24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í D-deild Alþingistíðinda. (3449)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Magnús Jónsson:

Jeg skal nú ekki leggja mikið til umræðnanna um þetta mál. En af því að það hefir verið borið fram, að háskólaráðið hafi gefið umsagnir hvora á móti annari í fyrra og nú, þá vil jeg bera blak af því, þótt jeg eigi ekki sæti í því, því að þetta er ekki rjett. Jeg hefi náð í brjefið, sem háskólaráðið ritaði í fyrra, í tilefni af fyrirspurn frá þingmönnum Eyfirðinga, hvort nokkuð sje því til fyrirstöðu frá sjónarmiði háskólans, að gagnfræðaskólanum á Akureyri sje veittur rjettur til þess að útskrifa stúdenta. Jeg vil með leyfi hæstv. forseta leyfa mjer að lesa upp brjef þetta:

„Ef sama eftirlit er haft með stúdentsprófi á Akureyri og í Reykjavík, sjer háskólaráðið ekkert athugavert við það, að Akureyrarskóli fái rjett til þess að útskrifa stúdenta, svo framarlega sem það verður ekki talið koma í bága við háskólalögin“. Með öðrum orðum, hjer eru nákvæmlega sömu skilyrðin sett og núna í brjefinu til hæstv. ráðh. og sami varnagli sleginn. En síðan bæta tveir menn úr háskólaráðinu við:

„Jafnskjótt sem Akureyrarskóli fær svo góða kenslukrafta sem Reykjavíkurskóli, virðist mega telja Akureyrarskóla jafngildan Reykjavíkurskóla, og mundu þá stúdentar frá Akureyri fullnægja skilyrðum háskólalaganna“.

Mjer kemur það svo fyrir sjónir, að þessir tveir meðlimir háskólaráðsins gangi ekki á móti hinum, heldur bæti þeir við skýringu á því, hvað til þess þurfi, að stúdentar þessir fullnægi skilyrðum háskólalaganna, þ. e., að Akureyrarskóli hafi jafngóðum kenslukröftum á að skipa sem Reykjavíkurskóli. Það er ekki rjett, sem haldið var fram áðan, að það væri nóg, að menn tækju próf, sem jafngilti stúdentsprófi, til þess að geta innritast í háskólann. Í 17. gr. háskólalaganna stendur, að nemandinn verði að hafa gengið í skóla, sem jafngildi mentaskólanum. Það er að vísu rjett, að próf eru oft nægileg trygging, en það er þó mest trygging í því fólgin, að nemandinn hafi gengið í skóla, sem jafngildir hinum. Nú er það háskólaráðið, sem er hæsti „instans“ í þessu máli. Það er ekki til neins að metast um, hvort úrskurður þess sje rjettur, honum verður ekki áfrýjað. Í brjefinu frá því í fyrra lætur háskólaráðið ekki annað í ljós en það, að ef Akureyrarskóli sje þannig úr garði gerður, að hann fullnægi skilyrðum háskólalaganna, þá hafi það ekki á móti því að taka á móti stúdentum frá honum. En með brjefinu til ráðuneytisins, 21. mars þ. á., segir háskólaráðið, að Akureyrarskóli fullnægi ekki þessum skilyrðum. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stúdentspróf frá gagnfræðaskólanum getur, meðan svo er ástatt, eigi veitt rjett til innritunar við háskólann samkv. 17. gr. háskólalaganna“.

Þessi tvö brjef eru því alls ekki í mótsögn hvort við annað. Rökstudd dagskrá frá hv. þm. Ak. (BL) er sýnu nær. Þingið hefir það þá á sínu valdi, hvort það vill veita styrkinn eða ekki. En þó er þessi dagskrá að sumu leyti óviðkunnanleg. Þáltill., sem felur í sjer fjárútlát, verður að ræða við tvær umræður. Því er hjer verið að fara á svig við þingsköpin með þessari dagskrá, sem auk þess kemur fram skriflega á þessum fundi? Mjer virðist ekki hægt að líta á þessa pilta að norðan öðruvísi en hverja aðra utanskólamenn. Jeg fyrir mitt leyti tók flest mín próf utanskóla og datt aldrei í hug að fara fram á styrk til þess. Jeg er ekki viss um, nema með þessu sje gengið inn á hættulega braut. Aðrir skólar, sem hafa góða kenslukrafta, geta farið að ala upp stúdentaefni og síðan heimtað þeim greiddan farareyri til Reykjavíkur.