdeildin, sem þingið þegar hefir viðurkent, stendur lærdómsdeildinni í Reykjavík á sporði eða ekki. En þingið hefir viðurkent deildina að mínu áliti, í fyrsta lagi með því að leyfa hana, og í öðru lagi með því að veita henni fjárstyrk.

Hæstv. atvrh. (MG) og sömuleiðis hv. þm. Ak. (BL) voru að gefa í skyn, að till. kæmi í bága við gildandi lög. Jeg vil neita þessu afdráttarlaust. Það er ekkert annað en blekking að halda því fram. Jeg vil spyrja: Hefir mentaskólinn svo mikinn einkarjett til þess að útskrifa stúdenta, að Alþingi geti ekki ákveðið, að aðrir skólar geri það einnig? Jeg verð að segja, að ef svo er, þá er nokkuð mikil afturför frá því, sem var í gamla daga, þegar háskólarnir tóku við stúdentum, þó að þeir hefðu ekki gengið á neinn lærðan skóla.

Jeg vil í því sambandi minnast á Jón Sigurðsson forseta. Jeg veit ekki til, að hann gengi í neinn lærðan skóla, heldur var það prestur, sem kendi honum og útskrifaði hann. Býst jeg þó við, að enginn neiti því, að hann hafi verið jafngildur hverjum þeim stúdent, er á skóla hafði gengið og útskrifast þaðan. Nei, þetta er ekkert annað en blekking til þess að koma í veg fyrir, að fáeinir menn fái að ganga undir próf, þar sem þeir hafa hlutfallslega sömu aðstöðu og stúdentaefni mentaskólans.

Þó nú að hv. þm. Ak. (BL) ætli að þvo hendur sínar með dagskrártill. þeirri, er hann hefir borið fram, þá dettur mjer ekki í hug að taka það til greina. Jeg vil að háskólinn felli sinn úrskurð um það, hvort hann treysti sjer til að neita að taka við stúdentunum, ef þeir ljúka góðu prófi á Akureyri. En ef hann neitar því, sem hann naumast mun treysta sjer til, þá er mál til komið, að þingið skerist í leikinn. Jeg vil ekki, að Alþingi fari fyrirfram að taka af háskólanum ábyrgðina á því að ákveða, hvort hann tekur við stúdentum eða ekki.

Jeg verð að segja það, að mjer þótti einkennilegt að sjá svar háskólaráðsins nú, því að í fyrra skrifuðum við þm. Eyf. og spurðumst fyrir um, hvort nokkuð væri því til fyrirstöðu, að stúdentspróf yrði látið fara fram á Akureyri. Og svarið var alt annað en það nú er. Það má vera — mjer er það ekki kunnugt — að aðrir menn sitji nú í háskólaráðinu en í fyrra.

Jeg gerðist flm. þessarar till., af því mjer er ljóst, hversu mikil vandkvæði eru á því fyrir piltana að fara hingað suður til þess að taka próf hjá kennurum, sem þeir engin kynni hafa haft af. Það liggur í augum uppi, að aðstaða þeirra er ólíkt lakari heldur en þeirra stúdentaefna, sem stundað hafa nám að miklu eða öllu leyti hjer við mentaskólann. Útkoman af prófi þeirra hlýtur að verða lakari heldur en ef þeir fengi að taka prófið þar, sem þeir hafa verið við námið, og hjá sínum eigin kennurum. Og því má heldur ekki gleyma, að lokaprófið er öllum nemendum viðkvæmt.

En ef um þetta mál fer svo, að þessir piltar neyðast til að leita hingað til prófs, þá er það eingöngu vegna hótunar háskólaráðsins um, að ekki verði við þeim tekið, ef þeir taka prófið fyrir norðan. En þrátt fyrir ákvæði 17. gr. háskólalaganna, þá fullyrði jeg, að háskólinn getur tekið við þeim, ef hann aðeins vill, enda gaf háskólaráðið ekki neitt í skyn í fyrra, sem benti í gagnstæða átt.