24.03.1927
Sameinað þing: 5. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í D-deild Alþingistíðinda. (3457)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg gerði sannarlega ekki ráð fyrir að þurfa að taka til máls um þessa tillögu. Jeg er sammála hv. 1. þm. Rang. (KlJ), og taldi það víst, að á grundvelli þess, sem hefir verið gert áður á Alþingi í þessu máli, myndi það nú verða auðsótt að binda endahnútinn á málið, eins og stefnt hefir verið að undanfarið, að norðlenski skólinn öðlaðist rjett til þess að útskrifa stúdenta. Vegna þess að flutningsmenn þessarar tillögu eru menn úr þremur flokkum, þá gerði jeg og hiklaust ráð fyrir, að nú loks kæmist samkomulag á um þetta sanngirnismál.

Nú er annað uppi á teningnum. Jafnvel er svo komið, að aðalflutningsmaður er fallinn frá að standa með þeirri tillögu, sem hann ber fram. Það, sem er sjerstaklega notað til þess að hindra framgang þál., er brjef háskólaráðsins. Það er skoðað sem hæstarjettarúrskurður. Jeg vil benda á, að frá mínu sjónarmiði hefir það komið fram í þessu máli, sem ekki getur með nokkru móti staðist. Í brjefinu er lagt út af því, að gagnfræðaskólinn á Akureyri geti ekki veitt rjett til að innrita í háskólann. Ástæðan er talin sú, að ekki er komin á fót fullkomin lærdómsdeild við þann skóla. Jeg vil benda á, að þessi rökstuðning getur alls ekki staðist samkvæmt því, sem gert er á hverju einasta ári. Hvenær sem er, getur maður, sem hefur lokið gagnfræðaprófi, látið innrita sig til stúdentsprófs, alveg án tillits til þess, hvort hann hefir gengið á einhvern skóla eða ekki. Ef hann stenst prófið, útskrifast hann sem stúdent, þótt hann hafi aldrei í lærdómsdeild komið í neinum skóla. Svo að jeg nefni einstök dæmi, vil jeg nefna þann eina, sem á sæti á þessu þingi, sem og er kennari við háskólann, hv. 2. þm. Reykv. (MJ). En hann lagði einmitt mikið út af brjefi háskólans. Hann hefir ekki setið í neinni fullkominni lærdómsdeild, en sat eitt ár í 3. bekk latínuskólans. Man jeg þó ekki betur en að hann tæki betra stúdentspróf en nokkur þeirra, sem tóku próf um leið.

Annað dæmi ná nefna til þess að sýna, hvað þetta er fráleitt. Brjef háskólans er undirskrifað af núverandi rektor háskólans. Þegar hann tók sitt stúdentspróf, hafði hann ekki verið einn einasta vetur í latínuskólanum og í engum lærðum skóla. Samt er hann nú rektor háskólans.

Hv. þm. Ak. (BL) og þeir, sem fylgja hans till., ganga út frá, að þessir menn megi taka prófið hjer — að ef þeir koma hingað, eigi ekki að krefjast veru í fullkominni lærdómsdeild. Enda getur sú krafa ekki staðist með nokkru móti, hvernig sem á hana er litið. Það sem vitanlega er aðalatriðið, er, að mennirnir sjeu hæfir til að útskrifast. Jeg verð því að leggja þetta svo út, að ef á að banna skólanum fyrir norðan að útskrifa stúdenta, þá sje það vantraustsyfirlýsing á kennarana, þeirra hæfileika og gagnrýni til þess að dæma um þroska þessara manna. Sömuleiðis er það vantraust á hæstv. stjórn, að hún geti ekki skipað þá menn fyrir prófdómara þarna, sem hafa næga þekkingu og eru nógu ákveðnir að skera úr um þroska nemendanna, hvort hæfir sjeu til stúdentsprófs.

Þetta vildi jeg láta koma skýrt fram, að þessar ástæður, sem aðallega er teflt fram, eru algerlega rangar, þegar betur er að gætt. Jeg er í engum vafa um, að þær eru einungis notaðar að yfirvarpi, til þess að hindra Norðlendinga frá rjetti sínum. En jeg vona, að slíkt takist ekki með krókaleiðum og óhreinni aðferð. Jeg vil sjerstaklega vitna til þess, sem hv. 1. þm. Rang. (KlJ) sagði, að það er algerlega rangt hjá Alþingi, sem búið er að láta stíga fyrsta og annað sporið til þess, að þarna verði tekið stúdentspróf, ef það sjer ekki sóma sinn í því að leyfa að stíga þriðja sporið.